fbpx
Fimmtudagur 01.maí 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Niður á jörðina aftur

Eyjan
Fimmtudaginn 30. maí 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Málefnalega verður kosninganóttin dauf þótt úr skoðanakönnunum megi lesa að talning atkvæða í forsetakjörinu á laugardag geti orðið spennandi.

Ástæðan er sú að í stjórnarskrá lýðveldisins er hvergi að finna fót fyrir því að forsetaembættið hafi teljandi málefnalega þýðingu fyrir fólkið í landinu.

Forsetaembættið er hefðarsæti en ekki valdasæti. Eigi að síður þarf að vanda valið.

Eftirlit með sjálfum sér

Af kosningaumræðunni má draga þá ályktun að forsetinn leiki lykilhlutverk í framgangi mála bæði innan landsteina sem utan.

Sumir frambjóðendur og margir kjósendur virðast líta á forsetaembættið sem sjálfstæða fjórðu stoð stjórnkerfisins til viðbótar við Alþingi, framkvæmdavald og dómstóla. Þannig sé það hlutverk forseta að leiðrétta kúrsinn ef ríkisstjórnin og meirihlutinn á Alþingi tapa áttum.

Samkvæmt stjórnarskránni er forseti Íslands hins vegar sama og ríkisstjórn Íslands. Til að mynda leggur forseti öll stjórnarfrumvörp fyrir Alþingi. Á hann að hafa eftirlit með sjálfum sér?

Hlutverkum snúið við

Tilhneigingin virðist vera sú að nota úrelt og óskýr ákvæði stjórnarskrárinnar til þess að breyta forsetaembættinu smám saman á þann veg að á Bessastöðum sitji einstaklingur sem leiði ríkisstjórnina eins og foreldri barn.

Hugmyndin virðist byggja á því að kjósendur velji betra eða jafnvel göfugra fólk á Bessastaði en á Alþingi.

Ugglaust á þetta að einhverju leyti rætur að rekja til þess að fyrrum forseti vísaði tveimur ágreiningsmálum í þjóðaratkvæði, sem hann hafði þó sjálfur lagt fyrir Alþingi. En hvaða auðnubót fólst í því?

Lítil auðnubót

Í fyrra tilvikinu risu háværar deilur um lög sem, sem forseti lagði fyrir Alþingi og margir töldu að stönguðust á við prentfrelsið, sem varið er í stjórnarskrá.

Þjóðaratkvæðagreiðsla gat aldrei skorið úr þeim ágreiningi. Samþykki þjóðarinnar hefði ekki eytt ágreiningsefninu. Það gátu dómstólar einir gert.

Synjunin breytti í engu þeim gildu rökum, sem eru fyrir því að dómstólar skeri úr telji menn að lög fari í bága við stjórnarskrárvarinn rétt borgaranna.

Svipaða sögu er að segja af Icesavelögunum, sem forseti lagði fyrir Alþingi. Þar var um að ræða milliríkjadeilu um gildi evrópskra réttarreglna um að ríkissjóðir væru ekki ábyrgir fyrir skuldbindingum banka.

Þjóðaratkvæðagreiðsla gat ekki leyst þá milliríkjadeilu. Það gerðist hins vegar með dómi EFTA-dómstólsins, sem féll Íslandi í hag og sýnir hversu mikilvæg fjölþjóðasamvinna er landsmönnum.

Hvorugt þessara mála gefur tilefni til þess að gera úr forsetaembættinu sjálfstæða fjórðu stoðina í stjórnskipun landsins. Þvert á móti er líklegra að ný stoð myndi gera stjórnkerfið flóknara og á engan hátt réttlátara. Í því felst lítil auðnubót.

Síst til að auka veg þjóðarinnar

Látið hefur verið að því liggja að forseti Íslands geti talað um utanríkisstefnu landsins með öðrum og göfugri hætti en ríkisstjórnin.

Hér verður að hafa í huga að forseti er ríkisstjórn landsins, en ráðherrar bera ábyrgð á athöfnum hans. Sá sem ber enga stjórnskipulega ábyrgð á orðum sínum og gjörðum hefur engar lýðræðislegar forsendur til þess að taka fram fyrir hendur á lýðræðislega skipaðri ríkisstjórn, sem ber ábyrgð gagnvart Alþingi og fyrir dómstólum.

Að sönnu er ekki unnt að banna forseta að tala á annan veg en ráðherrarnir, sem bera ábyrgð á því sem hann aðhefst. En í þeim tilvikum liggur stjórnskipulega fyrir að hann talar ekki fyrir hönd landsins. Það gerir hann einvörðungu þegar hann talar fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar.

Ef fjórða stoðin undir stjórnskipun landsins leiðir til þess að Ísland talar tungum tveim í alþjóðasamfélaginu yrði það síst af öllu til þess að auka veg og áhrif þjóðarinnar.

Niður á jörðina aftur

Eðlilega eru kjósendur misjafnlega ánægðir með ákvarðanir ríkisstjórna í innanlandsmálum jafnt sem utanríkismálum. Þann kúrs á að leiðrétta í Alþingiskosningum.

Takmörkun á valdi er nauðsynleg í lýðræðisskipulagi. En fjölgun valdþátta í stjórnskipaninni leiðir bara til aukins glundroða.

Ég held að það yrði betra fyrir alla að kippa umræðunum um hlutverk forsetaembættisins niður á jörðina aftur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Réttlæti miskunnsama samherjans

Svarthöfði skrifar: Réttlæti miskunnsama samherjans
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Flís og bjálki – þar er efinn

Svarthöfði skrifar: Flís og bjálki – þar er efinn
EyjanFastir pennar
30.03.2025

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“
EyjanFastir pennar
27.03.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Boðflennur, fullveldi og fjölþjóðasamvinna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Boðflennur, fullveldi og fjölþjóðasamvinna
EyjanFastir pennar
26.03.2025

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?