Eyjan og Vísir greindu í gær frá því að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, hafi frá því að hún tók sæti á Alþingi árið 2016 þegið 13,8 milljónir í mánaðarlegar greiðslur sem beinlínis eru ætlaðar þingmönnum sem hafa húsnæðis- og dvalarkostnað bæði á höfuðborgarsvæðinu og í landsbyggðarkjördæmi.
Þetta hafi Þórdís gert sem þingmaður Norðvesturkjördæmis, þrátt fyrir að hún hafi ekki haldið heimili í kjördæminu heldur búið í Kópavogi í áratug.
Þórdís Kolbrún hefur nú svarað fyrir fréttaflutninginn þar sem hún bendir á að greiðslurnar séu lögbundnar en ekki valkvæðar. Hún hefði þó fengið hærri greiðslur ef hún hefði haldið heimili í kjördæmi sínu, það gerði hún þó ekki. Þórdís fjallar sérstaklega um fréttaflutning Vísis sem upphaflega tók aðeins fyrir hennar nafn í frétt, en hefur nú uppfært fréttina með nöfnum fleiri þingmanna sem þiggja sömu greiðslur.
Þórdís skrifar á Facebook:
„Lögbundið en ekki valkvætt – og á við um alla.
Vísir birti í gærkvöld frétt um að ég hefði sem þingmaður Norðvesturkjördæmis þegið greiðslur upp á 13,8 milljónir síðan 2016. Um það vil ég segja eftirfarandi:
Ég hef fengið greitt, eins og allir aðrir þingmenn landsbyggðarkjördæmanna, samkvæmt reglum sem finna má í lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað. Þetta kemur til hvort sem þeir halda heimili í kjördæminu eða ekki og á við um þá alla. Séu þeir hins vegar skráðir með lögheimili í kjördæminu fá þeir hærri greiðslur en þetta. Það á ekki við um mig þar sem lögheimili mitt er í Kópavogi og hefur aldrei frá því ég settist á þing verið skráð annars staðar. Einmitt vegna þess að ég held ekki tvö heimili. Gagnrýni á að vera ekki með lögheimili í kjördæminu svaraði ég fyrir átta árum að rétt væri að greiða útsvar þar sem fjölskyldan þiggur þjónustu og rangt væri að þiggja hærri laun þegar ég ræki eitt heimili en ekki tvö.
Þetta er lögbundið en ekki valkvætt. Þingmenn sem það fá rukka það ekki eða þiggja með sérstakri ákvörðun og geta ekki afþakkað það heldur samkvæmt upplýsingum sem ég fékk þegar ég spurðist fyrir um það á sínum tíma.
Hvers vegna Vísir kaus að draga mitt nafn fram í þessu samhengi, á þessum tímapunkti, er vissulega athyglisvert, en auðvelt er að finna lög og reglur um laun og kostnaðaðargreiðslur þingmanna á vef Alþingis, ásamt upplýsingum um greiðslur til hvers og eins.“