Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að fyrirhugað sé að segja 25 starfsmönnum Norðuráls í dag. Það hafi framkvæmdastjóri fyrirtækisins tilkynnt honum um snemma í morgun.
„Í morgun, rúmlega hálf átta, fékk ég símtal frá framkvæmdastjóra Norðuráls þar sem mér voru tilkynnt þau ömurlegu tíðindi að fyrirtækið hyggist segja upp 25 starfsmönnum í dag. Ástæðan er sögð aukinn framleiðslukostnaður og minni framleiðsla.
Samkvæmt mínum upplýsingum er að stórum hluta um að ræða almenna starfsmenn víða í verksmiðjunni, en mér var jafnframt tjáð að við ákvörðun um uppsagnir væri fyrst og fremst horft til þeirra sem hafa lægstan starfsaldur innan fyrirtækisins,“ skrifar Vilhjálmur.
Uppsagnirnar séu slæm tíðindi fyrir atvinnulífið á Akranesi og segist Vilhjálmur efa það að nokkuð sveitarfélaga hafi þurft að þola jafnmiklar hremmingar og Skagamenn á undanförnum árum.
„Það er þyngra en tárum taki að þurfa enn og aftur að horfa upp á töpuð störf hér á Akranesi, því mér er verulega til efs að nokkurt sveitarfélag hafi þurft að þola jafnmiklar hremmingar og við Akranesingar á undanförnum árum.
„Það er ömurlegt og þungbært að missa lífsviðurværi sitt. Verkalýðsfélag Akraness mun að sjálfsögðu standa þétt við bakið á sínum félagsmönnum sem urðu fyrir þessum uppsögnum og veita alla þá aðstoð sem möguleg er á þessum erfiðu tímum,“ skrifar Vilhjálmur.