fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

„Kennari var boðaður á fund skólastjóra fyrir að tjá opinberlega þá skoðun að kyn sé líffræðileg staðreynd“

Eyjan
Fimmtudaginn 4. maí 2023 16:57

Eva Hauksdóttir. Skjáskot RÚV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eva Hauksdóttir lögmaður hefur blandað sér í deilur um réttindi trans fólks og námsefni Samtakanna 78 í grunnskólum. Fyrir nokkrum vikum birti grunnskólakennarinn Helga Sverrisdóttir grein í Morgunblaðinu sem vakti hörð viðbrögð. Sakaði hún samtökin um að bera lygar á borð fyrir börn með fullyrðingum þess efnis að sumir fæðist í röngum líkama.

Sjá einnig: Tekist á um fræðslu Samtakanna 78

Helga sagði meðal annars: „Að bera lygar á borð fyrir börn sem geta ekki varið sig, farið í gagnrýna umræðu og svarað fræðsluaðila er vanvirðandi háttsemi, særandi og móðgandi. Börn hafa ekki þekkingu og hafa ekki skoðað aðrar hliðar málaflokksins eins og nauðsynlegt er til að svara fræðsluaðilum transsamtakanna um transmálaflokkinn. Samtökin hafa haldið fram að börn séu í sjálfvígshættu fái þau ekki viðeigandi meðferð við kynvanda sínum. Engar rannsóknir styðja þann málflutning og er börnum beinlínis hættulegur. Alveg ljóst er að ef samtökin ræða þetta í fræðslunni stefna þau heilsu barna í hættu.“

Var hún sökuð um fáfræði og fordóma í málflutningi sínum. Daníel E. Arnarson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78, sagði í viðtali við Morgunblaðið að grein Helgu þjónaði þeim tilgangi að skapa tortryggni. Að hún sakaði samtökin ranglega um að vera að fela fræðslu sína. „Við eig­um öll rétt á okk­ur og eig­um að fá að blómstra eins og við erum. Við [Sam­tök­in ’78] erum ekki að segja nein­um hvernig þau eru. Raun­veru­leik­inn er sá að þarna eru ein­stak­ling­ar sem eru trans, sem eru kynseg­in og við erum ein­fald­lega að end­ur­spegla sam­fé­lagið,“ sagði Daníel.

Helga kölluð á teppið

Eva Hauksdóttir fjallar um málið í aðsendri grein á Vísir.is. Í greininni tekur Eva ekki afstöðu til þess hvað kann að vera rétt eða rangt í trans-fræðum heldur leggur hún áherslu á tjáningarfrelsi kennara og lýsir yfir áhyggjum af því að vegið sé að því frelsi. Hún staðnæmist meðal annars við það að Helga hafi verið kölluð á teppið hjá skólastjóra vegna greinarinnar:

„Þann 14. apríl sl. birti Morgunblaðið grein eftir kennara, Helgu Dögg Sverrisdóttur, þar sem hún gagnrýnir aðkomu Samtakanna ’78 að skólastarfi. Greinin felur ekki í sér neinar árásir á hinsegin eða kynsegin fólk, heldur gagnrýni á þá stefnu að kenna börnum að kyn sé valkvætt. Viðbrögðin stóðu ekki á sér. „Góða fólkið“ fordæmdi skrif Helgu og sagði hana vera að níðast á transfólki. Aðrir fögnuðu því að einhver þyrði að viðra þessa skoðun opinberlega. Skólastjóri boðaði hana til leiðbeinandi samtals.

Já, það er rétt. Kennari var boðaður á fund skólastjóra fyrir að tjá opinberlega þá skoðun að kyn sé líffræðileg staðreynd og að hugmyndafræði tiltekinna hagsmunasamtaka ætti ekki að vera á námskrá grunnskóla.“

Segir Eva að viðbrögðin við grein Helgu minni á mál Snorra Óskarssonar, safnaðaraleiðtoga trúfélagsins Betel, en Snorri lýsti yfir andstöðu við samkynhneigð í bloggpistli árið 2012. Vegna pistilsins var hann rekinn úr starfi sem grunnskólakennari á Akureyri en vann skaðabótamál vegna uppsagnarinnar gegn Akureyrarbæ.

Vegið að tjáningarfrelsinu

Eva segir að gera þurfi greinarmun á framgöngu kennara í skólastofu og skrifum þeirra á opinberum vettvangi, utan kennslustofunnar. Hún segir:

„Tjáningarfrelsið er hornsteinn lýðræðisins. Þetta er ekki innantómur frasi heldur mikilvæg staðreynd. Mannréttindadómstóll Evrópu notar einmitt þetta orðalag í fjölmörgum dómum sem varða tjáningarfrelsi og takmörk þess. Tjáningarfrelsið sætir vissulega takmörkunum en þær takmarkanir ná ekki til málefnalegrar umræðu um samfélagsmál. Enda er ekki hægt að tala um lýðræði í ríkjum þar sem mismunandi skoðanir fá ekki að heyrast og þar sem fólk er beitt viðurlögum fyrir að gagnrýna stofnanir samfélagsins, ákvarðanir stjórnvalda eða stjórnmálamenn.“

Eva segir að þrengt hafi verið að tjáningarfrelsinu undanfarna áratugi, bæði hér á landi og erlendis. Kennarar með íhaldsamar skoðanir þurfi að þola áreitni á vinnustöðum sínum:

„Þetta á ekki síst við um tjáningu sem varðar málefni hinsegin hreyfingarinnar. Það er orðið varasamt að tjá íhaldssamar hugmyndir um kyn og kynferði. Starfsfólk skóla og aðrir sem vinna með börnum og unglingum virðast sérstaklega útsettir fyrir áreitni á vinnustað vegna skoðana sem þykja afturhaldssamar og eiga jafnvel yfir höfði sér agavirðurlög af hálfu vinnuveitanda. Slík skoðanakúgun er svo réttlætt með því að nemendur gætu tekið skoðanir kennarans nærri sér.“

Eva tekur fram að kennarar verði að koma vel fram við nemendur og megi ekki sýna þeim mismunun á nokkurn hátt. En kennarar megi samt hafa skoðanir sem gangi á skjön við viðhorf mannréttindafrömuða. „Kennari sem tjáir sig opinberlega má gagnrýna aðkomu Samtakanna ’78 að starfi grunnskóla, jafnvel þótt sé barn með kynáttunarvanda í skólanum. Kennari má lýsa áhyggjum af offitu meðal skólabarna þótt sé feitt barn í skólanum. Kennari má viðra þá skoðun að Ísland taki við of mörgum flóttamönnum, þótt sé flóttabarn í skólanum. Kennari má lýsa andúð á trúarbrögðum þótt sé trúað barn í skólanum. Kennari má líka tjá þá skoðun að Sjálfstæðisflokkurinn sé spillingarafl og Vinstri græn samsafn svikahrappa, jafnvel þótt í skólanum séu börn sem eiga foreldra í forystu þessara flokka.“

Hún segir að öll viðhorf megi gagnrýna og það eigi að innprenta börnum. Hins vegar eigi skólastjórnendur ekki að takmarka málefnalega tjáningu kennara um samfélagsmál utan vinnustaðarins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“