Síðasta sumar ákvað stórfjölskyldan að sumarið 2025 myndum við eyða viku á Þingeyri. Ákvörðunin tekin löngu áður en það lá fyrir að litla sjávarþorpið yrði í deiglunni vegna umbrota í atvinnulífinu. Þær fregnir hafa varpað ákveðnum skugga á dvölina hér. Miði í matvöruversluninni Hamónu tilkynnir lokun í enda mánaðarins á meðan fiskeldið marar úti á firðinum. Húsin eru tóm, fólkið er farið. Viðurinn er fúinn, múrverkið sprungið og það þarf að mála.
Sonur minn spurði um daginn: „Mamma, hvað er rusl?“ Spurningin er góð. Rusl er ekki til nema oftast sem skilgreining á einhverjum veraldlegum gæðum sem þjóna okkur ekki lengur. Umbúðir, matarleifar. Rusl er frekar ný uppfinning mannkynsins. Við fórum ekki að búa til rusl fyrr en seint á nítjándu öldinni – og flest rusl má raunar nýta í eitthvað annað, endurskilgreina það. Þetta er bara hugtakanotkun. Svokallað rusl úr sjávarútvegi getur þannig orðið að gríðarlega verðmætu hráefni í byltingarkenndri læknismeðferð fyrir fórnarlömb brunaslysa.
Í neysludrifinni veröld virðist þessi ruslhugmynd hafa smitast út í öll lög samfélagsins. Samfélagið á Þingeyri virðist til dæmis hafa orðið að afgangsstærð í þessari atvinnulífsdeilu. Ég hef aðeins dvalið hér í viku en mér er ljóst að hér við Dýrafjörð má finna stórbrotna náttúru, einstakar gönguleiðir, einn besta golfvöll á landinu, flugvöll, fallegt hafnarstæði, mikið framboð á húsnæði og nálægð við Ísafjörð. Hér eru söguslóðir Gíslasögu. Þessi gæði mega sín lítils þegar mælikvarðinn á virði samfélagsins afmarkast við aðeins eina atvinnugrein.
Þegar hamfarir riðu yfir Grindavík var mikið rætt um þau samfélagslegu verðmæti sem myndu tapast. Gamalgróið samfélag var rifið í sundur og allir sem fylgdust með umræðunni fundu til með íbúum sem þurftu að yfirgefa æskuslóðir og við skildum sem aldrei fyrr að heimili fólks afmarkast ekki við húsbyggingar.
Möguleikarnir á Þingeyri eru óteljandi en rétt eins og aðgerðir eru pólitískar er athafnaleysi ekki síður pólitísk ákvörðun. Hér þarf vilja, hér þarf nýsköpun. Hér þarf kjark.