Aðalsteinn Leifsson lætur af embætti ríkissáttasemjara að eigin ósk á morgun, 1. júní. Hann hefur gengt embættinu í þrjú ár eða frá 1. apríl 2020. Samkvæmt tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands hefur verið ákveðið að auglýsa embættið laust til umsóknar á næstu dögum en þar til nýr ríkissáttasemjari verður skipaður mun Ástráður Haraldsson, héraðsdómari, tímabundið fara með embættið.
Ástráður er ekki ókunnugur starfinu, en hann var settur ríkissáttasemjari í vinnudeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins fyrr á þessu ári. Þá hafði Aðalstein óskað eftir því við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið að fá að víkja í deilunni, en Efling hafði áður krafist þess að Aðalsteinn véki sæti sökum meints vanhæfis. Taldi Efling að Aðalsteinn hefði gefið tilefni til að óhlutdrægni hans yrði dregin í efa eftir að hann lagði fram miðlunartillögu án þess að hafa ráðgast fyrst við Eflingu. Þar sem tillagan var samhljóma tilboði sem Samtök atvinnulífsins höfðu áður lagt fram í deilunni taldi Efling ljóst að Aðalsteinn væri ekki að gæta þeirra hagsmuna í deilunum.
Aðalsteinn hafði áður leitt daglegan rekstur EFTA sem og skrifstofu aðalframkvæmdastjóra EFTA. Samhliða því starfaði hann sem lektor við Háskólann í Reykjavík þar sem hann kenndi meðal annars samningatækni og lausn deilumála. Hafði hann svo starfað sem aðstoðarríkissáttasemjari í um ár áður en hann hlaut skipun í embætti ríkissáttasemjara.