Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, fannst svo nauðsynlegt að leiðrétta fullyrðingu, sem féll í athugasemd á Facebook-síðu hans, að hann skrifaði sérstaklega grein um málið sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Hannes fjallar í grein sinni um umræður sem áttu sér stað á Facebook-síðu hans þann 24. ágúst sl. Þar hafði Hannes deilt grein sem hann hafði ritaði í Morgunblaðið um uppgjör sem fyrrverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, fékk við starfslok vegna orlofs sem hann átti inni.
Gauti B. Eggertsson skrifaði athugasemd við færsluna þar sem hann velti fyrir sér hvers vegna Hannesi þyki undarlegt að Dagur hafi fengið uppgjör á orlofi en geri á sama tíma engar athugasemdir við rausnarlegar eftirlaunagreiðslur sem ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, fær í hverjum mánuði. Gauti, sem er bróðir Dags, skrifaði:
„Kannski þú gefir þér tíma til ad útskýra hvernig Davíð Oddsson tekst at kreista út 4 milljónum í hverjum einasta mánuði m.a. 2 milljónir á mánuð fyrir að hafa gegnt stöðu forsætisráðherra, sérsniðið ákvæði fyrir hann, byggt á eigin eftirlaunalögum sem voru svo gróf að ég veit ekki betur en þau hafi verið felld úr gildi en voru þó ekki afturvirk. Svo er spurning hvernig honum hafi tekist að kreista út hinar tvær milljónirnar.“
Hannes svaraði Gauta því að Davíð sé hvorki höfundur eða upphafsmaður eftirlaunafrumvarpsins. Gauti skaut því þá inn að frumvarpið var samþykkt árið 2003 þegar Davíð var í forsætisráðuneytinu. Frumvarpið hefði aldrei verið samþykkt í hans óþökk. Gauti bætti eins við að Davíð hafi sett Seðlabankann á hausinn.
Hannes mótmælti þeirri fullyrðingu og tók fram að Seðlabankinn hafi aldrei orðið gjaldþrota þó svo hann hafi tapað verulegu fé til að reyna að halda bankakerfinu við áður en það hrundi.
Um eftirlaunafrumvarpið segir Hannes að tími sé kominn til að Davíð segi þá sögu sjálfur. Hannes hafi gengið á eftir því við hann en Davíð telur ekki liggja á því.
Orðaskipti Gauta og Hannesar urðu fleiri þar til Gauti sagðist ekki nenna að eltast við útúrsnúninga Hannes. Augljóslega hafi Gauti verið að vísa til þess að eftirlaunafrumvarpið fór í gegn í ríkisstjórn Davíðs og hver maður geti séð hversu vel þetta frumvarp reyndist honum síðar.
„Dýr verður Davíð allur. Hann er ekki að kasta grjóti úr glerhúsi heldur heilu fjalli þegar hann er að búa til gervifréttir um starfslok sveitastjórnarfólks eftir að krókur hans sjálfs er svona rækilega makaður að ég efast um að nokkur opinber starfsmaður komist með tærnar þar sem hann hefur hælana.“
Hannes hélt áfram að koma Davíð til verna en Gauti beit ekki frekar á agnið.
Hannes hefur því ákveðið að svara Gauta á stærri vettvang og í Morgunblaðinu í dag ritar hann í pistli:
Stuðningsmenn Dags B. Eggertssonar rjúka upp eins og nöðrur ef á það er minnst að hann lét greiða sér tíu ára uppsafnað orlof, um tíu milljónir króna, við nýleg starfslok sem borgarstjóri. Þegar ég birti á Snjáldru (Facebook) afrit af pistli mínum um málið, hvæsti þar bróðir Dags“
Hannes rekur svo orðaskiptin á Facebook, þá einkum ummæli hans um að Davíð sé ekki upphafsmaður eftirlaunafrumvarpsins og að Seðlabankinn hafi aldrei orðið gjaldþrota. Í raun bætir Hannes engu við þau orðaskipti sem greint er frá hér að framan. Þar með hefur Hannes lokað hringnum. Fyrst skrifaði hann grein í Morgunblaðið um orlofsuppgjör Dags. Svo deildi hann greininni á Facebook. Þar átti hann í orðaskiptum við bróður Dags sem hann gerði svo grein fyrir í nýrri grein í Morgunblaðinu.