Listamaðurinn Einar Baldvin Árnason fór öfögrum orðum um Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra, í grein sem birtist hjá Vísi í gær. Hann kallar hana narsissista, barn í frekjukasti sem hafi aðeins komist þangað sem hún er í dag því faðir hennar, Sigurbjörn Magnússon, hafi hringt í rétta fólkið og loks segir hann Áslaugu ekki hafa nokkra burði til að gegna embætti.
Einar bregst þarna við grein sem Áslaug ritaði um stöðu Sjálfstæðisflokks í skoðanakönnunum. Greinin bar titilinn: Við þurfum breytingar – ekki nýja kennitölu. Þar fjallaði Áslaug um hvað það getur verið erfitt að vera opinber manneskja. Fólk hafi vikið sér að henni á almannafæri og hún óttast um öryggi sitt og þurft að þola lygar um persónu sína. Þrátt fyrir þetta hafi hún aldrei misst sjónar á hugsjónum sínum. Fall Sjálfstæðisflokks í skoðanakönnunum sé ákall um breytingar, breytingar sem Áslaug vill sjálf sjá og taka þátt í.
Einar virðist hafa móðgast við þessi skrif Áslaugar og telur þau koma úr fílabeinsturni sem hafi litla tengingu við raunveruleikann.
„Svona talar bara manneskja semur hefur aldrei þurft að vinna heiðarlega fyrir neinu, og þó að Áslaug Arna sé auðvitað ekkert sérstaklega ung lengur þá hugsar hún og hegðar sé ennþá eins og barn í frekjukasti. Sjálfstæðisflokkurinn á að stjórna þó hann sé vanhæfur til þess, alveg eins og Áslaug Arna á að vera ráðherra þó hún hafi enga burði til þess. Þetta er svo fullkominn samruni flokks og manneskju að það er í raun bara ein rökrétt leið framávið. Spörum pabba hennar Áslaugar þá þjáningu að þurfa liggja í símanum, og flokknum þá kvöl og pínu að þurfa að þykjast hafa eitthvað innihald. Gerum hið ósagða að hinu augljósa og leyfum Áslaugu Örnu einfaldlega að vera formaður Sjálfstæðisflokksins!“
Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur nú komið Áslaugu Örnu til varna í færslu á Facebook. Þar segir Brynjar að hver sem er geti titlað sig listamann, þrátt fyrir að hafa ekkert unnið sér til frægðar á því sviði. Einar Baldvin tilheyri þeim hóp.
„Í stað þess að tala fyrir sinni marxísku hugmyndafræði og reifa í aðalatriðum stórkostlegan árangur sósíalismans í gegnum tíðina þegar kemur að almennri velferð íbúa og frelsi, ekki síst kvenfrelsi, ræðst hann á pólitíska andstæðinginn, í þetta sinn á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og reynir að gera lítið úr henni. Hún sé bæði hæfileikalaus og reynslan takmörkuð og brautargengi hennar innan flokksins sé vegna áhrifa föður hennar. Ég vil segja við Einar Baldvin, þennan landsþekkta og hæfileikaríka listamann, að sjaldan gagnast mönnum að sitja við lyklaborðið með samanbitnar varir og klemmdar rasskinnar af reiði og reyna að upphefja sjálfan sig með níðskrifum um aðra af þessu tagi.“
Brynjar segist hafa starfað innan Sjálfstæðisflokk á annan áratug og þar hafi ungum konum verið treyst til ábyrgðarstarfa. Þær konur hafi staðið undir þeirri ábyrgð og þurfi hvorki á feðrum sínum að halda né marxískum femínisma.
„Hef grun um að Áslaug Arna hafi lagt miklu fleira fram fyrir okkar samfélag en Einar Baldvin þrátt fyrir ungan aldur og vona innilega að pólitísk hugmyndafræði hans verði ekki ofaná í íslensku samfélagi í framtíðinni.“