

Hvaða lagalegu eða málefnalegu skilyrði þarf að uppfylla til að hafna beiðni höfundar um dulnefni í sjónvarpsverki? Á hvaða heimild byggir það að starfandi handritshöfundi sé sagt að dulnefni „myndi vekja upp fleiri spurningar en svör?“
Á dögunum ritaði leikkonan og handritshöfundurinn Dóra Jóhannsdóttir opinbera færslu um að nafn sitt hafi vantað í kreditlista þáttanna Húsó þegar þeir voru sýndir á RÚV. Dóra hlaut Íslensku sjónvarpsverðlaunin fyrir besta handrit sem einn höfunda þáttaraðarinnar sem byggja á reynslu Dóru af bata frá fíknisjúkdómi. Framleiðendur höfðu synjað beiðni Dóru um að fá höfundarnafn sitt ritað við þættina undir dulnefni á þeim forsendum að slíkt tíðkaðist ekki og myndi vekja upp fleiri spurningar en svör. RÚV var upplýst síðar og sýndi þættina án nokkurra breytinga. Dóra reifar málið ítarlega á vefsíðu sinni, hér.
Slík fullyrðing framleiðanda er ekki rökstuðningur og erfitt er að sjá hvernig meðferðin stenst höfundarlög nr. 73/1972. Þetta líkist því að vera skoðun, klædd upp sem regla sem hefur ekki lagastoð. Viðbrögð við þessum ágreiningi innan veggja RÚV stenst tæplega grunnreglur málefnalegrar málsmeðferðar sem er sjálfsögð og eðlileg krafa þegar höfundarréttur á í hlut.
Að halda því fram að dulnefni „tíðkist ekki“ á Íslandi er sérkennileg staðhæfing, sérstaklega í landi þar sem bókmennta- og kvikmyndasaga stendur og fellur á dulnefnum og mystík. Okkar elstu og frægustu sögur eru ágætis dæmi um það. Þessi málsmeðferð samræmist illa 4. gr. fyrrnefndra höfundalaga eða markmiði laganna. Hún stenst ekki þá einföldu kröfu að ákvarðanir sem snerta réttindi höfunda séu teknar af virðingu og innan ramma laganna. Þegar stofnanir starfa innan ramma laga nr. 23/2013 ber að gæta þess sem kemur fram í 1. gr., um rækt við menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Þjóðin sjálf samanstendur af fólki úr öllum setlögum samfélagsins með allskonar reynslu.
Þegar höfundar velja að segja erfiðar sögur úr kimum samfélagsins sem sæta fordómum, skömm eða útskúfun, þá getur dulnefni verið eina raunverulega leiðin til að opna samtalið. Þetta er hvorki athyglissýki né sérviska. Þetta er sálrænt, félagslegt og faglegt öryggisnet í litlu samfélagi.
Þegar höfundur ákveður að gefa af sér og segja viðkvæma sögu, er viðkomandi ekki aðeins að berskjalda sig fyrir gagnrýni heldur er verið að leggja undir félagslega stöðu og afleiðingar sem kunna að vera faglegar og sálrænar. Hér þekkja allir alla. Hér vita menn hvar þú býrð, hverra manna þú ert og hvaða saga er í raun og veru um þig og þitt fólk. Dulnefnið er skjöldur og leið til að segja sannleikann. Þau mótrök kunna að vakna að slíkt skapi óvissu. Slíkri óvissu er hægt að eyða með stöðluðum ferlum og skráningu. Svo einfalt er það.
Það er kaldhæðnislegt að í íslenskri kvikmynda- og bókmennasögu hafa ótal verk verið skrifuð gegn vilja sögupersóna eða aðstandenda þeirra, dómaframkvæmd endurspeglar það. Orðræðan hefur endurspeglað viðhorf um rétt listamannsins til að segja söguna. Hugrekkinu er hampað. En þegar höfundur sem vinnur út frá eigin reynslu biður um tímabundið skjól, hverjar sem ástæðurnar kunna að vera, er fullyrt að það sé óþarfi, óvenjulegt eða veki upp „spurningar.“
Ef við viljum fjölbreyttari, lýðræðislegri og þolendavænni menningarflóru, þar sem sögur úr öllum kimum samfélagsins fá að heyrast, þá verðum við að tryggja raunverulegt öryggi þeirra sem segja sögurnar. Dulnefni er verkfæri til þess að tryggja það og á að vera sjálfsagður réttur sé þess óskað. Húsó er einmitt þannig saga. Dóra Jóhannsdóttir hefur fyrir löngu síðan sannað sig sem einn færasti handritshöfundur landsins. Hún hefur í ofanálag dýrmæta reynslu og hefur einstaka færni til að miðla henni.
Íslensk höfundalög eru frá árinu 1972. Ég tek undir með sístækkandi hópi fólks sem kallar eftir breyttri og bættri löggjöf á þessu sviði. Það er vandasamt verk en bráðnauðsynlegt. Bæði hafa kerfin breyst, númiðlarnir og gervigreindin hafa kollvarpað öllum lögmálum innan geirans og þá hafa einnig viðmiðin og viðhorfin í samfélaginu líka þróast í átt að lýðræðislegri vitund um mikilvægi þess að segja fjölbreyttar sögur. Sæmdarréttur á ekki að vera valkvætt skraut.
Valdið til að setja lagaramma utan um hvaða sögur fá hljómgrunn, hvernig þær eru sagðar og hver fær að skrifa undir, á að vera í höndum löggjafans en ekki í höndum framleiðenda og ekki í höndum stofnana. Hér þarf að taka til.