fbpx
Föstudagur 31.október 2025
Eyjan

Fjármál ríkislögreglustjóra: Ítrekuð umframkeyrsla og hallarekstur – verktakagreiðslur hlaupa á milljörðum

Eyjan
Föstudaginn 31. október 2025 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkislögreglustjóri hefur ekki sinnt því að laga stærð embættisins og starfsmannafjölda að þeim verkefnum sem fyrir liggja hverju sinni. Svo virðist sem mannahald embættisins sé enn miðað við stór einskiptis verkefni sem er lokið. Á árunum 2020-2024 fjölgaði um 79 prósent í yfirstjórn stofnunarinnar. Hallarekstur hefur aukist hratt síðustu tvö ár. Ríkislögreglustjóri þarf að laga til í rekstrinum og sníða hann að þeim fjárveitingum sem embættið fær. Mögulega þarf að stokka upp reksturinn og breyta skipulagi hans.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblaði sem dómsmálaráðuneytið lét vinna um fjármál ríkislögreglustjóra 2020-2024. Dómsmálaráðherra setti í gang úttekt á fjármálum embættisins eftir að ríkislögreglustjóri upplýsti um að horfur væru á miklum hallarekstri hjá embættinu á þessu ári ofan á rúmlega 1,2 milljarða hallarekstur í fyrra.

Greiðslur til verktaka fyrir „aðra sérfræðiþjónustu“ námu einum milljarði árið 2021 en voru komnar í 4,4 milljarða á síðasta ári. Bein launagjöld hafa rokkað á bilinu 35-60 prósent á tímabilinu og ef verktakalaunum er bætti við kemur í ljós að greiðslur fyrir vinnu hafa numið á bilinu 70-80 prósent.

Mikil fjölgun hefur orðið á öllum sviðum embættisins nema hjá greiningasviði þar sem eilítil fækkun ársverka varð. Þannig hefur fjölgun ársverka hjá alþjóða- og landamærasviði numið tæplega 130 prósentum. Almannavarnasvið hefur tvöfaldast. Athygli vekur að í yfirstjórn embættisins hefur fjölgað um tæplega 80 prósent. Ársverk fóru úr 10,3 árið 2020 í 18,4 á síðasta ári.

Starfsemin ekki löguð að aðstæðum

Varpað er fram áleitnum spurningum sem snúa að stjórnun embættisins:

Gera má ráð fyrir að einhver tímabundin fjölgun starfsmanna hafi fylgt stóru verkefnunum undanfarin ár, t.d. í stoðþjónustu stofnunarinnar. Spurningin verður þá hvort stofnunin hafi lagað starfsmannafjöldann og aðra rekstrarþætti að nýjum aðstæðum þegar dró úr stóru verkefnunum?; ársverkum fækkaði ekki árið 2024 og heldur ekki það sem af er ári 2025. Má draga þá ályktun að starfsemin hafi ekki verið löguð nægilega hratt að breyttum aðstæðum? Gæti það verið ein ástæða fjárhagsvandans?

Fram kemur að ríkislögreglustjóri lítur svo á að vandinn snúist um fjármögnun frekar en útgjöld, mörg verkefni séu „vanfjármögnuð“.

Í minnisblaðinu er vandað um fyrir ríkislögreglustjóra:

Má lesa út úr þessum orðum að stjórnendur hafi heimilað vöxt verkefna og útgjalda burtséð frá þeim fjárhagsramma sem hún stóð frammi fyrir, rammanum sem birtist í fjárheimildum 2024 og 2025? Fram hefur komið að innbyggður halli í rekstraráætlun stofnunarinnar fyrir 2025 nam 800 millj. kr. Stjórnendur virðast gera ágreining við fagráðuneytið og fjárveitingavaldið um fjárhagsramma stofnunarinnar. Ríkisstofnun á þó varla annarra kosta völ en að laga starfsemi sína að þeim fjárveitingum sem alþingi ákveður. Í reglugerð um ábyrgð og skyldur forstöðumanna ríkisstofnana segir beinlínis: “Forstöðumaður ber ábyrgð gagnvart hlutaðeigandi ráðherra á að starfsemin samræmist stefnu málaflokksins, skili tilætluðum árangri og að rekstur og afkoma sé í samræmi við fjárveitingar og áætlanir sem samþykktar hafa verið.”

Þá kemur fram það álit þeirra sem úttektina unnu að þar sem umsvif stofnunarinnar hafi aukist tiltölulega hratt á undanförnum árum ætti að vera svigrúm til að draga úr kostnaði „inn fyrir þau mörk sem ríkisstjórnir og alþingi eru tilbúin til að verja til starfseminnar.“

Fram kemur að við Íslendingar verjum 0,9 prósentum af landsframleiðslu til lögreglustarfsemi. Þetta hlutfall er hið sama og meðaltalið hjá OECD en er mun hærra en önnur Norðurlönd verja til þessarar starfsemi.

