fbpx
Sunnudagur 12.október 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja

Eyjan
Sunnudaginn 12. október 2025 15:00

Sjálfstæðisyfirlýsingin, olíumálverk John Trumbull frá árinu 1819. Varðveitt í þinghúsinu á Capitol Hill í Washingtonborg.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrstu fjórir forsetar Bandaríkjanna, George Washington, John Adams, Thomas Jefferson og James Madison áttu það sammerkt að dá klassíska menningu og allir lásu þeir af áfergju ljóð Virgilíusar og Hóratíusar, ræður Ciceros og sagnfræði Plútarkosar og Tacitusar. Þekking á klassískri fornöld var þá þegar útbreidd í hinum ungu Bandaríkjum Ameríku — ekki aðeins meðal hinna hámenntuðu heldur voru henni sömuleiðis gerð rækileg skil í almennum skólum.

Rómversku skáldin ortu lof til djarfra hermanna og bænda sem ortu jörðina í sveita síns andlits. Í ljóðum þeirra voru eldri kynslóðir vegsamaðar og harmað að fornar dyggðir væru horfnar. Fyrri tíðar menn hefðu verið fastheldnir, reglusamir, löghlýðnir, hófsamir, strangir, þrautseigir og hagsýnir. Og víst er að þeir höfðu verið aldir upp við mikinn aga. Í latínu eru orðin discipulus og disciplina samstofna, námssveinn og námsagi. Ríki með lýðveldisfyrirkomulagi gat vitaskuld ekki orðið heimsveldi nema þegnar þess væru reiðubúnir að fórna sér fyrir fósturjörðina. Hér hafði verið alinn upp alveg sérstök manngerð.

Stofnendur Bandaríkjanna töldu að borgarar hins nýja ríkis í vestri yrðu að hafa til að bera sömu eiginleika ætti þeim að takast ætlunarverkið. Eða eins og James Madison, fjórði forseti Bandaríkjanna, benti á þá væri óraunhæft að ætla að nokkurt stjórnskipulag gæti tryggt frelsi ellegar hamingju manna hefðu þeir ekki sjálfir til að bera neinar dyggðir.

Horft til rómverska lýðveldisins

Veturinn 1777–1778 lá við að her nýlendnanna sylti heilu hungri í miklum frosthörkum. Það var þá sem George Washington lét setja á svið leikritið Cato eftir enska skáldið Joseph Addisson. Í verkinu fellur Cató yngri í hendur Caesars og fyrir Washington var boðskapur þess aðvörun um hvaða afleiðingar það hefði færi ameríska byltingin út um þúfur. Sjálfur fylgdi Washington fordæmi Cincinnatusar sem árið 458 fyrir Kristburð hafði horfið á ný til arðsins eftir að hafa þjónað lýðveldinu sem alræðismaður (l. dictator) í sextán daga og haft fullan sigur á innrásarliðinu. En liðsforingjar úr frelsisstríðinu stofnuðu með sér samtök árið 1783 sem fengu nafn Cincinnatusar (e. The Society of the Cincinnati) og fyrsti formaðurinn var Washington sjálfur. Skömmu síðar var byggð landnema þar sem nú er Ohio-ríki nefnd eftir Cinncinnatusi og enn ber Cincinatti nafn hins hugprúða og djarfa hershöfðingja.

Stofnunum sem og embættismönnum hins unga lýðveldis í vestri voru gefin rómverks heiti. Forsetinn er President sem er dregið af latnesku orðstofnunum prae– sem þýðir áður og sedere, að sitja. Efri málstofna þingsins fékk nafn rómversku öldungadeildarinnar, senatus. Og fulltrúadeildin sem við köllum svo var nefnd Congress, en congressus merkir meðal annars vinafundur á latínu.

Á skjaldarmerkjum ríkisins eru latnesk kjörorð: e pluribus unum, annuit caeptis og novus ordo seclorum. Hið fyrsta er vísun til þess að nýlendurnar þrettán hafi myndað með sér eina heild. Önnur til þess að ætlunarverkið væri almættinu þóknanlegt (upphaflega deo favente). En hið þriðja novus ordo seclorum eru ljóðlínur Virgilíusar og mætti þýða sem nýja skipan heimsins. Hér er það vísun til þess að upp sé runnið skeið hins nýja ríkis í Vesturheimi. Það voru sannarlega áhrínsorð.

