Ég þótt þátt í umræðum um hið svokallaða menningarstríð í Silfrinu á mánudag. Umræðan var yfirveguð, án öfga og full af sjónarmiðum sem við eigum öll að hugleiða. Þar voru mætt, ásamt mér, þau Ingvar Smári Birgisson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Kolbeinn Stefánsson auk Bergsteins Sigurðssonar þáttastjórnanda.
Umræðan virtist fara fyrir brjóstið á einhverjum (kannski fyrirsjáanlegt). Til að mynda var Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, ekki lengi að henda í tíst sem hljóðaði svo: „RÚV boðar umræður um menningarstríðið og fær til þess þrjá vinstri menn og einn frá hægri. Eflaust bara á lokametrunum sem ákveðið var að leyfa honum að vera með“ Ég staldraði við þessa flokkun sem er lýsir grunninn svo einfaldaðri mynd af einhverri tilveru. Þar sem allt er svart og hvítt. Hægri eða vinstri. Gott eða vont. Og engir gráir tónar. Hvað þá litróf regnbogans.
Hver er tilgangurinn með þessum dálkadráttum? Ég fyrir það fyrsta kýs að nýta frelsi mitt til að skilgreina mig sjálf og hef aldrei á ævinni skilgreint mig sem vinstrimanneskju. Ég er heldur ekki sönn hægrimanneskja. Ég aðhyllist hugmyndafræði frjálslyndis. Viðreisn er frjálslyndur miðjuflokkur. Ég veit til þess að Ingvar Smári Birgisson er hægri maður. Kolbeinn Stefánsson er að eigin sögn fyrrum vinstri maður sem er nú mjög gagnrýninn á vinstrið. Þórhildur Sunna fer nú fyrir stofnun sem berst fyrir tjáningarfrelsi meðal annars. En hvers vegna stimplar Björn Ingi svona hratt fólk til vinstri?
Og það leiðir mig að þeirri hugsun hvers vegna það orðið að „hægri máli“ að verja tjáningarfrelsi og „vinstri máli“ að verja rétt fólks til að tilheyra? Styðja vinstrisinnaðir ekki tjáningarfrelsi? Og hægrisinnaðir ekki jafnrétti og fjölbreytileika? Hvaða tilgangi þjónar svona flokkun? Nema bara til að breikka gjánna og stigmagna öfgafulla orðræðu. Búa til sundrung í stað þess að finna sameinandi þætti.
Í umræðunni um svonefnt menningarstríð rekast tvær hugmyndir um frelsi oft harkalega á. Annars vegar er það frelsi sem skjól gegn afskiptum, að enginn hafi rétt til að segja mér hvað ég megi hugsa, segja eða gera svo lengi sem ég skaði engan. Hins vegar er það frelsið sem felst í því að fá að vera með, að hafa raunverulegt tækifæri til að tilheyra samfélagi á eigin forsendum. Þessi tvö sjónarhorn eru stundum sett upp sem andstæðir pólar. En er það raunverulega svo?
Er baráttan fyrir frelsi einstaklingsins og baráttan fyrir frelsi jaðarsettra hópa ekki sprottin af sama jarðvegi? Trúnni á að öll hafi rétt á að standa jafnfætis öðrum, án ótta við að vera þögguð eða útilokuð? Baráttan snýst ekki um að fá meiri réttindi heldur bara að standa jafnfætis. Það er ekki verið að taka neitt af neinum. Það er nægt pláss fyrir okkur öll.
Í stað þess að sjá þessa baráttu sem sameiginlega leit að frelsi, þá hefur umræðan og orðræðan orðið að vígvelli. Þar sem eitt liðið ætlar að sigra hitt. Þið vitið – góða fólkið og vonda fólkið. Vókið og það allt.
Tjáningarfrelsi krefst þolinmæði. Það þýðir að við þurfum að lifa með því að fólk segi hluti sem okkur þykja óþægilegir, jafnvel rangir. Þannig er það í opnu samfélagi: Enginn á að sitja í hásæti sannleikans. Það krefst stundum umburðarlyndis og þolinmæði. En slíkt er í raun og veru gjaldið sem við greiðum fyrir frelsi okkar allra.
Þegar við hugsum um menningarstríðið í þessu ljósi blasir við að bæði sjónarhornin eru ekki bara samrýmanleg, heldur háð hvort öðru.
Menningarstríðið, eins og það er oft sett fram, er því algjör blindgata. Völundarhús án raunverulegs tilgangs. Sem ég tel að við ættum að hafna sem hugmynd. Ef við látum umræðuna snúast um sigur eða ósigur, þá munum við öll tapa.
Að lokum held ég að þetta sé stóra áskorunin í dag. Að horfast í augu við það að frelsi krefst bæði þolinmæði og ábyrgðar. Það krefst þess að við verjum rétt fólks til að segja hluti sem okkur finnast óþægilegir og líka rétt fólks til að verja rétt sinn til að tilheyra, eiga tilverurétt. Það er hinn eiginlegi kjarni frelsis. Finnum tilgang í litrófinu, færum orðræðuna frá öfgum og inn á miðju. Leitum að sameinandi þáttum og höfnum þeim sem ætla sér að finna leiðir til að sundra. Það er nægt sólarljós fyrir okkur öll.