Liðsmenn Vinstri hreyfingarinnar-Græns framboðs í Reykjavík gera athugasemdir við fréttaflutning Morgunblaðsins af framboðsmálum flokksins í borgarstjórnarkosningunum á næsta ári. Flokksfólk segir að ranglega sé gefið til kynna að óvíst sé hvort flokkurinn muni yfirhöfuð bjóða fram í borginni. Flokkurinn muni svo sannarlega gera það.
Tilefnið er frétt á Mbl.is sem birt var í morgun en hún er unnin upp úr viðtali við Líf Magneudóttur, borgarfulltrúa Vinstri grænna, í þættinum Dagmál. Fyrirsögn fréttarinnar er: „Óvíst hvort VG bjóði fram í borginni.“
Í fréttinni er eftirfarandi haft eftir Líf:
„Ég veit ekki einu sinni hvað verður ákveðið á vettvangi Vinstri-grænna, hvort við yfirhöfuð bjóðum fram eða hvað við ætlum að gera. Það ræðst á öðrum stað, allavega ekki hérna í Dagmálum.“
Stefán Pálsson varaborgarfulltrúi flokksins gerir athugasemd við fyrirsögn fréttarinnar á Facebook og segir Vinstri græn ætla sér að bjóða fram í borginni en virðist ekki útiloka að það geti orðið í samstarfi við aðra:
„Hér er Mogginn nokkuð glannalegur í fyrirsagnargerð. Líf var einfaldlega að svara vangaveltum um hvernig framboðsmálum yrði háttað eftir tæpt ár með því að benda á að við séum einfaldlega ekki komin á þann stað. Ég held að enginn flokkur sé búinn að ákveða framboðsmál sín í Reykjavík – en það er ekki þar með sagt að óljóst sé hvort nokkur listi komi fram. Eins og ég sagði í fréttum vikunnar á Rás 2 í morgun, þá þurfið þið engar áhyggjur að hafa af öðru en að hægt verði að kjósa Vinstri græn næsta vor með einum eða öðrum hætti.“
Líf tekur undir með Stefáni í örstuttu máli:
„Það sem Stebbi segir.“
Á Facebook-síðu Vinstri grænna í Reyjavík er síðan áréttað að flokkurinn sé ekki á förum úr borgarmálunum:
„Til að taka af öll tvímæli þá munu Vinstri græn í Reykjavík að sjálfsögðu bjóða fram krafta sína næsta vor.“