fbpx
Laugardagur 25.október 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Kvennafrídagurinn breytti öllu

Eyjan
Laugardaginn 25. október 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hálf öld er liðin frá því kvennafrídagurinn var haldinn hér á landi í fyrsta skipti, og eftir því sem lengra hefur liðið frá þeim sögulega atburði hefur æ betur komið í ljós hvað hann skipti miklu máli fyrir land og þjóð. Kaflaskilin eru raunar svo augljós, að kalla má þau veigamestu útfærslu á lýðfrelsi sem gerð hefur verið á Íslandi. Þau merkja einn stærsta atburð Íslandssögunnar.

Róttækni fékk inntak þennan haustdag fyrir fimmtíu árum. Róttækni ávann sér virðingu og vægi. Andlag hennar var upptakturinn að stórkostlegri og löngu tímabærri umbreytingu á staðnaðri og karllægri stjórnsýslu þar sem valdið var fólgið í frændhygli og flokkshollustu, og þeim einum ætlað sem voru innmúraðir og innvígðir í þrönga klíku sinna líka.

En róttæknin tók að skekja það kerfi og veikja stoðir þess. Hún gerði ráð fyrir því að fleiri fengju framgang í þjóðlífinu en hefðbundnir handhafar valdsins.

Fyrir vikið opnaðist samfélagið. Það varð frjálsara og jafnara. Og það sem mikilverðast er fyrir ásýnd þess og eðli; spillingin varð ekki jafn auðveldlega falin og áður hafði verið. Gamalt valdakerfi týndi klæðunum og stóð að lokum berrassa frammi fyrir almenningi, þeim sama og allt í einu hafði öðlast rödd á vettvangi dagsins. Eintalið vék fyrir samtali.

Það er nefnilega engin tilviljun að frjáls fjölmiðlun á Íslandi varð til á því sama ári og konur lögðu niður vinnu og minntu á samtakamátt sinn og mikilvægi í þjóðlífinu. Það var ákall í íslensku samfélagi seint á sjöunda áratug síðustu aldar og fram á miðjan þann næsta að rísa undan oki gamalla valdablokka, hvort heldur þær stjórnuðu Kolkrabbanum eða Sambandinu og höfðu alla þræði þjóðlífsins í hendi sér. Róttækar konur og réttsýnir karlar þoldu ekki lengur þá múlbindingu sem hert hafði að kjafti þeirra um ár og daga.

„ … þarna er líka rótin að kvenfrelsinu komin. Karlar áttu ekki lengur að eiga umræðuna, svo að segja útvaldir herrar sem þóttu einir hafa eitthvað til málanna að leggja.“

Hvað fjölmiðlana snerti þótti ekki lengur boðlegt að ritstjórnargreinar Vísis, þess borgaralega blaðs á seinni hluta síðustu aldar, bærust ritstjórninni utan úr bæ og enginn starfsmanna þess hefði hugmynd um hver skrifaði þær. Það var ekki fyrr en Sveinn R. Eyjólfsson, útgefandi Vísis fékk vin sinn Jónas Kristjánsson ritstjóra til að taka að sér leiðaraskrifin að í ljós kom að varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafði verið ábyrgur fyrir forystugreinum blaðsins um árabil. Og sú vitneskja lá fyrst fyrir þegar sá sami flokksgæðingur krafðist þess að fá áfram borgað fyrir tilskrifið, þótt það væri ekki lengur birt í blaðinu. Og það gekk raunar eftir, sem er önnur saga.

Þarna er rótin að ritfrelsinu komin. Dagblaðið kom til sögunnar, frjálst og óháð.

Og þarna er líka rótin að kvenfrelsinu komin. Karlar áttu ekki lengur að eiga umræðuna, svo að segja útvaldir herrar sem þóttu einir hafa eitthvað til málanna að leggja.

Það kemur svo ekki á óvart að ruðningsáhrifin væru ærin eftir uppreisnina 1975. Helgarpósturinn varð til með afhjúpandi rannsóknarblaðamennsku þar sem opinská og áður óþekkt opnuviðtöl sýndu og sögðu frá því sem raunverulega var að gerast í mannlífinu – og sú ritstjórn hafði engan áhuga á að taka lengur þátt í þeim feluleik sem ríkjandi stjórnvöldum hafði svo lengi verið hugleikinn.

Og það er heldur engin tilviljun að Samtökin 78 voru stofnuð aðeins þremur árum eftir kvennafrídaginn, og einungis tveimur árum eftir það var fyrsta konan sest á forsetastól á Íslandi, og raunar á jarðarkringlunni allri. Það er einnig eftir öðru að fjórflokkurinn byrjaði að flosna upp á þeim árum sem fóru í hönd og verulegra átaka og klofnings tók að gæta í stærsta flokknum sem lengst af lýðveldissögunnar hafði haft tögl og hagldir við landsstjórnina. Og auðvitað gat ekki farið öðruvísi en svo að akkúrat áratug frá kvennabyltingunni var einkaréttur ríkisins á ljósvakanum afnuminn og sjónvarp og útvarp varð loksins frjálst hér á landi.

Ánauðin var að baki. Okinu var aflétt. Þökk sé róttækni kvenna haustið 1975.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Þeir sem flæmdu Laxness úr skólunum

Svarthöfði skrifar: Þeir sem flæmdu Laxness úr skólunum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Bréf frá „Fuckboy“

Nína Richter skrifar: Bréf frá „Fuckboy“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Heitirðu Óttar?

Óttar Guðmundsson skrifar: Heitirðu Óttar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Þegar Play ýtti á stopp

Nína Richter skrifar: Þegar Play ýtti á stopp
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Séra Friðrik, Friðrik V og Guðríður Þorbjarnardóttir

Björn Jón skrifar: Séra Friðrik, Friðrik V og Guðríður Þorbjarnardóttir
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Frelsi er sumsé fyrir þá heppnu og útvöldu!

Sigmundur Ernir skrifar: Frelsi er sumsé fyrir þá heppnu og útvöldu!