Margir spáðu því að ríkisstjórnarsamstarfinu væri lokið þegar boðað var til skyndifundar þingflokks Sjálfstæðismanna á fjórða tímanum í dag. Raunin varð þó önnur, og áfram skröltir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri Grænna og Framsóknar. Eftir landsfund Vinstri Grænna síðustu helgi tilkynnti flokkurinn að ekki yrði lengra haldið að þeirra hálfu í útlendinga- og orkumálum, en það eru tvö helstu áherslumál Sjálfstæðisflokks um þessar mundir.
Margir hafa tjáð sig um fundinn óvænta á samfélagsmiðlum og velta fyrir sér fjaðrafokinu sem lítil innistæða reyndist loks fyrir.
Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar lýsir á Facebook (fb) þeirri skoðun sinni að fundurinn hafi verið sýndarmennska. „Mætum í Valhöll og hnyklum vöðvana. Skrifum svo nokkrar greinar um hvað VG er vond en förum svo bara í sleik.“
Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar skrifar á fb að góða stjórnsýslu sé ekki að finna í Valhöll út af öllum lögfræðingunum: „Hafið í huga þegar þið hlustið á Valhöll ræða stjórnsýslu að Sjálfstæðisflokkurinn er fullur af lögfræðingum, og íslenskir lögfræðingar eru þeir allra verstu í okkar heimshluta ef marka má endalausar ákúrur sem íslenskt réttarkerfi hefur fengið frá alþjóðlegum dómstólum og stofnunum. Ef þið viljið vita eitthvað um góða stjórnsýslu er ekki snjallt að spyrja Valhöll.“
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar segir það ákveðinn skell að eftir allt fjaðrafokið séu helstu fréttir kvöldsins úr Valhöll um ræðukeppni menntskælinga: „Eftir mikið haverí verður stærsta fréttin úr Valhöll þennan sólarhringinn hvort MR eða Versló vinnur ræðukeppni.“
Helga Vala Helgadóttir, fyrrum þingman Samfylkingar, segir ástandið ekki boðlegt:
„Kæra ríkisstjórn. Þetta er ekki boðlegt ástand. Við getum ekki búið við það að vakna á hverjum morgni með hnút í maganum yfir því hvaða opinbera rifrildi við verðum vitni að milli ráðherra þann daginn. Ef ástandið er orðið svo slæmt að þið getið ekki einu sinni reynt að fela óhjákvæmileg væntanleg stjórnarslit þá sýnið þið þjóðinni þá mannúð/mennsku og mildi að hætta bara núna. Þessar endalausu yfirlýsingar um allt það versta sem ykkur dettur í hug að segja um samstarfsflokkana er bara alls ekki boðlegt“
Hrafn Jónsson, pistlahöfundur með meiru, þakkar forsætisráðherra fyrir að sóa tíma landsmanna: „„Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það hafi verið eðlilegt að þingflokkurinn kæmi saman vegna spennu í ríkisstjórnarsamstarfinu.
„Engin sérstök niðurstaða, engin sérstök tillaga heldur sem lá fyrir fundinum.“
Já Ok takk fyrir að EYÐA TÍMA ALLRA ÍSLENDINGA.“
Karen Kjartansdóttir, almannatengill, spáði því að ekkert nýtt kæmi fram á fundinum:
„Gaman að þessum samræðum. Bæði spáðum við því að þessi fundur í Valhöll yrði ekki neitt nýtt. Enda nokkuð augljóst „show“ til að hnykla vöðvana. Ég veit ekki hvað ég hef farið í marga þætti til að ræða stöðu ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili en aldrei hef ég spáð því að hún springi en vissulega stendur hún veikar núna heldur en í hin skiptin.“
Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson segir hressandi að ríkisstjórnin geti verið sammála um eitthvað, þó það sé það eitt að vera ósammála.
Sama hvað hver segir, þá er Ríkisstjórnin sammála um að vera ósammála þessa daganna. Þau eru þó loksins sammála um eitthvað! #25jan
— Simmi Vil (@simmivil) October 11, 2024
Almannatengillin Andrés Jónsson var vongóður á meðan fundi stóð:
Spennandi að sjá ef það verður ný rikisstjorn hvort BB stokkar upp í eigin ràðherraliði og hvort lesa megi í það einhverjar átakalínur varðandi komandi formannskjör XD. pic.twitter.com/UmNwCaz1ls
— Andrés Jónsson (@andresjons) October 11, 2024