Náttfari segir skemmtiþátt Gísla Marteins Baldurssonar í raun vera lítið annað en hrútleiðinlegan dagskrárkynningarþátt fyrir Ríkisútvarpið sem sé sendur út á besta útsendingartíma sjónvarpsins.
Ólafur Arnarson vandar Ríkisútvarpinu og Gísla Marteini ekki kveðjurnar í nýjasta Náttfarapistli sínum. Hann segir skemmtiþátt Gísla Marteins hafa verið staðnaðan um árabil og ekki séu líkur á að það breytist í vetur. Þeir sem vilji njóta sjónvarps á föstudagskvöldum séu fljótir að skipta um stöð, svo leiðinlegur sé þátturinn.
Ólafur segir þátt Gísla Marteins vera beina eftirlíkingu á The Tonight Show sem Johnny Carson og Jay Leno stýrðu lengst af. Þar komi helstu kvikmyndastjörnur samtímans og kynni komandi Hollywood myndir sínar. Þáttastjórnandinn segi brandara með heilt teymi færustu handritshöfunda í Hollywood sér til stuðnings. Í lokin sé tónlistaratriði.
„Það sem hefur einkennt þætti Gísla Marteins í vaxandi mæli er flatneskja í vali viðmælenda og vaxandi mont og drýldni þáttastjórnandans. Hann reynir að vera sniðugur en oftar en ekki virka sniðugheitin sem óttalegur barnaskapur og eru beinlínis kjánaleg, enda þarf hann sjálfsagt að semja sína brandara sjálfur. Honum hefur stundum þótt við hæfi að velta sér upp úr erfiðleikum fólks og fyrirtækja.“
Þetta bjóði Ríkissjónvarpið landsmönnum upp á þetta ár eftir ár sem sé fyrir neðan allar hellur í ljósi þess að allir landsmenn séu skikkaðir til að borga áskriftargjald að þessari ríkisstofnun hvort sem þeim líkar betur eða verr. Kröfurnar ættu að vera miklu meiri til gæða þáttar sem ætlaður er allri fjölskyldunni og sendur er út á besta tíma.
Ólafur segir gesti þáttarins vera mikið til sama fólkið sem stundum hafi ekki mikið fram að færa annað en að flissa með Gísla Marteini. Þarna séu þáttagerðamenn af Ríkisútvarpinu að kynna komandi þátt, eða jafnvel bara fréttamaður af fréttastofunni til að minna fólk á að Ríkisútvarpið haldi nú úti fréttastofu
Ólafur segir viðmælendur Gísla Marteins vera hið mætasta fólk en í þættinum sé það notað til uppfyllingar með dagskrárgerðarfólki Ríkissjónvarpsins sem þarna fái besta útsendingartíma til að kynna misgóða þáttagerð sína. Leiðinlegar dagskrárkynningar/auglýsingar dulbúnar sem skemmtiþættir séu dapurlegt fyrirbæri.
Hann hnykkir út með því að lágt sé nú risið á stofnuninni sem færði þjóðinni Spaugstofuna og Á tali hjá Hemma Gunn.
Náttfara í heild má lesa hér.