„Þrátt fyrir að óbeisluð græn orka renni á hverri mínútu til sjávar á Íslandi er nú yfirlýstur orkuskortur í landinu. Á dögunum var lagt fram frumvarp á Alþingi sem tryggja átti almenningi og öllum minni og meðalstórum fyrirtækjum raforku. Embættismanni, skömmtunarstjóra, á vegum ríkisins var falið vald til að ákveða hverjir fengju rafmagn og hverjir ekki. Frá því var horfið og eins og frumvarpið lítur út núna er skömmtunarstjórinn sjálfur ráðherra orkumála.“ – Þetta segir Jens Garðar Helgason, aðstoðarforstjóri Ice Fish Farm, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Jens segir að framsýni og hugrekki þurfi til að rjúfa kyrrstöðuna í virkjunarmálum og hann brýnir stjórnmálamenn til dáða:
„Skorturinn er afleiðing þess að stjórnmálamenn hefur skort kjark og framsýni. Þessa eiginleika tvo verða stjórnmálamenn að hafa, vilji þeir rísa undir þeirri ábyrgð sem felst í því að tryggja vöxt og verðmætasköpun í samfélaginu. Það er meginundirstaða efnahagslegrar velferðar þjóða.“
Hann sakar menn um tvískinnung:
„Stjórnmálamönnum hefur tekist að innleiða flókin og tímafrek regluverk sem hefur virkað eins og hönd dauðans á alla uppbyggingu. Allar framkvæmdir, vegir, raflínur, virkjanir eða önnur leyfisferli hjá einkageiranum eru föst í ár og jafnvel yfir áratug í feni regluverks og tilskipana. Andstæðingum viðkomandi framkvæmda tekst með endalausum kærum og töfum að tefja eða stoppa nauðsynlegar framkvæmdir. Þetta er sami hópurinn og krefst orkuskipta með grænni orku. Orðið tvískinnungur hefur verið notað af minna tilefni.“
Jens segir að flókin og tímafrek regluverk hamli uppbyggingu. Leyfisferli fyrir vegi, raflínur og virkjanir séu föst í feni regluverks árum og áratugum saman. Andstæðingum uppbyggingar takist að tefja eða koma í veg fyrir framkvæmdir með endalausum kærum. Garðar segir ennfremur:
„Vestfirðir eru keyrðir áfram af olíu. Olíukatlar í fiskimjölsverksmiðjur eru þeirra nýjustu fjárfestingar og milljarðafjárfestingar í skiptum yfir í raforku í sömu verksmiðjum standa ónotaðar sökum orkuskorts. Endurnýjun á flutningskerfi raforku er á mörgum stöðum stopp sökum þess að fámennur hópur getur stoppað og tafið ferlið. Mörg verkefnin eru lífsnauðsynleg þeim byggðum þar sem þessi verkefni standa fyrir dyrum. En það truflar ekki andstæðingana, sem fæstir, ef nokkrir, búa þar.“
Garðar brýnir stjórnmálamenn til að rísa upp og segja hingað og ekk lengra:
„Það þarf kjark til að standa upp og segja hingað og ekki lengra. Ekki fleiri starfshópa eða nefndir. Ekki fleiri íþyngjandi ákvæði, ferla og reglugerðir. Einföldun og skilvirkni í leyfisveitingum eiga að vera leiðarstefið.
Orkuskortur á Íslandi er afleiðing slæmra ákvarðana. Það er von mín að nú standi einhverjir stjórnmálamenn upp og láti verkin tala. Hagsæld þjóðarinnar veltur á því.“