Evrópusambandið hefur boðað rannsókn á þremur af stærstu tæknifyrirtækjum heims, Apple, Meta og Alphabet, móðurfyrirtækis Google, vegna meintra brota á samkeppnislögum. Um er að ræða meint brot á lögum um stafræna markaði frá árinu 2022 en aðeins sex fyrirtæki í heiminum eru svo stór að þau heyra undir lagabálkinn. Auk áðurnefndra þriggja fyrirtækja eru það Amazon, Microsoft og ByteDance.
Fimm þessara fyrirtækja eru bandarísk en ByteDance, sem er móðurfyrirtæki Tiktok, er með höfuðstöðvar sínar í Kína.
Fyrir um tveimur vikum þurftu þessi fyrirtæki að skila inn skýrslu um hvernig þeim gengur að fylgja lögunum og virðast fulltrúar stjórnvalda telja að einhver misbrestur hafi orðið hjá þremur þeirra.
Þá eru aðeins þrjár vikur síðan að Evrópusambandið sektaði Apple um 1,8 milljarð evra fyrir að brjóta samkeppnislög varðandi tónlistarstreymi.
Einnig hafa bandarísk stjórnvöld höfðað mál gegn fyrirtækinu vegna meintra brota á samkeppnislögum varðandi snjallsímamarkaðinn vestra.