fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Eyjan

Gagnrýnir skuldaaukningu Hafnarfjarðarbæjar – „Lántökur aukast umtalsvert milli ára“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 17. maí 2024 10:30

Guðmundur Árni eru ekki sáttur við meðhöndlun meirihlutans á fjármálum bæjarins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingar í Hafnarfirði, gagnrýndi lausatök meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á fjármálum sveitarfélagsins á fundi bæjarráðs í gær. Skuldir væru að aukast hratt.

„Lántökur aukast umtalsvert milli ára og skuldir bæjarsjóðs hækka um 4,7 milljarða króna milli ára og eru nú samtals með lífeyrisskuldbindingum meira en 70 milljarðar króna,“ benti Guðmundur á í umræðu um ársreikning Hafnarfjarðarbæjar í gær fyrir árið 2023.

Segir hann að þetta hafi gerst þrátt fyrir að tekjur af útsvari og fasteignasköttum hafi hækkað um meira en milljarð umfram viðmið fjárhagsáætlunar. Sem og að framlög úr jöfnunarsjóði hafi hækkað um 550 milljónir og rekstrartekjur samanlagt hafi hækkað um fimm milljarða. Þá hafi bærinn innheimt 2,6 milljarða lóðagjöld fyrir fram, einkum vegna úthlutana.

Rekstrarkostnaður hafi hins vegar hækkað um þrjá milljarða króna. „Þetta leiðir til þess að varanleg fjárfesting, framkvæmdir við uppbyggingu innviða, svo sem skóla, leikskóla, íþróttamannvirkja og fleira, eru öll fjármögnuð með lánsfé,“ segir Guðmundur í bókun.

Stór verkefni hreyfast lítið

Segir hann að stór verkefni hreyfist lítið, svo sem nýr skóli í Hamranesi á Völlum. Bregðast hafi þurft við þessu með stórfelldum tilflutningi nemenda.

Ljóst er að bærinn muni þurfa að borga milljarða vegna lóða og eignakaupa til að unnt sé að byggja nýjan Tækniskóla. Þá er nýtt bókasafn einnig í burðarliðnum.

Sjá einnig:

Skólamatur í Hafnarfirði hækkar um þriðjung – Lofuðu lækkun eftir kosningar

„Það er enda staðreynd að fjárfestingar á árinu 2023 voru í lágmarki og innviðauppbygging í engu samræmi við þörf,“ segir Guðmundur. „Það er ljóst að stórverkefnum er ýtt inn í framtíðina – að miklu leyti ófjármögnuðum.“

Bókhaldsbrellur

Jón Ingi Hákonarson, oddviti Viðreisnar, tók undir að rekstur bæjarins væri ósjálfbær.

„Enn og aftur freistast meirihlutinn til þess að tekjufæra gatnagerðargjöld upp á tæplega 2 milljarða,“ segir Jón. „Reksturinn er því neikvæður um 1.750.000. Það er ekki 250 milljóna afgangur af grunnrekstrinum. Reksturinn gekk því vel á blaði en ekki í raunveruleikanum. Hallinn er falinn með bókhaldbrellum enn eitt árið, bókhaldslegar fegrunaraðgerðir eru því orðin regla en ekki undantekning.“

Þetta sé einnig brot á reglugerð um ársreikninga sveitarfélaga. Ekki skuli tekjufæra gatnagerðargjöld.

„Nýjar lántökur voru 3,5 milljarðar og því er ljóst að ný lán voru tekin til að greiða fyrir hallareksturinn og afborganir lán. Slík niðurstaða á ekkert skylt við ábyrga fjármálastjórn og hvað þá síður árangur í rekstri,“ segir Jón.

Skattar fari lækkandi

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri lét einnig bóka um málið. Segir hún reksturinn hafa gengið vel þrátt fyrir krefjandi árferði í rekstri sveitarfélaga.

„Á meðal merkja um bættan rekstur má nefna að veltufé frá rekstri var verulega yfir áætlunum sem styrkir getu sveitarfélagsins til þess að standa undir framkvæmdum og fjárskuldbindingum og laun- og launatengd gjöld lækka hlutfallslega milli ára,“ segir Rósa. „Samhliða blómlegum rekstri voru innviðafjárfestingar auknar verulega í fyrra sem munu skila sér í öflugri þjónustu og betri lífsgæðum fyrir bæjarbúa.“

Segir hún áherslu lagða á að halda álögum á íbúa niðri og hlutfall útsvars og fasteignaskatta af heildartekjum haldi áfram að lækka.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast