
Brynjar Níelsson, héraðsdómari og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur löngum tjáð sig með kaldhæðnum hætti um samtímann í færslum sínum á Facebook. Þar ber einnig heimilishaldið á góma og hjónabandið en hann kallar eiginkonu sína, Arnfríði eEnarsdóttur landsréttardómara, einatt Soffíu.
Brynjar segir aðventuna reyna mest á hjónabandið. Til að sporna við því álagi segist hann ganga í Votta Jehóva á hverju hausti til að losna við jólaundirbúninginn og skrái sig svo aftur í Þjóðkirkjuna eftir áramót.
„Nú er að renna upp sá tími ársins sem reynir mest á styrk hjónabands okkar Soffíu. Á aðventunni er Soffía með drif á öllum hjólum og framkvæmdaþörfin eykst til muna.“
Brynjar segist allt öðruvísi skapaður og öll hans orka fari í að reyna að halda meðvitund.
„Á fyrstu árum hjónabandsins gekk þessi ofsi Soffíu svo langt að ég var sendur upp á þak í öllum veðrum til að setja upp jólaseríur og annað skraut. Hún hafði greinilega ekki áhyggjur yfir því að verða ung ekkja með tvö lítil börn. Gjarnan þurfti ég að mála allt húsið og þrífa og gengu þau þrif svo langt að ég þurfti að fá krana til að lyfta húsinu af grunninum svo ég gæti sópað hann.
Til að lifa þetta af fann ég engin önnur ráð en að ganga í söfnuð Votta Jehova á hverju hausti til að losna við jólaundirbúning og skráði mig svo aftur í Þjóðkirkjuna í janúar þegar búið var að taka skrautið niður.“