Um þetta skrifar Vilhjálmur í færslu á Facebook og vísar til alræmds hvalveiðisbanns Svandísar Svavarsdóttur, fyrrum matvælaráðherra, síðasta sumar. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í byrjun árs að bannið hafi ekki verið í samræmi við lög. Vilhjálmur segir þrátt fyrir þetta að aftur stefni í óefni og fyrirséð að tekjufallið verði aftur mikið.
Vilhjálmur skrifar:
„Eftir mínum bestu upplýsingum þá eru 99% líkur á að íslenskum stjórnvöldum sé búið að takast að koma í veg fyrir gjaldeyrisöflun upp á 3 milljarða vegna hvalveiða þetta árið.
Það er þyngra en tárum taki að stjórnvöld (matvælaráðneytið) skuli með klækjum og seinagangi koma í veg fyrir að Hvalur sjái sér fært að fara á hvalveiðar. Matvælaráðuneytið hefur dregið lappirnar frá janúar með að svara Hval hvort leyfið verði gefið út og nú er svo komið að Hvalur er fallinn á tíma enda þarf fyrirtækið að panta aðföng og búnað erlendis frá sem og ráða til sín starfsfólk.
Það er með algjörum ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn sem kennir sig við að standa vörð um „frelsi“ skuli ekki verja eina af mikilvægustu greinunum í Stjórnarskránni sem er atvinnufrelsi fyrirtækja og einstaklinga. Þögn Framsóknarflokksins hvað hvalveiðar varðar er einnig ærandi, en ég er reyndar hættur að átta mig á fyrir hvað sjá flokkur stendur.
Það er ljóst að verið er að hafa gríðarlega tekjumöguleika af þeim 150 manns sem myndu alla jafna starfa ef hvalveiðar yrðu heimilaðar að ógleymdu tuga ef ekki hundruð milljóna tekjutapi Akraneskaupstaðar og nærsveita.Að hunsa gjaldeyrisöflun upp á 3 milljarða er með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar en því miður er allt sem bendir til þess að Hvalur sé fallinn á tíma með að fá útgefið leyfi. Öll fyrirtæki þurfa fyrirsjáanleika til að geta gert ráðstafanir og matvælaráðneytið hefur séð til þess að sjá fyrirsjáanleiki er enginn!.
Milljarðarnir þrír komi beint frá Hagstofu Íslands sem meti útflutningsverðmæti hvalaafurða árið 2022 tæpa þrjá milljarða. Nýr matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sagði á Alþingi í gær að hún væri að bíða eftir ákveðnum gögnum áður en hún tekur afstöðu til umsóknar Hvals hf um leyfi. Umsóknina lagði Hvalur hf. fram í janúar.