fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Bankarnir þurftu ekki að hækka vexti – Stýrivaxtahækkanir Seðlabanka tylliástæða

Eyjan
Mánudaginn 1. apríl 2024 08:00

Ole Anton Bieltvedt

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undirritaður átti heima í Þýzkalandi, hjarta ESB og Evrópu, í 27 ár. Líka eftir að ég flutti aftur heim, fylgist ég gjörla með því sem þar gerist. Hvern dag. Þess vegna kann ég góð skil á því, sem hefur gerzt og er að gerast þar. M.a. með Evru og ESB, verðbólgu og vexti.

Ég hef verið að skoða vaxta- og verðbólgumál í Þýzkalandi/Evrópu. Mér varð t.a.m. litið á vexti í Þýzkalandi við íbúðarkaup. Ef íbúð er keypt á 450.000 evrur (tæpl. 70 milljónir kr.) og lán tekið fyrir 320.000 evrum (tæpl. 50 milljónum kr.) eru dæmigerðir vextir þar nú 3,16% fastir vextir til 5 ára og 3,11% til 10 ára.

ECB, Evrópski Seðlabankinn, sem ákveður stýrivexti fyrir evru-löndin 25, líka auðvitað Þýzkaland, hefur samt haldið stýrivöxtum í 4,5%. ECB hreyfir vextina reyndar mjög hægt, hvort heldur er til hækkunar eða lækkunar, vegna þess að stjórnendur þar vita að verkun stýrivaxta er tvíeggjað sverð. Menn þar vita líka að markaðsöflin sjálf vinna alltaf að því að jafna verðsveiflur á markaði, hvort sem þær eru upp á við eða niður. Oft jafna því slíkar sveiflur sig án inngripa seðlabanka.

Punkturinn hér er, hvernig má það verða að viðskiptabankarnir í Þýzkalandi skuli lána almenningi, íbúðarkaupendum, fé til langs tíma langt undir stýrivöxtum?

Stýrivextir ECB eru þeir vextir, sem viðskiptabankarnir þurfa að greiða ECB, ef þeir fá fé að láni hjá ECB. Hvernig geta viðskiptabankarnir þá lánað út fé langt undir stýrivöxtum? Ástæðan er einföld. Flestir viðskiptabankar byggja sín útlán á innlánum viðskiptavina að viðbættu eigin fé. Margir þýzkir viðskiptabankar þurfa alla jafna ekki lán frá ECB. Þeir eru því lítt háðir útlánsvöxtum ECB.

Auðvitað gætu þýzku bankarnir fært upp sína útlánsvexti, vel yfir stýrivexti – húsnæðislán myndu þá kosta minnst 5-7%, í stað 3%, – í skjóli þess, hverjir stýrivextirnir eru, og kennt ECB, Evróska seðlabankanum, um.

En, það gera þeir ekki. Meginástæður þess eru þessar: 1. Þeir vilja styðja sína viðskiptavini til góðra og hagstæðra íbúðarkaupa 2. Þeir eru í harðri samkeppni við hundruð annarra banka um viðskiptavini (gagnstætt þeirri hættulegu fákeppni, sem hér ríkir) 3. Þeir skilja sína samfélagslegu ábyrgð og þörfina á því, að sem mest sé byggt, til að fyrirbyggja spennu, þenslu, á húsnæðismarkaði 4. Þessi útlánaviðskipti borga sig samt fyrir þá.

Hér á Íslandi var fyrirkomulag stýrivaxta það sama lengi vel. Stýrivextir voru þeir vextir, sem viðskiptabankarnir þurftu að greiða, þegar þeir fengu fé að láni hjá Seðlabanka. Nú er þetta breytt. Stýrivextir eru þeir vextir, sem viðskiptabankarnir fá á fé, sem þeir binda í Seðlabanka í minnst 7 daga.

Þegar ársreikningar íslenzku bankanna þriggja, per 31.12.22, eru skoðaðir, kemur í ljós, að 80-90% þeirra útlána eru dekkuð með eigin fé plús innlánum viðskiptavina. Þau 10-20%, sem upp á vantar, dekka bankarnir mest með erlendum lántökum, með lágum vöxtum, eða skuldabréfaútgáfu.

Þessi lántaka bankanna er sem sagt þó takmörkuð. Enda segir einn bankinn í ársuppgjöri: „Bankinn er enn að stærstum hluta fjármagnaður með innlánum viðskiptavina …“ Annar segir: „Innlán frá viðskiptavinum eru stærsti hluti fjármögnunar bankans.“ Sá þriðji segir: „Fjármögnun og lausafjárstaða einkenndust af sterkri lausafjárstöðu og áframhaldandi vexti innlána.“

Skv. ársreikningum bankanna þriggja, per 31.12.22, er skuld þeirra við Seðlabankann sáralítil og inneign frá 2,4-7,8% af eignum. Þetta þýðir, að skulda- og/eða eignastaða viðskiptabankanna þriggja við Seðlabankann er hlutfallslega lítil.

Á sama hátt þýðir þetta að stýrivextir Seðlabankans, hækkanir eða lækkanir, hafa í reynd óveruleg áhrif á rekstur og útlán bankanna. Það er ekkert og enginn, sem skyldar þá eða knýr til að fylgja breyttum stýrivöxtum. Ekki heldur þörf.

Varla fara bankarnir að safna innlánum og borga fyrir þau frá 2% (veltureikningar) til þess eins að leggja féð inn hjá Seðlabanka og fá þar 9,25% vexti!? Hvers konar bankastarfsemi, siðferði og ábyrgð gagnvart viðskiptavinum og samfélaginu væri það!?

Stýrivextir Seðlabanka hafa því nær engin praktísk áhrif á starfsemi og útlán viðskiptabankanna og þar með, eru hinar gífurlegu hækkanir útlánsvaxta síðustu árin – þar sem útlánsvextir, og það á teknum/hlaupandi lánum, hafa verið minnst tvöfaldaðir – að mestu óþarfar.

Bankarnir nýttu sér sem sé hækkun stýrivaxta sem tylliástæðu, skálkaskjól, til að vaða upp með vextina, mikið til að bæta sína afkomu og auka sinn gróða.

Þeir gættu lítt að því að í leiðinni voru þeir að steypa öllum sínum viðskiptavinum – einstaklingum, fjölskyldum og fyrirtækjum sem voru með lán hjá þeim – í óvænta og erfiða stöðu, marga í algjörar þrengingar.

Það sem gerðist með þessum stórfelldu vaxtahækkunum, málið í hnotskurn, er það að aukavextirnir, milljarðar og tugir milljarða, voru hirtir af skuldurum og færðir yfir á bankana sjálfa og fjármagnseigendur.

Jafngildir þetta eignaupptöku hjá skuldurum og eignayfirfærslu yfir á banka og fjármagnseigendur. Með valdi. Siðlaust, óréttlátt og vart löglegt.

Það er margt makalaust sem gerist í þessu blessaða landi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Brynjar Níelsson: Mistök að leyfa þjóðinni ekki að ákveða hvort hún vildi fara inn í Evrópusambandið – Viðreisn þurfti ekki að verða til

Brynjar Níelsson: Mistök að leyfa þjóðinni ekki að ákveða hvort hún vildi fara inn í Evrópusambandið – Viðreisn þurfti ekki að verða til
Eyjan
Fyrir 3 dögum

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“