Svindl með kosningavélar og fólk, sem ekki er til, á kjörskrá. Þetta er meðal þess sem tröllríður samfélagsmiðlum í Bandaríkjunum þessa dagana. Margar þeirra hljóma eins og bergmál af lygum Donald Trump um kosningasvindl í forsetakosningunum 2020.
Þá hélt hann því meðal annars fram að átt hefði verið við kosningavélar þannig að þegar kjósendur greiddu honum atkvæði, hafi vélarnar sjálfkrafa breytt því í atkvæði fyrir Joe Biden. Þessum lygum hafa bandarískir dómstólar algjörlega hafnað enda lagði Trump engar sannanir fram fyrir þessu.
Á síðasta ári varð Fox News sjónvarpsstöðin, sem styður Trump, að greiða sem svarar til um 110 milljarða íslenskra króna í bætur til Dominion Voting Systems, sem framleiðir kosningavélarnar, eftir að hafa skýrt frá þessum lygum Trump.
En Trump hefur tekist að sannfæra 70% Repúblikana um að Biden hafi „stolið“ kosningasigrinum 2020 með því að hafa rangt við og nýlega endurvakti mál, sem kom upp í Georgíu, þessa umræðu um kosningavélarnar.
Málið snýst um kjósanda sem mætti á kjörstað til að kjósa utan kjörfundar. Hann ýtti á takka, sem er merktur öðrum frambjóðandanum, á kosningavélinni. Hún prentaði þá, eins og hún á að gera, út útfylltan kjörseðil sem kjósandinn skoðaði sjálfur. Síðan átti hann að skanna kjörseðilinn í talningarvél. En áður en hann gerði það áttaði hann sig á að hann hafði ýtt á rangan takka.
Kjörstjórn brást við þessu með að ógilda kjörseðilinn og kjósandinn fór aftur að vélinni og ýtti nú á réttan takka og fékk réttan kjörseðil sem hann skannaði síðan. AFP segir að kosningavélin hafi verið rannsökuð í kjölfarið og hafi reynst í fullkomnu lagi.
En málið fór á mikið flug á samfélagsmiðlum og þar var því stillt upp á þann veg að kosningavélin hefði sjálf flutt atkvæðið yfir á hinn frambjóðandann.
Marjorie Taylor Greene, þingkona Repúblikana og samsæriskenningasmiður, var fljót að grípa þetta á lofti og skrifaði á X: „Það var nákvæmlega svona svindl sem við upplifðum 2020 og það er ekki hægt að líða.“
Hún er þekkt fyrir hugmyndaríkar samsæriskenningar, til dæmis hélt hún því fram nýlega að ill öfl stjórni veðrinu og þar með hvaða hlutar Bandaríkjanna verði fyrir barðinu á fellibyljum.
🚨 CHECK YOUR BALLOTS GEORGIA!
Reports from Whitfield County, GA that Dominion machines are flipping votes.
This is exactly the kind of fraud we saw in 2020 and it cannot be tolerated.
I will be working to investigate this issue and ensure the integrity of our elections in… https://t.co/1rYyQAhE6E pic.twitter.com/0yaBBINPC3
— Marjorie Taylor Greene 🇺🇸 (@mtgreenee) October 18, 2024