fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 15. apríl 2024 11:00

Jóhann Páll bendir á að umtalsverðum tíma heilsugæslustarfsfólks sé varið í skammtímavottorð fyrir vinnuveitendur vegna minniháttar veikinda. Mynd/aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á árunum 2018-2021 skrifuðu læknar á Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins samtals 504.670 vottorð, þar af 134.670 vegna fjarveru frá vinnu og 23.629 vottorð vegna fjarvista frá skóla.

Það fer of mikill tími í skriffinnsku og of lítill tími í að sinna sjúklingnum, of mikill tími fyrir framan tölvuskjá í handónýtu og úreltu sjúkraskrárkerfi og ekki nægur tími í að sinna þeim sem þurfa á þjónustunni að halda.

Þetta eru lýsingar sem við í Samfylkingunni heyrum aftur og aftur þegar við fundum með heilbrigðisstarfsfólki.

Á heilsugæslustöðvum er til dæmis umtalsverðum tíma varið í að skrifa út skammtímavottorð fyrir vinnuveitendur vegna minniháttar veikinda. Læknir sem ég ræddi nýlega við sagðist upplifa að vera kominn nauðugur viljugur í eins konar varðhundshlutverk fyrir atvinnurekendur sem noti kröfuna um veikindavottorð sem ögunartæki gagnvart starfsfólki, helst gegn tekjulágu fólki af erlendum uppruna. Þetta er misnotkun á heilbrigðiskerfinu og sóun á tíma og starfskröftum.

Heimilislæknar hafa gagnrýnt ósveigjanlegar kröfur um að skrifaðar séu út tilvísanir vegna heimsókna barna til stofulækna, og svo aftur þegar þeim er vísað áfram í rannsóknir og myndgreiningar. „Stór hluti þessara tilvísana hefur verið án þess að við höfum nokkuð komið að málum, jafnvel ekki hitt börnin þannig við höfum metið það sem svo að það sé algjör óþarfi fyrir okkur að gera þessar tilvísanir,“ sagði Gunnar Þór Gíslason heimilislæknir í fréttum Stöðvar 2 nú í vikunni. Árum saman hefur verið kallað eftir röksemdum um ávinninginn af fyrirkomulaginu og bent á að þessi mikla pappírsvinna valdi vandkvæðum við raunverulega forgangsröðun og stýringu. Enn bólar ekkert á viðbrögðum frá stjórnvöldum.

Annað sem veldur umtalsverðu álagi er vinna við gerð endurhæfingarvottorða og endurhæfingaráætlana fyrir Tryggingastofnun þar sem flytja þarf upplýsingar handvirkt milli kerfa, jafnvel aftur og aftur með nokkurra mánaða millibili.  „Við erum að fara ansi hátt í prósentunýtingu á tíma heimilislækna í vottorð og hliðvörslu. Þeir þurfa líka að vera hliðverðir fyrir spelkur, göngugrindur og bleiur,“ sagði Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, nýlega í viðtali. „Haldið þið að fólk sé mikið að misnota slíkar beiðnir, að biðja um fullorðinsbleiur ef það þarf þess ekki?“ Það skringilegasta af öllu er þó þegar krafist er endurnýjunar á örorkuvottorðum vegna t.d. lömunar, fjölfötlunar og blindu, hömlunar sem engin von er um að breytist.

Staða heilsugæslunnar hefur þyngst verulega á undanförnum árum eftir því sem hún fær fleiri og þyngri verkefni í fangið. Fjöldi heimilislækna miðað við íbúafjölda er í sögulegri lægð um þessar mundir og langt undir því sem tíðkast í löndunum í kringum okkur. Það skýtur skökku við að á sama tíma og mönnunarvandinn ágerist og það reynist erfiðara og erfiðara að fá tíma hjá lækni virðist skriffinnska og pappírsvinna aukast ár frá ári.

Hér þurfa stjórnvöld að stíga inn með afgerandi hætti. Hvað heilsugæsluþjónustu áhrærir ættum við að líta til Svíþjóðar. Þar tíðkast ekki að heilsugæslulæknar skrifi álitsgerðir og vottorð að beiðni tryggingafyrirtækja og lífeyrissjóða og þar geta vinnuveitendur og skólar ekki farið fram á læknisvottorð nema veikindi standi yfir í meira en viku. Það er löngu tímabært að skyldur heilbrigðisstarfsfólks í þessum efnum verði afmarkaðar með skýrari hætti en nú er. Núgildandi reglugerð um læknisvottorð var sett árið 1991 og hefur ekki verið uppfærð síðan þótt lagaumhverfi og regluverk um heilbrigðisþjónustu hefur að öðru leyti gerbreyst.

Við í Samfylkingunni höfum lengi kallað eftir auknum fjárframlögum til heilbrigðismála og að gripið verði til markvissra aðgerða til að bæta starfsaðstæður og laða sérhæft fólk til starfa. Þetta útheimtir aukin útgjöld, en svo eru líka ótal tækifæri til að vinna gegn sóun og tryggja að takmarkaðir fjármunir og starfskraftar nýtist betur. Liður í því er að höggva á skriffinnsku og tryggja að heilbrigðisstarfsfólk geti varið minni tíma í óþarfa pappírsvinnu og meiri tíma í að sinna sjúklingum.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar og starfandi formaður velferðarnefndar Alþingis.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Brynjar Níelsson: Sjálfstæðisflokkurinn hætti að tala við kjósendur sína sem misstu þolinmæðina gagnvart flokknum

Brynjar Níelsson: Sjálfstæðisflokkurinn hætti að tala við kjósendur sína sem misstu þolinmæðina gagnvart flokknum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju
Eyjan
Fyrir 5 dögum

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Valdalaus Bjarni Ben veitir leyfi til hvaladráps næstu fimm árin – Ný ríkisstjórn hlýtur að ógilda leyfið

Orðið á götunni: Valdalaus Bjarni Ben veitir leyfi til hvaladráps næstu fimm árin – Ný ríkisstjórn hlýtur að ógilda leyfið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“