fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Thomas Möller skrifar: Múrar falla

Eyjan
Mánudaginn 19. júní 2023 12:12

Thomas Möller er varaþingmaður Viðreisnar í SV kjördæmi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á námsárum mínum í Berlín bárust reglulega fréttir af flótta Austur Þjóðverja undir, yfir eða gegnum múrinn. Jafnóðum voru gerðar ráðstafanir til að gera flóttaleiðina ómögulega. Svo féll múrinn.

Mér datt þetta í hug þegar umræðan um Úkraínukjúklingana var í gangi.

Kjúklingaiðnaðurinn á Íslandi býr innan öflugs múrs verndartolla og kvótauppboðskerfis auk fjarlægðarverndar gegn innflutningi. Nýlega opnaðist örlítið gat á þessum múr. Neytendur fengu í nokkra mánuði að njóta ótrúlega hagstæðs verðs á ótolluðum kjúklingum sem ekki lentu í innflutningskvótauppboði hjá ríkinu eins og aðrir kjúklingar frá Evrópu.

En svo voru gerðar ráðstafanir til að stöðva þessa leið neytenda að ódýrum og góðum mat. Flóttaleiðin var gerð ómöguleg um leið og táknrænum stuðningi við úkraínska kjúklingaframleiðendur var hætt sem er sorgleg niðurstaða.

400 störf – 390.000 neytendur

Rökin voru þau að um um 400 störf í kjúklingaiðnaðinum væru í hættu þó að Úkraínukjúklingarnir væru einungis um 3% af markaðinum. Þetta bendir til bágborinnar stöðu þessarar iðngreinar í landinu. En ef ársreikningar stóru kjúklingaframleiðendanna eru skoðaðir er afkoman hins vegar mjög góð. Sum þessara fyrirtækja reyndust jafnframt vera stærstu innflytjendur Úkraínukjúklinga. Ýmislegt bendir til að þau hafi stoppað sinn eigin innflutning með þrýstingi á þingmenn. Það er margt skrítið í okkar góða landi.

En hvers vegna mega hinir 390 þúsund neytendur í landinu ekki njóta þess að kaupa kjúklinga á hagstæðu verði án verndartolla og uppboðsgjalda?

Þegar dómsmálaráðherrann nýi stöðvaði þennan innflutning og þar með stuðning við stríðshrjáða þjóð datt henni ekki í hug að leyfa neytendum að spara matarútgjöldin sín örlítið. Sérhagsmunir nokkurra öflugra fyrirtækja og um 400 starfsmanna fengu ráðið. Almannahagsmunir komu ekki inn í myndina, þeim var einfaldlega fórnað.

En þessi múr mun falla eins og aðrir múrar.

Áður fyrr var bjór bannaður, hundahald var bannað, ríkið var með einokun á símamarkaði, útvarps- og sjónvarpsmarkaði. Fyrr á síðustu öld var ríkið með einokun í olíusölu, sölu útvarpstækja, raftækjaeftirlit og bifreiðaskoðun. Allir þessir múrar hafa fallið.

Nú eru múrarnir kringum einokun ríkisins á vínmarkaði að falla fyrir tilstuðlan reglugerðar frá ESB sem tryggir frjálst flæði vöru og þar með netverslun með áfengi og bjór. Múrinn um einokun á leigubílamarkaði er að falla vegna tilskipunar frá EES um viðskiptafrelsi.

Það blása því hressilegir frelsisvindar á Íslandi. Flestir þeirra koma frá Evrópu.

Enn er þó fákeppni á bankamarkaði og tryggingamarkaði þar sem krónan er besta vörnin gegn erlendri samkeppni. Þar með búum við eitt hæsta vaxtastig á Vesturlöndum og dýrustu tryggingar í Evrópu.

Viðreisn er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem berst fyrir inngöngu í ESB eins og um helmingur þjóðarinnar styður samkvæmt nýlegum könnunum.

Með fullri aðild að ESB falla niður allir múrar einokunar, fákeppni, útflutningstolla og verndartolla á Íslandi með miklum kjarabótum fyrir alla 390 þúsund neytendur í landinu.

Sérhagsmunir munu víkja fyrir almannahagsmunum.

Höfundur er varaþingmaður og stjórnarmaður í Viðreisn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum