Það var fullkomlega tímabært að ljúka umræðum á Alþingi um frumvarp sem leiðréttir veiðigjöld. Margir hafa reyndar talið að sá tími væri löngu kominn.
Undanfarið hafa þingmenn stjórnarandstöðu haldið Alþingi í gíslingu með röfli um ekki neitt. Vera má að fyrstu ræðurnar sem haldnar voru um málið hafi verið málefnalegar en það eru margar vikur síðan umræðan varð innstæðulaus.
Forseti þingsins var því nauðbeygður til að grípa til ákvæðis í 71. grein þingskapalaga. Auðvitað hefði verið betra að komast hjá því en það varð ekki flúið. Og úr því svona var komið var tekin stjórn á aðstæðum af reisn og myndarskap.
Beiting ákvæðisins er hins vegar ekki ógn við þingræði og ekki heldur við málfrelsi eða hvað svo sem stjórnarandstöðuþingmenn nefndu það í hátimbraðri umræðu í kjölfar tilkynningar forseta að greiða skuli atkvæði um beitingu ákvæðisins. Á fjórða þúsund ræður og 160 klukkustunda umræða er því nú blessunarlega að baki.
Oft er það þannig að það er fyrst þegar menn tala að hægt er að draga upp af þeim mynd. Undanfarnar vikur hafa gefist næg tækifæri til að átta sig á innstæðu kjörinna fulltrúa. Hún er mismikil, svo ekki sé sterkara til orða tekið.
Hins 11. júlí 2025 verður minnst sem dagsins þar sem skynsemi yfirvann óskynsemi og vitleysisgang. Dagsins þar sem þingræðið var virt. Dagsins þar sem starf löggjafarsamkomunnar var leyst úr gíslingu minnihlutans. Dagsins þar sem hagsmunir fjöldans höfðu betur gegn hagsmunum hinna fáu. Dagsins þar sem þjóðin varpaði öndinni léttar.
Dagsins þar sem stigið var skref í átt að sigri réttlætisins.
–