Þó svo að leitt sé að viðurkenna það er landslið kvenna í knattspyrnu á endastöð eftir að hafa brotlent á EM í vikunni.
Ísland hefur ekki unnið neina mikilvæga leiki í mörg ár þrátt fyrir að hafa verið með góðan hóp snjallra leikmanna og reyndan þjálfara sem gerði vel hjá Breiðabliki.
Sumir leikmenn íslenska liðsins eru að keppa með bestu fótboltaliðum í Evrópu og standa sig vel þar. En samt smellur þetta ekki hjá liði Íslands. Hverju er um að kenna?
Orðið á götunni er að þó að þjálfarinn hafi notið mikils velvilja sé nú komið að endastöð í starfi hans með landslið kvenna. Þorsteinn Halldórsson er vænn maður og nýtur velvilja – en árangur skortir. Í stjórnmálum er sagt að ef karlinn í brúnni fiskar ekki verði hann að fara. Sú staða er nú nákvæmlega uppi hvað varðar forystu landsliðs kvenna í knattspyrnu.
Orðið á götunni er að ekki hafi vantað neitt upp á að KSÍ legði mikið undir í þessari lokakeppni. Með liðinu fóru út 23 manneskjur í launuðum störfum. Þjálfarar, njósnarar, læknar, sjúkraþjálfarar, fjölmiðlafulltrúar og kokkur. Samt fékk fyrirliði liðs okkar matareitrun í ferðinni.
Eftir nokkur ár liggur nú fyrir að tími Þorsteins Halldórssonar er liðinn hjá íslenska landsliðinu. Hann hlýtur að víkja núna. Hver tekur þá við?
Sem betur fer er um nokkra góða kosti að velja:
Pétur Pétursson gerði Val að Íslandsmeisturum fjórum sinnum á þeim sex árum sem hann stýrði liðinu og að bikarmeisturum tvisvar. Hann er maður sem vinnur leiki og mót. Hann er maður sem kann að byggja upp sigurlið og blanda saman reynslu þeirra eldri og krafti hinna nýju og efnilegu.
Ólafur Kristjánsson tók við Þrótti í fyrra. Þá hafði kvennalið félagsins ekki sýnt mikið í mörg ár. Nú er liðið í bullandi baráttu um Íslandsmeistaratitil undir hans forystu. Ólafur kann að byggja upp og stýra. Hann ætti að fá tækifærið ef Pétur er ekki tilbúinn núna.
Orðið á götunni er að Margrét Lára Viðarsdóttir, mesta hetja kvennaboltans á Íslandi, eigi eftir að verða þjálfari landsliðsins. Hvort hennar tími er kominn núna skal ósagt látið. Hann kemur alla vega – fyrr en síðar. Hún hefur allt til að bera sem þarf.
Orðið á götunni er að Ísland þurfi ekki að sækja neitt til útlanda í þessu efni eins og einhverjir „spekingar“ hafa talað um. Bara að velja rétt að þessu sinni.