Árið 1800 var aðsetur alríkisstjórnarinnar flutt frá Fíladelfíu til Washington og þinginu fundinn staður á hæð sem nefnd var Capitol Hill eftir einni af sjö hæðum Rómar, Capitolium, milli Rómartorgs og Marsvalla, Forum Romanum og Campus Martius. Og byggingar stjórnarstofnana hinnar nýju Washingtonborgar fengu allar rómverskt svipmót.

Gildi söguþekkingar

Aðdáun á klassískri fornöld, sér í lagi rómverska lýðveldinu, hélst áfram löngu eftir að stormar byltingarinnar höfðu lægt. Eftir að Jefferson forseti hafði látið af störfum endurnýjaði hann vináttu sína við Adams en í stjórnmálaþrætum hafði um skeið orðið vík milli vina. Þeir skrifuðust lengi á og í einu bréfa sinna til Adams kveðst Jefferson til muna hamingjusamari eftir að hann hefði hætt að fylgjast með fréttum og snúið sér alfarið að lestri verka Tacitusar og Þúkydídesar. Í bréfunum vitna þeir Jefferson og Adams oft og ítrekað til grískra og latneskra rita af slíkum lærdómi að varla hafa nokkrir Bandaríkjaforsetar síðan haft viðlíka andlega yfirburði.

Þeir forsetarnir fyrrverandi vissu sem var að í varnaðarorðum rómversku skáldanna var fólginn sannleikur. Lýðveldið var reist á fornum dyggðum sem létu undan. Þess sáust snemma merki. Þegar um árið 160 fyrir Kristburð veittu Cató eldri og Pólybíos því athygli að landsfólki fór fækkandi, ný kynslóð sem fengið hafði heimsveldi að erfðum hafði ekki lengur tíma eða löngun til að verja það. Eignir söfnuðust á færri hendur og skuggahverfi Rómar fylltust af öreigalýð víðs vegar að sem ekkert átti í húfi. Við tók menningarleg úrkynjun þar sem menn flykktust í hringleikhúsin til að horfa á blóðuga kappleiki. Óhóf og spilling veiktu undirstöður rómverska lýðveldisins uns það varð að þoka fyrir einræði að austrænni fyrirmynd.

Stofnendur Bandaríkja Ameríku þekktu þessa sögu mæta vel og lengi hafa menn spurt hvort hið mikla ríki í vestri sé dæmt til að hljóta sömu örlög. Hinar rómversku fyrirmyndir mesta stórveldis síðari alda minna okkur líka á að flest merkustu tímaskeið mannsandans eiga það sammerkt að þá voru gömul gildi — forn menning — enduruppgötvuð. Nægir þar að nefna sjálfa endurreisnina, en líka upplýsingaröld, rómantísku stefnuna, þjóðlega endurreisnarstefnu nítjándu aldar. „Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja, / án fræðslu þess liðna sést ei, hvað er nýtt“ orti Einar Benediktsson.

Eina mótefnið við hnignun og falli Bandaríkjanna er í því fólgið að endurlífga hinar fornu dyggðir sem Hóratíus og Virgilíus ortu um og stofnendur Bandaríkjanna voru svo hugstæðar. Hið sama á við um okkur hér handan Atlantshafsins sem byggðum upp lýðræðisríki sem um margt sóttu fyrirmyndir sínar til hins mikla ríkis í vestri þar sem stofnendurnir höfðu haft hugann við klassíska fornöld. Gildi djúprar söguþekkingar verður nefnilega seint ofmetið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Diane Keaton er látin

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Verðfall í búð reynslunnar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Verðfall í búð reynslunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Dans og leikur í Marbella – kennitöluflakk til Möltu?

Svarthöfði skrifar: Dans og leikur í Marbella – kennitöluflakk til Möltu?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Stóra lykkjumálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Stóra lykkjumálið
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Stórt skarð höggvið í raðir skrímsladeildarinnar?

Svarthöfði skrifar: Stórt skarð höggvið í raðir skrímsladeildarinnar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Hvað gerði þessi kona með Drake?

Nína Richter skrifar: Hvað gerði þessi kona með Drake?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að geta bara gert eitt í einu

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að geta bara gert eitt í einu
EyjanFastir pennar
12.09.2025

Nína Richter skrifar: Ég er leiðinlegri en betur lesin

Nína Richter skrifar: Ég er leiðinlegri en betur lesin
EyjanFastir pennar
11.09.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri