Íslenski orkudrykkurinn Orka og auglýsingastofan Cirkus unnu til verðlauna sem „Breakout Brand“ á AdAge-verðlaunahátíðinni í Chicago í Bandaríkjunum, en verðlaunin voru veitt í flokknum „ROI – Work that Works“, sem snýr að árangurstengdri markaðsvinnu.
Þrjár bragðtegundir Orku voru í sviðsljósinu á hátíðinni. Orange Ink, sem var innblásin húðflúrmenningunni, Engill, sem unnin var í samstarfi við tónlistarmanninn Flona og Reykjavik Roses, sem þróuð var með samnefndu fatamerki.
Fjöldi vörumerkja eiga fulltrúa á hátíðinni og má þarn nefna McDonald’s, Levi’s, Paramount, Dove, United Airlines, Hasbro og Chicago Bulls.
AdAge er eitt virtasta fagtímarit auglýsingageirans, en það hefur verið gefið út síðan árið 1930. Árlega veitir tímaritið viðurkenningar til þeirra sem þykja skara fram úr á sviði markaðsmála, tækni og afþreyingar og því mikill heiður fyrir Ölgerðina að hljóta þessi eftirsóttu verðlaun. Nánar má lesa um verðlaunin hér.
„Verðlaunin eru mikill heiður fyrir okkur og þennan upphaflega Orku-drykk okkar Íslendinga. Meðbyrinn með Orku hefur vaxið jafnt og þétt og söluaukningin sýnir það svart á hvítu. Orka er að vaxa um 45% á milli ára, ofan á 66% vöxt árið á undan og það segir allt um þær góðu viðtökur sem drykkurinn er að fá. Þá er vörumerkið orðið einskonar sköpunarvettvangur ólíks listafólks sem kemur með beinum hætti að þróun drykkjanna, umbúða og Orku-heimsins. Það er fjölmargt ungt og efnilegt listafólk sem á þessi verðlaun með okkur – áfram íslensk list og grasrót!’’ segir Davíð Sigurðsson, orkumálastjóri hjá Ölgerðinni.
„Það er ótrúlega ánægjulegt að sjá íslenskt vörumerki ná svo langt á alþjóðlegum vettvangi,“ segir Guðlaugur Aðalsteinsson hjá Cirkus og bætir við:
„Við erum stolt af samstarfinu við Orku og því hvernig hugmyndir sem spretta úr íslenskri menningu og sköpun geta fengið alþjóðlega viðurkenningu.“