fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Þorgerði svelgdist á kaffinu þegar hún heyrði viðtal við Bjarna um helgina

Eyjan
Fimmtudaginn 16. maí 2024 16:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingmanninum Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir svelgdist á kaffinu um helgina þegar hún hlustaði á viðtal Ríkisútvarpsins við forsætisráðherra. Þorgerður vakti máls á þessu í óundirbúnum fyrirspurnatíma Alþingis í morgun. Hún segir furðu sæta að Bjarni hafi notað tækifærið til að „sparka“ í Seðlabankann fyrir að hafa lækkað vexti alltof hratt á sínum tíma, enda hafi fáir fagnað vaxtahækkuninni meira en Sjálfstæðismenn og flokkurinn hreinlega montað sig af því að þessar öru lækkanir ættu sér stað á þeirra vakt.

Svelgdist á kaffinu

„Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér svelgdist aðeins á kaffinu um helgina þegar ég hlustaði á hæstvirtan forsætisráðherra í viðtali við Ríkisútvarpið segja að það væri alveg óviðunandi hvað vextir væru háir. Ég er sammála honum í því. En það væri líka sérstakt áhyggjuefni að heimilin væru að segja sig úr lögum við vaxtaákvarðanir Seðlabankans með því að yfirgefa óverðtryggðu lánin. Hann nýtti líka tækifærið og sparkaði í Seðlabankann þegar hann var að spá í það og draga það fram að Seðlabankinn hefði lækkað vexti allt of hratt. Samt var þetta þannig að Sjálfstæðisflokkurinn gat notað þessa miklu vaxtalækkun á sínum tíma í mikla auglýsingaherferð. Ég velti því líka fyrir mér hvort hæstvirtur ráðherra þekkir þann fjármálaráðherra sem hefur stýrt ráðuneytinu síðastliðinn tíu ár þegar það er talað svona.“

Þorgerður bendir á að þessi heimili sem Bjarni segist hafa áhyggjur af eru að leita skjóls í verðtryggð lán. Með öðrum orðum séu þau að leita skjóls undan „ofríki íslensku krónunnar“ og efnahagsstjórn Íslands. Það sé eðlilegt að fólk leiti leiða til að ná endum saman. Það sé áhyggjuefni að það séu ekki síst millitekjuhópar, háskólamenntaðir, sem munu greiða niður samninga atvinnulífsins og verða fyrir mestu skattbyrðinni.

„Þetta eru hóparnir sem hafa ekki síðan árið 2000 fengið neinn kaupmátt. Ekki neinn kaupmátt. Skilaboðin eftir þessi ár er að það borgar sig ekki að mennta sig á Íslandi. Við Íslendingar erum svona í faðmi gömlu Sovétríkjanna þegar kemur að ábatanum af menntun og það er áhyggjuefni.“

Þorgerður spurði Bjarna því hvort það væri ekki heldur áhyggjuefni að Ísland væri að segja sig úr lögum við siðuð samfélög þegar komi að vöxtum, verðbólgu og metnum ábata af menntun.

Heimsmet í kaupmáttarvexti

Bjarni sagði erfitt að svara fyrirspurn sem fari um þetta víðan völl og þar sem orð eru slitin úr samhengi. Lögmál hagfræðinnar sé að þar sem hagvöxtur er fyrir hendi myndist spenna og þar sem eftirspurnin er mikil þar verði meiri verðbólga.

„Það er varla svo að háttvirtur þingmaður ætli að gera ágreining við mig um það hversu slæmt það er að við séum í 11% húsnæðisvöxtum um þessar mundir. Það er gríðarlega alvarlegt mál og það getur aldrei verið ástand sem við búum við nema til mjög skamms tíma. Háttvirtur þingmaður spyr hvort ég kannist við að bera einhverja ábyrgð á efnahagsmálum undanfarinn áratug. Já, ég geri það með miklu stolti.“

Á Íslandi hafi hagvöxtur verið meiri undanfarinn áratug og fleiri ný störf sköpuð á Íslandi en annars staðar. Ríkisstjórnin hafi byggt upp hundruð milljarða gjaldeyrisforða og kaupmáttur aukist jafnvel hjá háskólamenntuðum, þó Þorgerður haldi öðru fram. Það sé þó alvarlegt mál að heimilin séu að yfirgefa óverðtryggðu lánin. Það sé umhugsunarefni, en ríkisfjármálum verði þó ekki kennt um þá þróun.

Þorgerður steig aftur í pontu og benti á að Ísland sé á pari við stríðshrjáða Úkraínu og Rússland í vaxtarstigi. Það sé afleiða efnahagsstjórnar Bjarna sem fór með fjármálaráðuneytið þar til nýlega. Það sé áhyggjuefni að fólk sem hafi lagt sig fram við að mennta sig fái ekki að sjá ábata af því. Þorgerður hvetur ríkisstjórnina til að girða sig í brók og ekki gera háskólamenntuðum að borga niður slaka efnahagsstjórn Bjarna Benediktssonar. Bjarni þurfi að gæta þess að taka utan um alla hópa, en ekki bara sína eigin.

Bjarni tók aftur til svara og sagði Þorgerði búa í draumalandinu Evrópusambandið. Þar hafi kaupmáttur millistéttarinnar farið lækkandi út af okurverði og launum sem hafa ekki haldið í við verðlag. Hér á Íslandi tókst að verja kaupmáttinn.

„Við höfum líklega, segjum það svona með ákveðnum fyrirvara; ég býst við að við höfum síðastliðinn áratug sett met í kaupmáttarvexti, bæði ráðstöfunartekna launa og varðandi kaupmátt bóta almannatrygginga ríkisins. Þetta er árangurinn af efnahagsstjórninni undanfarinn áratug fyrir utan það að við erum á alla mælikvarða sem máli skipta í efnahagslegu tilliti sterkari ríki en áður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Lífleg útgáfa hjá sagnfræðingum í Háskóla Íslands

Lífleg útgáfa hjá sagnfræðingum í Háskóla Íslands
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þórdís Kolbrún svarar gagnrýni Hannesar – „Það er ekki bæði haldið og sleppt í þessu“

Þórdís Kolbrún svarar gagnrýni Hannesar – „Það er ekki bæði haldið og sleppt í þessu“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Efins um að Valkyrjustjórnin verði að veruleika – „Eins og við séum að horfa á eitthvað leikrit“

Efins um að Valkyrjustjórnin verði að veruleika – „Eins og við séum að horfa á eitthvað leikrit“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þetta ætlar Áslaug Arna að gera í desember

Þetta ætlar Áslaug Arna að gera í desember