Heimir Már Pétursson, framkvæmdastjóri og upplýsingafulltrúi Flokks fólksins, segir að stjórnarandstaðan sé enn og aftur komin í málþóf, en nú eigi að beita öllum brögðum til að hindra að frumvarp um hækkun veiðigjaldanna komist í gegn á vorþingi.
Heimir skrifaði færslu á Facebook í kvöld þar sem hann benti á að í kvöld ætlaði stjórnarandstaðan að ræða „sig vankaða“ um fjáraukalög, en það liggi í augum uppi að nú eigi að safna málum upp í stíflum á þingi til að freista þess að tefja afgreiðslu á veiðigjaldafrumvarpinu.
„Stjórnarandstaðan komin í enn eitt málþófið og búin að ræða sig vankaða um fjáraukalög fyrir þetta ár, við fjárlög síðustu ríkisstjórnar. Koma hvert á fætur öðru upp í ræður og andsvör við hvert annað í almennu rausi um eðli húsnæðismarkaðarins, samfélagsbanka og fleira. En samfélagsbanki er alls ekki á dagskránni. Vefst hvað eftir annað tunga um höfuð í mismælum og tungubrjótum, enda vita þau fæst hvað þau ætla að segja næst í óæfðu þófinu.
Allt gert til að koma í veg fyrir að sex önnur mál komist til fyrstu umræðu og þar með til meðferðar í nefndum. Saka svo stjórnarliða um ólýðræðisleg vinnubrögð á sama tíma og þau hindra lýðræðislegan framgang mála meirihlutans.
Mál eru ekki almennt rædd í þaula við fyrstu umræðu heldur í nefndum að fyrstu umræðu lokinni og síðan annarri umræðu.
Þessa stundina er Guðlaugur Þór kominn í söguskýringar allt aftur til ársins 2004 í sögu Íbúðalánasjóðs, sem ríkið er nú að borga um 700 milljarða af vegna þess að einkavæddu bankarnir undirbuðu Íbúðarlánasjóð í vöxtum og skildu sjóðinn eftir gjaldþrota með haug af uppgreiddum lánum og tapi.
Það er því allt útlit fyrir að fundað verði fram á kvöld eða nótt í dag og annað kvöld og á föstudag en alla jafna er ekki fundað á Alþingi á föstudögum. Enginn fundur á fimmtudag vegna 1. maí.
Allt þetta málþóf í þeim tilgangi til að safna málum upp í stíflu til að auka þrýsting á að væntanlegt frumvarp um veiðigjöld nái ekki í gegn á vorþingi. Á hagsmunatengdum vinum má þekkja þá.“