fbpx
Sunnudagur 23.nóvember 2025
Eyjan

Framhaldsskólar: Guðmundur Ingi heimsótti FAS – hefur nú heimsótt alla framhaldsskóla

Eyjan
Sunnudaginn 23. nóvember 2025 09:00

Guðjón Ragnar Jónasson, skólameistari FAS, og Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í vikunni heimsótti Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu í Nýheimum á Höfn í Hornafirði. Í för með honum voru þrír starfsmenn ráðuneytisins og á móti honum tók Guðjón Ragnar Jónasson, sem er nýtekinn við skólameistarastöðunni á Höfn, ásamt starfsfólki kennurum og nemendum.

Þessa dagana er verið að vinna að hugmyndum í mennta- og barnamálaráðuneytinu um breytingar á framhaldsskólakerfinu þar sem nokkrar svæðisskrifstofur yrðu settar á fót í landinu. Með slíkum skrifstofum yrðu boðleiðir styttri og þeim einkum ætlað að sinna hluta stjórnsýslu og bæta þjónustu við skólana.

Gert er ráð fyrir að fjöldi framhaldsskóla í landinu yrði sá sami og skólarnir myndu halda sínum sérkennum og faglegu sjálfstæði. Ráðherra vill vinna þessar breytingar í samráði við skólana og hefur af því tilefni heimsótt alla framhaldsskóla í landinu auk nokkurra annarra hagsmunaaðila. Í vikunni var komið að því að heimsækja síðasta framhaldsskólann sem er FAS.

Gestirnir komu í Nýheima laust fyrir hádegi á miðvikudag. Þeir kynntu sér starfsemi Nýheima, skoðuðu skólann og ræddu við nemendur. Eftir hádegisverð var haldinn fundur með starfsfólki skólans þar sem breytingarnar voru kynntar og ræddar.

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu starfar eftir lögum um framhaldsskóla númer 80 frá árinu 1996 og lýtur yfirstjórn menntamálaráðherra. Skólinn var stofnaður árið 1987 af ríkinu og sveitarfélögum í Austur-Skaftafellssýslu. Skólinn fékk inni í húsi Nesjaskóla í Nesjahreppi og þar var hann fyrstu 15 árin en fluttist í Nýheima á Höfn í Hornafirði haustið 2002.

Hlutverk skólans er fyrst og fremst að bjóða upp á almennt bóknám en auk þess er lögð áhersla á starfsnám í samræmi við eftirspurn hverju sinni, fjallamennsku nám FAS er gott dæmi um starfsnám sem skólinn býður uppá. Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu er um 200 nemenda skóli. Í skólanum er lögð áhersla á að þjóna þörfum nemenda á persónulegan hátt með sveigjanlegu námsframboði. Fjarnám og tölvutengt nám er mikilvægur hluti náms við skólann og fer sífellt vaxandi.

Skólinn er í samstarfi við aðra framhaldsskóla um fjarnám. Markmið er fyrst og fremst að bæta aðgengi nemenda að eins fjölbreyttu námsframboði og kostur er og tryggja þeim sem bestan undirbúning undir frekara nám eða störf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt