Á fundi borgarráðs í gær voru kynntar fyrirhugaðar ferðir Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á næstu tæplega tveimur vikum til Bandaríkjanna annars vegar og Evrópu hins vegar.
Borgarstjóri og borgarfulltrúar, einkum þeir sem skipa meirihlutann í borgarstjórn, hafa að undanförnu verið nokkuð gagnrýndir fyrir utanlandsferðir undanfarin misseri á kostnað Reykjavíkurborgar og þá sérstaklega í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu borgarinnar.
Skemmst er að minnast umdeildrar ferðar borgarráðs, borgarstjóra og nokkurra embættismanna borgarinnar til Seattle og Portland í Bandaríkjunum í ágúst síðastliðnum. Ferðin var talsvert gagnrýnd í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Andrés Magnússon blaðamaður á Morgunblaðinu sagði m.a. í færslu á Facebook- síðu sinni að um væri að ræða algjört fyrirhyggjuleysi og skipulagða lystireisu til útlanda á kostnað útsvarsgreiðenda.
Þess ber þó að geta að í ferðinni voru borgarfulltrúar úr bæði meiri- og minnihluta í borgarstjórn. Þar á meðal var Kjartan Magnússon, fulltrúi Sjálftæðisflokksins í borgarráði og bróðir Andrésar.
Sú fyrri af tveimur fyrirhuguðum utanlandsferðum borgarstjóra verður farin til New York og stendur yfir dagana 17-20. september næstkomandi. Í bréfi borgarstjóra til borgarráðs segir að í þessari ferð muni hann taka þátt í „Climate Week NYC“, sem leiði saman helstu þjóðarleiðtoga, borgarstjóra, sérfræðinga, stjórnarmenn fyrirtækja og háskólasamfélagið í umræðu um loftslagsmál og hvernig megi hraða ferlinum í átt að kolefnislausum ríkjum fyrir árið 2040. Borgarstjóri muni einnig í ferðinni taka m.a. þátt í viðburðum Atlantic Council, sem og OECD sem formaður OECD Champion Mayors.
Í síðari ferðinni mun borgarstjóri halda til Evrópu. Í áðurnefndu bréfi segir að hann muni 29. -30. september næstkomandi í Flórens á Ítalíu þiggja boð um að vera þátttakandi í fundi sem Dario Nardella, borgarstjóri Flórens og fyrrverandi formaður Eurocities og Anne Hidalgo borgarstjóri Parísarborgar bjóða til. Þátttakendur eru sagðir evrópskir borgarstjórar. Í sömu ferð, dagana 2.-3. október næstkomandi, mun Dagur vera þáttakandi í fundi „United Nations Economic Commision for Europe (UNECE) Forum of Mayors“ sem fram fer í Genf. Í bréfi borgarstjóra til borgarráðs kemur fram að á þessum fundi verði áhersla lögð á húsnæðismál og endurnýjun borgarumhverfis, borgarþróun, og umhverfis- og loftslagsmál.
Með borgarstjóra í ferðunum verður aðstoðarmaður.