Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna segir í 5. kafla um skipun og embættismanna að sú ráðstöfun sé til fimm ára í senn. Sex mánuðum áður en skipunartími embættismanns rennur út, skuli tilkynna embættismanninum um hvort auglýsa eigi embættið laust til umsóknar. Sé það ekki gert framlengist skipunartíminn um önnur fimm ár. Einfalt og auðskilið og alsiða að skipuðum embættismönnum sé tilkynnt að veitingarvaldið hyggist auglýsa embættið. Þetta er í þágu almennings og er til þess fallið að örugglega sé sá hæfasti sem völ er á, skipaður hverju sinni.
Nú geta menn talist bærilega hæfir í upphafi skipunartímans en orðið breytingar, eða þær fyrirhugaðar, á verkefnum embættisins að rétt þykir að kanna hvort tryggja megi að hæfasti kandídat sé skipaður. Það verður ekki gert nema með auglýsingu um að embættið sé laust.
Nú hefur ofangreind atburðarás nýlega orðið og þeim sem hlaut skipun í embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum tilkynnt að ráðherra hyggist auglýsa embættið, einmitt í því skyni sem að ofan greinir. Ekki kom sérstaklega á óvart að embættismaðurinn skyldi snúa upp á sig og krefjast eigin starfsloka strax, jafnvel þótt manninum væri í lófa lagið að skipa sér í raðir umsækjenda. Við því var orðið, en jafnframt var honum boðið að þiggja setningu í annað embætti af sambærilegum toga þótt annars staðar á landinu væri.
Þeir sem sjá andskotann í öllum hornum hafa síðan æpt upp yfir sig að lögreglustjórinn hafi verið rekinn því hann hafi verið óþægur ljár í þúfu. Hann var þó ekki óþægari en svo að honum bauðst frambærilegt starf á svipuðum vettvangi. Það vildi hann ekki þiggja heldur hætta strax og framkalla rask á högum annarra með tímabundinni setningu í embættið þar til ráðrúm gefst til að gera fyrirhugaðar breytingar og auglýsa embættið svo í samræmi við þær.
Í framhaldinu hefur fyrrverandi lögreglustjóri þjónað sinni lund með því að kasta rýrð á stjórnvöld og stjórnsýslu dómsmála í landinu. Í því sambandi hefur verið upplýst að eftir að lögreglustjórinn fyrrverandi hafði talað í fjölmiðlum frjálslega um það sem mátti skilja sem lausatök á landamærum, að hans mati, að ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu sendi lögreglustjóranum fyrrverandi nótu um að gæta betur að því sem hann lætur frá sér fara um meintar brotalamir.
Það voru réttmætar ábendingar ráðuneytisstjórans.
Jafnframt hefur hinn fyrrverandi embættismaður mætt í viðtöl þar sem hann skýtur í allar áttir og krefst afsagnar annarra embættismanna, fjargviðrast út í ákvörðun Íslands að gerast aðilar að Schengen-samstarfinu og gott ef ekki að allt það samstarf 27 ríkja Evrópusambandsins, auk Liechtenstein, Noregs, Sviss og Íslands, væru mistök. Hann bætir um betur og lætur hafa eftir sér að landamæri Íslands hafi staðið óvarin um árabil, ekki síst á hans vakt sem lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Í róti jarðhræringa á Reykjanesi var lögreglustjórinn fyrrverandi í eldlínunni. Hvað eftir annað lokaði hann stórum svæðum fyrir allri umferð, utan viðbragðsaðila. Þannig komust fjölmiðlamenn, svo sem blaðamenn, ljósmyndarar og myndatökumenn, varla út fyrir Hafnarfjörð. Þar brást lögreglustjórinn því hlutverk fjölmiðla er við þessar aðstæður að upplýsa og greina frá í máli, á prenti og í myndum. Þetta varð meðal annars til þess að fjöldi fólks lagði leið sína á Reykjanesbraut til að reyna að verða vitni að þeim atburðum sem voru mögulega í aðsigi og olli þar töfum á umferð og dæmi voru um að fólk lagði af stað fótgangandi yfir úfið hraun til að komast á umbrotaslóðir.
Síðar þegar Grindvíkingum var hleypt inn í bæinn til að sækja búslóðir sínar og persónulega muni, voru myndatökur bannaðar. Þrátt fyrir eftirgangsmuni fékk ekkert honum haggað og öll voru þau samskipti einhliða og önug af hans hálfu.
Ritskoðunartilburðir er líklega rétta orðið í þessu samhengi.
Ofanrakin dæmi færa ekki heim sanninn um að lögreglustjórinn fyrrverandi hafi sérstaklega hagsmuni þjóðar í forgrunni. Það er í reynd fáheyrt að menn í hans stöðu nánast veki athygli á því hvernig staðið er að landamæravörslu. Það er til þess er fallið að auka straum þeirra hingað, sem hafa eitthvað misjafnt í huga.
Í lögunum sem vísað var til í upphafi segir í 4. kafla að starfsmanni sé skylt að rækja starf sitt með alúð og samviskusemi í hvívetna. Hann skuli gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Hann skuli forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við.
Þá er vísað í 10. kafla stjórnsýslulaga en þar segir að þagnarskylda haldist þótt látið sé af starfi. Með nýlegum yfirlýsingum sínum hefur lögreglustjórinn augljóslega gleymt því.
Með framgöngu sinni nýlega sést ekki betur en að dómsmálaráðherra hafi haft hárrétt fyrir sér þegar ákveðið var að kanna hvort ekki væri hæfari umsækjanda en Úlfar Lúðvíksson að finna í embættið til næstu fimm ára.