fbpx
Miðvikudagur 30.júlí 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Froðusnakkar, orð að sönnu – stjórnarandstaðan velur sér nafn

Svarthöfði
Fimmtudaginn 12. júní 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði er forfallinn áhugamaður um pólitík og fátt veit hann skemmtilegra en að gleyma sér yfir beinum útsendingum frá Alþingi og þá ekki síst þegar um ræðir stefnuræðu forsætisráðherra eða eldhúsdaginn. Hann kom sér því tímanlega fyrir framan við sjónvarpið í gærkvöldi með popp og kók til að fylgjast með eldhúsdeginum.

Guðrún Hafsteinsdóttir sagði þingheimi og þjóðinni með umvöndunartóni að vandi ríkissjóðs væri ekki tekjuvandi heldur útgjaldavandi. Væntanlega hefur Guðrún þar talað af sárri reynslu en forveri hennar á formannsstóli var einmitt í forsvari fyrir fordæmalausri útgjaldaaukningu nær allan undangenginn áratug. En til þess eru vítin að varast þau og fallega gert hjá Guðrúnu að benda nýju ríkisstjórninni á þetta.

Flestir ræðumenn kvöldsins komust ágætlega frá sínu og töluðu eflaust inn í sitt kjarnafylgi. Hanna Katrín Friðriksson benti stjórnarandstöðunni á það, að gefnu tilefni, að kjósendur veittu núverandi ríkisstjórnarflokkum ríkulegt umboð til að stjórna landinu í kosningunum í nóvember og stjórnarandstæðingar yrðu bara að sætta sig við það.

Svarthöfði hnaut um það að Þórarinn Ingi Pétursson, Framsóknarmaður, byrjaði og endaði ræðu sína á því að dásama Jónas frá Hriflu, sem að hans sögn byggði sitt starf á „gildum sem sameina okkur.“ Mögulega má finna einhver dæmi um stjórnmálamenn á síðustu öld sem ollu meiri deilum og klofningi meðal þjóðarinnar en Hriflu-Jónas, en þar er ekki um auðugan garð a gresja. Þórarinn Ingi ber það ekki með sér að vera mikill brandarakall en leynir greinilega á sér.

Í ræðu, sem hefði verið betur við hæfi í lávarðasal Valhallar við Háaleitisbraut en þingsal, tókst Jens Garðari Helgasyni að vitna í bæði Margréti Thatcher og Ronald Reagan þótt ekki gæti hann heimilda í síðara tilfellinu. Ólíklegt að það hitti í mark nema bara hjá innvígðum og innmúruðum. Þá reyndi hann mikið að kalla nýju ríkisstjórnina vinstristjórn, nefndi hana Jóhönnustjórnina 2,0. Blessaður maðurinn greinilega búinn að gleyma því að flokkurinn hans sat í vinstri stjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur í næstum sjö ár. Svarthöfði skynjar að Jens Garðar á bágt þessa dagana. Það getur ekki verið auðvelt að vera með Þórólf kaupfélagsstjóra og Þorstein Má á háa c-inu í símanum á hverju kvöldi að farast úr áhyggjum út af fiskvinnslufólkinu.

Ingibjörg Davíðsdóttir, Miðflokkskona, á sennilega orð kvöldsins sem er raunar vel við hæfi að kenna stjórnarandstöðuna við. Hún endurtók söng Miðflokksins úr þingræðum undanfarinna dægra og hafði allt á hornum sér og endaði svo ræðuna á að segja: Við erum ekki froðusnakkar! Þar höfum við það, froðusnakkastjórnarandstaðan, gerið þið svo vel! Eða bara froðusnakkar!

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir fór í greiningu á slagorði Sjálfstæðisflokksins, „stétt með stétt“ Þetta er vitanlega „auðstétt með kvótastétt“, mikið rétt. Svarthöfði er á því að þarna hafi Þorbjörg Sigríður hitt naglann á höfuðið.

Ræðumenn kvöldsins áttu samkvæmt dagskrá að vera 12, tveir frá hverjum stjórnmálaflokki, en öllum á óvart mætti þrettándi ræðumaður kvöldsins á skjánum áður en útsendingin frá Alþingi hófst. Var það þriðji ræðumaður Sjálfstæðisflokksins, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri samtaka sægreifa, sem greinilega treysti hvorki formanni né varaformanni flokksins til að koma málflutningi sægreifa nógu skilmerkilega á framfæri. Svarthöfði er ekki sannfærður um að þessi keypta ræða á besta auglýsingatíma hafi virkað neitt betur fyrir málstað sægreifa en alræmdar Exit-auglýsingar þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sólin er komin

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sólin er komin
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu

Björn Jón skrifar: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér
EyjanFastir pennar
29.06.2025

Björn Jón skrifar: Skortur á manngildishugsjón

Björn Jón skrifar: Skortur á manngildishugsjón
EyjanFastir pennar
28.06.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Krónutjónið nemur 500 milljörðum árlega

Sigmundur Ernir skrifar: Krónutjónið nemur 500 milljörðum árlega
EyjanFastir pennar
26.06.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sterka hliðin og hin hliðin á NATO

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sterka hliðin og hin hliðin á NATO
EyjanFastir pennar
25.06.2025

Svarthöfði skrifar: Nytsamlegir sakleysingjar þjóna hagsmunum ríkustu fjölskyldna landsins og fá brauðmola að launum

Svarthöfði skrifar: Nytsamlegir sakleysingjar þjóna hagsmunum ríkustu fjölskyldna landsins og fá brauðmola að launum