Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, segir að ekki ríki einhugur hjá þjóðinni um milljarða stuðning Íslendinga til Úkraínu vegna stríðsins við Rússa. Þetta kemur fram í aðsendri grein Ögmundar í Morgunblaðinu í dag.
Ögmundur bendir á að í lok þessa árs verði fjárveitingar Íslendinga til Úkraínu komnar upp í 10 milljarða, en hluti þeirra fer í vopnakaup. Hann segir að ólíkt framlögum vegna hamfaranna í Grindavík, eða aukaframlögum inn í heilbrigðiskerfið, ríki alls ekki einhugur á meðal landsmanna um þessa ráðstöfun.
„Stuðningur við stríðshrjáð fólk á vissulega rétt á sér en ekki við þá vígvæðingu sem íslenska ríkisstjórnin og Alþingi hafa skuldbundið okkur til að veita,“ segir Ögmundur og tjáir efasemdir um þá stefnu að óvinir Nató eigi sjálfkrafa að verða óvinir íslensku þjóðarinnar. Hann telur ekki rétt að líta skilyrðislaust á Rússa sem óvini og vill að við nálgumst deiluna með frið að leiðarljósi.
„Vígvæðing grefur undan friði,“ skrifar Ögmundur og átelur hann þjóðir Evrópu fyrir að láta vopnaiðnaðinn teyma sig gagnrýnislaust út í fjáraustur til hernaðar.
„Kjarnorkuvopn eru á leið nær landamærum Rússlands, evrópsk hagkerfi eru að koma sér í stríðsham og undir allt þetta tekur Ísland. Nær daglega heyrum við forsvarsmenn Alþingis og ríkisstjórnarinnar tala fyrir hærri útgjöldum til samstarfs í NATÓ,“ skrifar Ögmundur og líst honum ekki á blikinu. Sú afstaða að vinir okkar séu í Nató og líta beri á óvini Nató sem óvini Íslands hugnast honum ekki.
Hann segir: „En þá spyr ég hvort við þurfum ekki að grafast fyrir um hversu réttlátir þessir meintu vinir okkar hafi verið gagnvart veikburða og fátækum þjóðum og þá einnig hvort allir óvinir þeirra og jafnvel vinir óvina þeirra séu óverðugir vináttu okkar?“