Lára Björg Björnsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri miðlunar og samskipta hjá Háskólanum í Reykjavík. Lára mun sinna verkefnum fyrir rektor HR og einnig samskiptasvið háskólans, með áherslu á almannatengsl og miðlun. Hún hefur þegar hafið störf.
Lára Björg var áður aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, og aðstoðarmaður ríkisstjórnar hennar sl. sjö ár. Lára Björg hefur í gegnum tíðina starfrækt ráðgjafafyrirtæki á sviði stjórnunar og markaðsmála, unnið á ýmsum fjölmiðlum, í einkageiranum og einnig starfað í utanríkisþjónustunni. Lára Björg er með BA próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Kemur þetta fram í fréttatilkynningu.
Háskólinn í Reykjavík hefur haslað sér völl sem öflugur rannsóknaháskóli á alþjóðavísu. Háskólinn stenst samanburð við erlenda háskóla í fremstu röð og fræðafólk skólans hefur náð framúrskarandi árangri. Kennsla og rannsóknir við Háskólann í Reykjavík mótast af sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélag. Lögð er áhersla á þverfaglegt samstarf, alþjóðlegt umhverfi, nýsköpun og góða þjónustu.