Eins og komið hefur fram býður Snorri sig fram til varaformanns flokksins á landsfundi Miðflokksins um helgina.
„Þrír þingmenn hafa boðið sig fram, Bergþór Ólason, Ingibjörg Davíðsdóttir og ég. Báðir eru meðframbjóðendur mínir sterkir fulltrúar flokksins og yrðu glæsilegir varaformenn. Hér er því ekki um að ræða baráttu á milli einstaklinga, heldur erum við mun frekar að ákveða hvernig við nálgumst hin stórbrotnu tækifæri sem blasa við flokknum,“ segir Snorri í bréfinu.
„Vindar um alla álfu blása Miðflokknum í hag, þótt hingað til lands berist stórar breytingar stundum með seinni skipum. Daginn inn og út er ég í samskiptum við ört vaxandi hóp fólks, ýmist rótgróinna stuðningsmanna okkar, nýliða eða fólks sem er alveg við það að stíga skrefið til okkar. Í þessum hópi skynjar maður þrá eftir breytingum og þrá eftir stjórnmálaafli sem ræðst af fullum þunga gegn margri þeirri óheillaþróun í okkar þjóðfélagi, sem hefur fengið að þrífast í skjóli pólitísks rétttrúnaðar,“ segir hann.
Snorri segir enn fremur að úr þessum áttum hafi honum borist hvatning til að bjóða sig fram til frekari ábyrgðar í flokknum.
„Kallað er eftir því að Miðflokkurinn taki enn frekari forystu í þjóðfélagsumræðunni og þar er mikilvægt skref að brúa kynslóðabilið í forystusveit flokksins. Nú er tækifæri til að senda skilaboð um að flokkurinn horfi til framtíðar og að við séum líka flokkur fyrir ungu kynslóðina.“
Snorri segir að reynsla hans úr fjölmiðlum hafi og komi til með að nýtast honum vel. Sú þekking sem hann hefur aflað sér þaðan sé eitt allra verðmætasta verkfærið eftir að hann hóf þátttöku í stjórnmálum og sé lykilatriði við að fá nýtt fólk til liðs við flokkinn.
„Við þekkjum það í Miðflokknum að á okkar tímum má stjórnmálaafl sín lítils ef það ætlar að reiða sig á réttláta kynningu í hefðbundnum meginstraumsmiðlum, að ekki sé talað um hér á Íslandi með okkar pólitíska ríkisútvarp. Eina leiðin er að taka málin í eigin hendur með beinu sambandi við kjósendur á okkar eigin miðlum. Um allan heim eru pólitískar samskiptaleiðir að taka stakkaskiptum og aðeins þeir sem tileinka sér það af fyllstu alvöru geta vænst kosningasigra. Árangur á þessu sviði mun skilja á milli feigs og ófeigs á komandi tímum,“ segir Snorri.
Fengi hann tækifæri sem varaformaður, segir Snorri að hann myndi hrinda af stað miklu átaki í innra starfi flokksins og efla tengslin við landsbyggðina.
„Hagsmunir landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins eru samofnir og fæðufullveldið er undirstaða samfélagsins. Þar að auki er menningarheild sveitanna ákveðinn grundvöllur lífsins í landinu, óháð því hvar menn eru búsettir. Við finnum að heildarhugsjón okkar um framtíð alls landsins á hljómgrunn meðal þjóðarinnar og njótum aukins stuðnings í öllum byggðarlögum,“ segir hann og endar bréfið sitt á þessum nótum:
„Ég spái miklum umbreytingum fram undan í íslenskri pólitík og tel að nú geti farið í hönd tími sögulegrar sóknar fyrir Miðflokkinn. Tækifærin eru þarna og það er okkar að grípa þau. Það er mikið í húfi fyrir íslenska þjóð og ég er tilbúinn að leggja mig allan fram í verkefnið. Ég bið um þinn stuðning.“