Á síðustu misserum hefur „verulegur munur verið á rekstraráætlanatölum og rauntölum í rekstri RLS. Úr bókhaldi RLS fyrir 2024 má lesa að raunútgjöld vegna 30 viðfangsefna af ríflega 50 hafi farið talsvert umfram áætlun. Á árinu settu eldgos á Reykjanesi og öryggismál í Grindavík að vísu strik í reikninginn, en mun fleiri viðföng en snertir þessar hamfarir beint fóru út fyrir ásættanleg mörk.“

Áætlanagerð í molum

Áætlanagerð ríkislögreglustjóra er gagnrýnd í minnisblaðinu:

Áætlanamunstur RLS er nokkuð flókið og áætlanir gerðar fyrir yfir 60 viðfangsefni og verkefni, sem síðan raðast saman undir sex starfssvið, auk yfirstjórnar. Erfitt getur verið að fá yfirsýn yfir áætlanir og rekstur við þessar aðstæður; ábyrgð á rekstrarstöðu verður e.t.v. ekki mjög skýr; eftirlit ráðuneytis verður erfiðleikum háð. Til að styrkja áætlanagerðina væri ráð að gera yfirviðföng í bókhaldi RLS, sem söfnuðu saman öllum viðfangsefnum innan tiltekins sviðs stofnunarinnar, að lykilþáttum fjármálastjórnunar stofnunarinnar. Einn aðili, sviðsstjórinn (fyrir yfirstjórn væri það yfirmaður stofnunarinnar), yrði ábyrgur fyrir að áætlun sviðsins væri fylgt. Yfirstjórn þarf enn fremur reglulega að fara saman yfir rekstrarstöðu og bera saman við áætlun; hún tekur væntanlega ákvarðanir um allar meiriháttar fjárfestingar. Auðvitað getur yfirstjórn samþykkt breytingar á áætlun á miðju tímabili, en hún þarf að byggja breytingar á nýrri fjármögnun eða flutningi á milli liða í upphaflegri rekstraráætlun.“

Í minnisblaðinu er hafnað þeirri skoðun ríkislögreglustjóra að vandinn sé fjármögnun en ekki útgjöld:

Ábyrgð á framkvæmd áætlana er ekki nægilega ljós; að öllum líkindum þarf að skerpa á henni í skipulagi stofnunarinnar og jafnvel efna til skipulagsbreytinga sem styðja betur við ábyrgð á rekstri í samræmi við rekstraráætlun. Hjá opinberri stofnun sem hefur fyrir fram ákveðnar fjárheimildir er stjórn á útgjaldahliðinni aðalatriði. Ábyrgð þeirra sem hafa umsjón með framkvæmd áætlunar þarf að vera skýr.“

Endurskoða þarf bókhald og jafnvel stjórnsýslu embættisins

Verkefnið fram undan hjá ríkislögreglustjóra er að lækka kostnað til að ná jafnvægi í rekstri.

Augljóst er að helsta verkefnið í rekstri RLS, nú þegar stóru óvæntu verkefnin hafa dregist saman og sérstakar fjárheimildir vegna þeirra fara hratt lækkandi, er að ná nýju jafnvægi í rekstri embættisins. Rekstrarhallinn var mikill á árinu 2024 og það stefnir í mikinn halla á árinu 2025.

Tekjurammi RLS er ákveðinn með fjárlögum og fjármálaáætlun. Fáar vísbendingar eru um að þessi rammi eigi eftir að breytast verulega í bráð; ekki er þó útilokað að mögulegum fjárveitingum verði ráðstafað til embættisins vegna varnar- og öryggismála.

Eftir stendur hjá stofnuninni að lækka útgjöld í samræmi við tekjurammann. Stefna stofnunarinnar um að lækka kostnað þegar tækifæri gefast og að segja ekki upp fólki heldur láta hjá líða að ráða í störf sem losna virðist ekki skila nægilegum árangri.

Vönduð áætlanagerð er öflugasta tækið sem stjórnendur eiga völ á til að forgangsraða í rekstrinum og til að endurheimta rekstrarjafnvægi. Endurskoða þarf bókhald og jafnvel stjórnskipulag RLS til að styrkja og einfalda áætlanagerð embættisins og gera hana að gagnsærra og virkara stjórntæki.“

Ríkislögreglustjóri sendi frá sér viðbrögð við minnisblaðinu og hægt er að nálgast það hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Hver er merkasti forsætisráðherra aldarinnar?

Björn Jón skrifar: Hver er merkasti forsætisráðherra aldarinnar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Gæsalifur og hvítvín

Óttar Guðmundsson skrifar: Gæsalifur og hvítvín
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Glæsilegur dagur íslenskra kvenna – baráttunni fyrir frelsi og réttlæti lýkur aldrei

Svarthöfði skrifar: Glæsilegur dagur íslenskra kvenna – baráttunni fyrir frelsi og réttlæti lýkur aldrei
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurður Hólmar skrifar: Treystum fólkinu sem veit hvað það er að gera

Sigurður Hólmar skrifar: Treystum fólkinu sem veit hvað það er að gera
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem er á móti frjálsri fjölmiðlun

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem er á móti frjálsri fjölmiðlun
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Þegar Zoom drap Sókrates

Nína Richter skrifar: Þegar Zoom drap Sókrates
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Benedikt Gíslason: Óvenjulegt að fá þrjú stór áföll í röð – yfirleitt líða áratugir á milli

Benedikt Gíslason: Óvenjulegt að fá þrjú stór áföll í röð – yfirleitt líða áratugir á milli