fbpx
Miðvikudagur 28.maí 2025
Eyjan

Ráðherra les móðgaðri stjórnarandstöðu pistilinn – „Ykkar eina erindi hér á þessu þingi er sérhagsmunagæsla“

Eyjan
Mánudaginn 26. maí 2025 16:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingfundur hófst á fjórða tímanum í dag og er augljóst af ræðum stjórnarandstöðunnar að henni sárnaði töluvert ummæli dómsmálaráðherra, Þorbjargar Sigríðar Gunnarsdóttur, um að tafarleikir stjórnarandstöðunnar væru að tefja úrbætur í útlendingamálum. Andstöðuliðar stigu upp í pontu og lögðu til að stjórnarliðar raði útlendingamálum, sem stjórnarandstaðan er hlynnt, ofar á dagskrá þingsins frekar en málum sem stjórnarandstaðan er á móti, svo sem veiðigjaldafrumvarpið.

Dagskrárvaldið hjá meirihlutanum

Til að mynda nefndi Sigurður Ingi Jóhannsson þingmaður Framsóknar að það væri fráleitt að saka stjórnarandstöðuna um tafarleika þegar stjórnarliðar hefðu dagskrárvaldið. Þannig gætu stjórnarliðar léttilega sett á dagskrá þau mál sem stjórnarandstaðan er fylgjandi og þannig væri hægt að bara klára þau.

Miðflokksmenn stigu líka í pontu og bentu ítrekað á að stjórnarliðar hefðu dagskrárvaldið. Karl Gauti Hjaltason sagði:

„Hæstvirtur dómsmálaráðherra hefur, eftir það óþurftaverk sitt að reka lögreglustjórann á Suðurnesjum úr starfi, hreinlega ærst og efnt til flugeldasýningar, aðallega um Miðflokkinn. Telur hún það vera Miðflokknum helst að kenna að litlu frumvörpin hennar um útlendinga og landamærin hafi ekki verið afgreidd hér á þinginu. Gleymir hún þá auðvitað að dagskrárvald þingsins er í höndum stjórnarmeirihlutans og þessi frumvörp hafa síðustu tvær vikur verið aftast á dagskrá þingsins. Miðflokkurinn mun ekki standa í vegi fyrir að þessi frumvörp hæstvirts dómsmálaráðherra fari greiðlega í gegn.“

Hvað er eiginlega vandamálið?

Þorbjörg steig sjálf í pontu og velti fyrir sér hvort Miðflokksmenn væru eitthvað sérstaklega litlir í sér í dag.

„Já, frú forseti, ég veit að það er mánudagurinn en mikið hroðalega eru Miðflokksmenn litlir í sér í dag. Það er eins og menn séu mættir hér í einhverja mjúka aðlögun og það sé eitthvert reiðarslag að dómsmálaráðherra sé að ræða pólitík. Hvað er eiginlega vandamálið? Ég benti bara á tafaleikina að hér inni í þingsal, sem hafa blasað við þjóðinni allri vikum saman, það var allt og sumt. Það var allt og sumt.“

Þorbjörg tók fram að vissulega sé gaman að heyra Miðflokksmenn lýsa yfir stuðningi við þessi mál, en þeir þurfi þá að sýna það í verki.

„Þetta er kannski, kallast ágætlega á við það að enginn þingmaður Miðflokksins mætti heldur í umræðu um frumvarp mitt um útlendingamál, það hefur kannski verið erfiður mánudagur þá líka. Ég er bara að benda á það sem öll þjóðin sér, vonlausa tafaleiki hérna sem bitna á mikilvægum málum og auðvitað hefur Sjálfstæðisflokkurinn tekið þátt í þessu líka undir forystu Miðflokks hérna í stjórnarandstöðunni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í þessu hlutverki líka en batnandi mönnum er best að lifa og ég segi bara: Áfram gakk.“

Deilt um málþóf

Ekki dugði ræða ráðherrans til að sefa stjórnarandstöðuna sem hélt áfram að halda ræður um dagskrárvaldið. Sigurjón Þórðarson þingmaður Flokks fólksins tók fram að það væri fagnaðarefni að sjá þingmenn Miðflokksins tala um að greiða fyrir þingstörfum en flokkurinn virðist þó ekki átta sig á að það verður ekki gert með því tefja umræður á þingi með stöðugum ræðum um viðtal ráðherra í fjölmiðlum, með löngum ræðum um viðskiptasamning við Tæland, um nauðsynlegar úrbætur í leigubílamálum og fleira.

Guðmundur Ari Sigurjónsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar benti á að það hefði nú farið betur hefðu andstöðuaðilar komið með athugasemdir þegar farið er yfir dagskrá vikunnar, jafnvel að þeir hefðu óskað eftir breytingum. Stjórnarandstaðan geti þó ekki vísað á bug ásökunum um tafarleiki þar sem undanfarið hafi hvert Íslandsmetið fallið eftir öðru í löngum umræðum, jafnvel um mál sem er þverpólitísk sátt um.

Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagðist ekkert skilja „kvart og kvein“ ráðherrans um málþóf eða tafarleiki. Það sé fjarri sanni. Þegar dómsmálaráðherra hafi mætt í Sprengisand um helgina og talað um vonlausa tafarleiki hafi enginn vitað hvað hún væri að tala um. Hins vegar hefði það verið leikur einn fyrir stjórnarliða að setja útlendingamálin framar á dagskrá.

Allt í hund og kött

Þorbjörg steig aftur upp í pontu og sagði að öllum væri ljóst að stjórnarandstaðan væri að stunda málþóf og að málþóf hafi afleiðingar. Málþóf hafi áhrif á getu þingsins til að afgreiða mál. Frumvarp um að efla eftirlit á landamærum og um farþegagreiningar hafi unnist vel í nefnd. Á sama tíma hófst málþóf á Alþingi og því hafi frumvarpið ekki verið afgreitt, bara því stjórnarandstaðan er að berjast gegn hækkun veiðigjalda.

„Ykkar eina erindi hér á þessu þingi er sérhagsmunagæsla.“

Ragnar Þór Ingólfsson þingmaður Flokks fólksins benti á að klukkan 11 á mánudögum setjist þingflokksformenn allra flokka Alþingis saman niður og ræða dagskránna. Enginn þingflokksformaður stjórnarandstöðunnar hafi viðrað áhyggjur af dagskránni eða lagt fram tillögu til breytinga. Þess í stað séu þingmenn andstöðunnar að verja klukkutíma af þingfundi í að ræða þetta.

Þingfundur hófst klukkan 15:00 og klukkan 16:00 hafði ekki eitt dagskrárefni verið tekið fyrir þegar klukkustund hafði farið í að ræða um störf þingsins, en í raun fjölluðu flestar ræður um að viðtal ráðherra í Sprengisandi um helgina.

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins kjarnaði umræðuna vel í einni ræðu sinni þegar hann sagði: „Hér virðist allt vera farið í hund og kött“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Bólu-Hjálmar

Óttar Guðmundsson skrifar: Bólu-Hjálmar
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Enn tapar Sjálfstæðisflokkurinn fylgi – boðar ekki gott fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí 2026

Orðið á götunni: Enn tapar Sjálfstæðisflokkurinn fylgi – boðar ekki gott fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí 2026