fbpx
Laugardagur 02.ágúst 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Hræðslan við breytingar er íhaldinu ofviða

Eyjan
Laugardaginn 2. ágúst 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það fer stundum vel á því að tala skýrt. Breytingar eru nauðsynlegar. Stöðnun er hættuleg. Það fer betur á því að sækja fram en að festa sig í fornum skrefum – og skelfast framfarir.

En allt snýst þetta um frelsi og trúfestu þeirrar gerðar að einstaklingurinn fái notið sín eins og honum hentar hverju sinni. Hið raunverulega frjálsræði fjallar nefnilega ekki um að þeir fáu og efnameiri hafi betur, heldur að allur almenningur geti blómstrað, finni tækifærin og hamingjuna á eigin skinni.

Og þar stendur hnífurinn í pólitískustu kú allra stjórnmála.

Er jafnt pláss fyrir alla? Eða er meira pláss fyrir útvalda?

Svörin við þessum spurningum skipta okkur í félagshyggjufólk og íhaldsmenn. Þeim fyrrnefndu líður best í samfélagi sem leggur nokkurn veginn sanngjarnt gjald á þegna þess til að halda því úti, en þeim síðarnefndu er áskapaðra að leggja sem minnst til samneyslunnar, svo sem með því að fela tekjur sínar, jafnt heima og erlendis.

En í rauninni er myndin sú arna fölsuð. Þeir sem vilja leggja minna til samfélagsins hafa hugsað sér að njóta allra fríðinda þess á passlega rífum afslætti frá því sem allur almenningur þarf að reiða fram til sameiginlegra gjalda. Þeir telja sig þess umkomna að komast léttar frá opinbera rekstrinum – og þar sé snilldin raunar komin; að græða á öðrum og grilla á kvöldin.

Þeim mun merkilegra er að allur almenningur er tilbúinn að hjálpa þessu fólki – og hlaupa undir bagga svo það þurfi ekki að færa jafn miklar fórnir til heilbrigðismála, skólamála, vegamála, öryggismála og öll alþýðan í landinu telur svo sjálfsagt að leggja til úr buddu sinni. Og er þar stundum ekki af miklu að taka. En skiptir hana engu. Því sýnin er skýr. Það þarf þorp til að ala upp barn. Það þarf samstöðu til að tryggja velferð. Og skýra sýn svo jöfnuður nái fram að ganga.

„Og svo höfum við náttúrlega ævintýralega falskar sögur af helsta hægriflokki Íslandssögunnar sem talaði löngum fyrir frjálsri samkeppni, en stóð allra mest gegn henni.“

Að mati afturhaldsins er svona samfélagi ekki viðbjargandi. Það ætli sér um of í breytingum. Það kosti of mikið að tryggja lakast setta fólkinu sama rétt og það efnameiri hafi. Og raunar tínir það til rök á borð við heimsku almúgans. Það gangi ekki að lækka kosningaaldur niður í sextán ár af því ungmenni hafi hvorki áhuga né vit á stjórnmálum. En sömu rök voru einmitt notuð gegn kosningarétti kvenna fyrir einni öld eða svo. Efnaðir karlmenn mættu einir kjósa. Þeir væru handhafar vits og valda.

Svart fólk og samkynhneigt kann sömu sögu að segja. Íhaldið hafði alltaf ímugust á að réttur þess væri færður á sömu gráðu og góðborgarnir áttu að venjast. En í þeim efnum væru aukin mannréttindi ávísun á ólgu og ógnuðu ríkjandi kerfi. Þá væru hleypidómarnir skárri, og þröngsýnin hættuminni.

Og svo höfum við náttúrlega ævintýralega falskar sögur af helsta hægriflokki Íslandssögunnar sem talaði löngum fyrir frjálsri samkeppni, en stóð allra mest gegn henni. Pálmi í Hagkaup og Jóhannes í Bónus myndu eyðileggja heildsalahefðina í landinu. Og betur færi að Eimskip væri eitt um hituna.

En tíminn leiðir af sér breytingar. Það er eðli hans og inntak. Og þróun er hans annað eðli.

Fyrir íhaldsmenn og þaðan af harðara afturhald er auðvitað erfiðleikum bundið að játa sig sigraða gagnvart auknu frjálslyndi og því sjálfsagða ákalli að allir menn séu fæddir með sömu möguleikana til að efla sig með ráðum og dáð, og ná því besta út úr æviskeiði sínu, geta skorað sjálfa sig á hólm og hafa betur í lífsbaráttunni. Já, finna það besta í sálu sinni og skrokki. Og mega það í opnu samfélagi.

En þar strikar pólitíska prikið í sandinn.

Öðru megin er fólki gefið tækifæri til að vera það sjálft, öllum stundum, á eigin forsendum, en hinum megin aðeins þeim einum sem eiga það skilið frá fornu fari.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Ísrael hefur sagt sig úr samfélagi siðaðra þjóða

Sigmundur Ernir skrifar: Ísrael hefur sagt sig úr samfélagi siðaðra þjóða
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Tóm leiðindi

Óttar Guðmundsson skrifar: Tóm leiðindi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hættið nú að moka, greyin mín!

Svarthöfði skrifar: Hættið nú að moka, greyin mín!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Alþingi leyst úr gíslingu

Alþingi leyst úr gíslingu
EyjanFastir pennar
02.07.2025

Svarthöfði: Óhamingjusamur málþófsmaður í prívat hagsmunagæslu

Svarthöfði: Óhamingjusamur málþófsmaður í prívat hagsmunagæslu
EyjanFastir pennar
02.07.2025

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Steindautt samband

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Steindautt samband
EyjanFastir pennar
26.06.2025

Svarthöfði skrifar: Falsfréttir og væl virka ekki – málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins hafnað í nýrri könnun

Svarthöfði skrifar: Falsfréttir og væl virka ekki – málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins hafnað í nýrri könnun
EyjanFastir pennar
26.06.2025

Ágúst Borgþór skrifar: Hrausti sjúklingurinn – Erum við að tala niður heilbrigðiskerfið?

Ágúst Borgþór skrifar: Hrausti sjúklingurinn – Erum við að tala niður heilbrigðiskerfið?