„Við þær aðstæður er eina ábyrga leiðin að boða til kosninga,“ skrifar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á Facebook og vísar til þeirrar stöðu sem var komin upp í ríkisstjórnarsamstarfinu og varð til þess að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, ákvað að óska eftir þingrofi. Áslaug segir ljóst að restin af kjörtímabilinu hefði annars einkennst af átökum fremur en árangri og því eina vitið að boða til kosninga.
„Ríkisstjórnarsamstarf, eins og allt farsælt samstarf, byggir á gagnkvæmu trausti og órofa samstöðu.
Á þeim sjö árum sem Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Vinstri græn störfuðu saman í ríkisstjórn náðist margvíslegur árangur og Ísland stendur nú framar mörgum þjóðum þrátt fyrir fordæmalausar áskoranir sem hafa dunið á samfélaginu.“
Áslaug segir að ekkert annað land geti státað sig af kaupmáttaraukningu 11 ár í röð samhliða sögulega litlu atvinnuleysi. Sjálf horfir hún stolt um öxl.
„Ísland skarar fram úr öðrum þjóðum. Ekkert annað land getur státað sig af kaupmáttaraukningu 11 ár í röð samhliða sögulega litlu atvinnuleysi. Langtímakjarasamningar hafa skapað stöðugleika á vinnumarkaði. Þetta er árangur sem við getum verið stolt af, en jafnframt hvatning til að gera enn betur.
Ég horfi stolt um öxl. Nýsköpunarumhverfið á Íslandi er í fremstu röð. Fjórða stoð efnahagslífsins er orðin að veruleika, með þúsundum nýrra starfa og útflutningstekjum sem auka lífsgæði landsmanna. Við höfum ýtt undir nýsköpun í heilbrigðiskerfinu með áþreifanlegum árangri – bætt þjónustu, létt á álagi og gert nýtingu fjármuna skilvirkari. Gjörbreytt fjármögnun háskólanna, innleitt hvata til árangurs og aukinna gæða. Fyrsta heildstæða aðgerðaáætlun Íslands í gervigreind verður tilbúin á næstu vikum sem mun opna gríðarleg tækifæri. Án nægilegrar orku er hætt við því að þau tækifæri renni okkur úr greipum. Mikill árangur hefur náðst í netöryggismálum og ljósleiðaravæðingu landsins. Það styður við störf án staðsetningar og eflir byggðir um allt land.
Ekki síst er ég stolt af því að hafa innleitt nýsköpun í Stjórnarráðinu og gjörbylt vinnubrögðum og um leið lagt grunninn að skilvirkara og nútímalegra ríkisrekstri. Efnahagslegur ávinningur allra þessara aðgerða er ótvíræður og mælanlegur.“
Sjálfstæðisflokkurinn sýni, með því að boða til kosninga, að flokkurinn seti hagsmuni þjóðarinnar ofar flokkspólitík. Þetta sé hugrökk ákvörðun og nauðsynleg. Ekki sé hægt að keyra ríkisstjórn áfram með endalausum átökum.
„Að boða til kosninga sýnir að við setjum hagsmuni þjóðarinnar ofar skammtíma flokkspólitískum hagsmunum. Slík ákvörðun krefst hugrekkis og er nauðsynleg þegar stjórnvöld standa frammi fyrir flóknum áskorunum og þurfa endurnýjað umboð til verka sem skila árangri.
Á næstu vikum gefst tækifæri til að ræða þann árangur sem náðst hefur og setja fram þau þjóðþrifamál sem verða að klárast. Sjálfstæðisflokkurinn byggir á sterkri hugmyndafræði, skýrri framtíðarsýn og öflugum mannauði. Tækifærin eru fjölmörg, en til að nýta þau þarf að taka afgerandi ákvarðanir í efnahagsmálum, útlendingamálum, húsnæðismálum, orkumálum, menntamálum og á fleiri lykilsviðum samfélagsins.
Mikilvægasta verkefnið er og verður alltaf að ná áframhaldandi árangri fyrir Ísland og alla landsmenn. Við komumst ekkert áfram með endalausum átökum. Ég er stolt af þeim árangri sem náðst hefur og er staðráðin í að byggja á þeim grunni til að skapa enn bjartari framtíð fyrir Ísland.“