Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Guðrúnu að við verðum að laga okkur að nágrannalöndunum, hér sé ekki hægt að vera með einhverjar sérreglur sem eru á skjön við það sem aðrar þjóðir gera.
„Þetta er meiri fjöldi en ég tel að innviðir okkar ráði við og það er alveg ljóst að við verðum að reyna að fækka þessum umsóknum,“ sagði Guðrún. Hún sagðist telja líklegt að umsóknum um alþjóðlega vernd fjölgi eftir því sem líður á árið og reikna megi með að þær verði svipað margar á þessu ári og því síðasta.
Flestar umsóknirnar á þessu ári eru frá Venesúela eða 1.270, næstflestar frá Úkraínu eða 1.140. Meirihluti umsækjenda eru karlmenn.
Guðrún sagðist vera að leita leiða til að hægt sé að snúa fólki, sem er með tilhæfulausar umsóknir, hraðar til baka og hvernig sé hægt að vinna hraðar úr umsóknunum.
„Ég er að leita allra leiða til þess að styrkja Útlendingastofnun í þeirri vinnu, sem og hvað við getum gert til að færri komi hingað til lands sem eiga hingað ekkert erindi. Það er skýrt að hugmyndafræði okkar er að veita fólki í neyð skjól og hjálpa fólki sem þarf á hjálp að halda. En það er mikill hluti umsókna tilhæfulaus og það fólk verður að finna sér annan farveg en þann að koma hingað í gegnum verndarkerfið sem ætlað er fólki í neyð,“ sagði hún.
Guðrún mun leggja fram tvö frumvörp á Alþingi í vetur varðandi þennan málaflokk. Annað um afnám séríslenskra málsmeðferðareglna og hitt um búsetuúrræði með takmörkunum fyrir þá sem dveljast hér ólöglega, svipað og gert er í nágrannalöndum okkar.