Andri Sævar Reynisson hefur verið ráðinn sérfræðingur í gagnagreiningu og þróun og Svava Helgadóttir tekur við stöðu gæða-, umhverfis- og öryggisstjóra.
„Við erum afar ánægð að fá Andra Sævar og Svövu til liðs við okkur,“ segir Brynhildur Guðmundsdóttir, forstjóri Daga. „Þau koma með dýrmæta reynslu og þekkingu sem mun styðja við áframhaldandi vöxt og metnaðarfull markmið fyrirtækisins.“
Í tilkynningu kemur fram að Andri Sævar mun sinna þróun skýrslugerðar og sjálfvirknivæðingu, auk þess að bera ábyrgð á daglegum rekstri og þróun. Hann kemur frá Öryggismiðstöð Íslands þar sem hann starfaði sem sérfræðingur á fjármálasviði. Hann hefur lokið B.S.c. í hagfræði og M.S.c. í fjármálum fyrirtækja.
Svava hefur tekið við starfi gæða-, umhverfis- og öryggisstjóra. Hún býr yfir víðtækri reynslu úr atvinnulífinu og mun leiða áframhaldandi þróun og umbótastarf Daga á sviði gæða, öryggis og sjálfbærni.
Dagar hf. eru leiðandi fyrirtæki á sínu sviði og leggja ríka áherslu á gæði, frumkvæði, ábyrgð og virðingu í allri starfsemi sinni. Nýir liðsfélagar fá tækifæri til að taka þátt í kraftmiklu og metnaðarfullu umhverfi þar sem framtíðin er í brennidepli.