fbpx
Fimmtudagur 20.nóvember 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd

Eyjan
Fimmtudaginn 20. nóvember 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í eðli hlutanna liggur að stjórnmálaflokkar mynda valdakerfi. Lýðræðið gerir það svo að verkum að þau eru ekki óumbreytanleg.

Síðustu kosningar og nýjar skoðanakannanir benda til þess að nýtt valdakerfi hafi skotið rótum þótt ólíklegt sé að það sé fullmótað.

Breytingin kemur ekki bara fram í nýju hlutfalli þingsæta. Hún birtist líka í því að sumir rótgrónir flokkar hafa glatað þeirri kjarnaímynd, sem þeir áður stóðu fyrir.

Kjölfestan á miðjunni

Það sýnir þessi umskipti vel að Samfylkingin, forystuflokkur ríkisstjórnarinnar, mælist nú í könnunum nærri því fylgi, sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði 1979. Hann mælist aftur á móti með sama fylgi og Alþýðuflokkurinn hafði þá.

Viðreisn er nú annar áhrifamesti flokkurinn í ríkisstjórnarsamstarfi. Flokkur fólksins, sem spratt upp sem andófsflokkur til varnar tilteknum velferðarmálum, er nú áhrifaflokkur á því sviði við ríkisstjórnarborðið.

Flokkar til vinstri við Samfylkingu eru horfnir af þingi. Ólíklegt er þó að það verði til frambúðar. Framsókn er ekki svipur hjá sjón. Miðflokkurinn nálgast nú Sjálfstæðisflokkinn, einkum eftir að hann flutti inn óblandaðan Trumpisma og róttækustu hugmyndir öfga þjóðernispopúlista og einangrunarsinna í Evrópu.

Athyglisvert er að í þessu nýja valdakerfi er miðjan kjölfestan. Það er málefnalega ný staða.

Löng þróun

Fyrsta vísinn að þessum umskiptum eftir aldamót má sennilega sjá í kosningaúrslitunum 2003. Þá tapaði formaður Sjálfstæðisflokksins í fyrsta skipti í sögunni fyrsta þingsæti í Reykjavíkurkjördæmi yfir til formanns Samfylkingar.

Málefnalega byrja umskiptin þó fyrst fyrir alvöru eftir hrun. Þingmenn sjálfstæðismanna hafa frá þeim tíma ráðið mestu um þessa málefnalegu þróun.

Í gegnum tíðina byggðust áhrif Sjálfstæðisflokksins á því að hann ávann sér traust kjósenda sem kjölfesta bæði á sviði efnahagsmála og utanríkismála.

Þessi ímynd hefur dofnað, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Hvernig gerðist það?

Tómarúmið búið til

Í flokkakerfi síðustu aldar var samstaða um varnar- og öryggismál á milli sjálfstæðismanna, jafnaðarmanna og framsóknarmanna.

Á sviði alþjóðlegrar efnahagssamvinnu var samstaða milli sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna. Framsækin utanríkisstefna á því sviði mótaði um leið umgjörð ábyrgrar efnahagsstefnu.

Eftir hrun ákváðu þingmenn sjálfstæðismanna að rjúfa þessa samstöðu við jafnaðarmenn til þess að koma í veg fyrir frekara efnahagssamstarf við Evrópuþjóðir.

Í staðinn var stofnað til formlegs samstarfs við VG og Framsókn í gegnum samtökin Heimssýn. Áhrifafólk flokkanna þriggja stýrði þeim samtökum í byrjun og mótaði á þeim vettvangi sameiginlega utanríkisstefnu þessara þriggja flokka.

Frjálslyndir alþjóðasinnaðir kjósendur voru einfaldlega skildir eftir. Þannig myndaðist tómarúm nær miðju stjórnmálanna.

Ný málefnaleg kjölfesta

Þingmenn sjálfstæðismanna sáu ekki aðra leið en að efna til stjórnarsamstarfs undir forystu VG til þess að viðhalda samstarfi flokkanna þriggja gegn frekari Evrópusamsamvinnu.

Þar samsömuðust þingmenn VG NATO og þingmenn sjálfstæðismanna samsömuðust þeirri ímynd, sem VG hafði erft frá Alþýðubandalaginu við stjórn efnahagsmála.

Í dag er Viðreisn í forystu fyrir framsækinni utanríkisstefnu á tímum mestu umbrota í alþjóðamálum frá lýðveldisstofnun og er að ávinna sér traust sem kjölfesta við ábyrga stjórn ríkisfjármála og efnahagsmála.

Nýjar átakalínur

Flest bendir til að Samfylkingin verði áfram stærsti flokkurinn og burðarás í nýju valdakerfi.

Miðflokkurinn gæti vaxið enn frekar sem helsti málsvari einangrunarhyggju.

Viðreisn er hins vegar líkleg til að verða helsta málefnalega mótvægið gegn þjóðernispopúlismanum með ábyrgri efnahags- og fjármálastjórn og framsækinni utanríkispólitík bæði á sviði varnarsamvinnu og efnahagssamstarfs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Þessir fokking baráttudagar kvenna

Nína Richter skrifar: Þessir fokking baráttudagar kvenna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nýjar ógnir og nýtt RÚV

Þorsteinn Pálsson skrifar: Nýjar ógnir og nýtt RÚV
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Glæsilegur dagur íslenskra kvenna – baráttunni fyrir frelsi og réttlæti lýkur aldrei

Svarthöfði skrifar: Glæsilegur dagur íslenskra kvenna – baráttunni fyrir frelsi og réttlæti lýkur aldrei
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Laxness á náttborðinu

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Laxness á náttborðinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þrjár leiðir til að gæta íslenskra hagsmuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þrjár leiðir til að gæta íslenskra hagsmuna
EyjanFastir pennar
18.10.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem er á móti frjálsri fjölmiðlun

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem er á móti frjálsri fjölmiðlun
EyjanFastir pennar
18.10.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Kormákseðli þjóðskáldsins

Óttar Guðmundsson skrifar: Kormákseðli þjóðskáldsins