Helgi Áss Grétarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að mikilvægur hluti upptöku af borgarstjórnarfundi hafi horfið með dularfullum og óskýrðum hætti. Þetta valdi því að viðurkenning borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Skúla Helgasonar, á því að hlutfjáraukning Ljósleiðarans ehf. sé ígildi einkavæðingar, sé ekki til á myndbandi.
Þetta kemur fram í aðsendri Helga í Morgunblaðinu í dag. Helgi segir:
„Svo sem kom fram í grein minni í Morgunblaðinu laugardaginn 6. maí sl. þá viðurkenndi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, Skúli Helgason, á borgarstjórnarfundi þriðjudaginn 2. maí að hlutafjáraukning Ljósleiðarans ehf. væri ígildi einkavæðingar. Sú viðurkenning er hins vegar ekki til á myndbandi. Fyrir liggur að þessi myndbandsbútur er sá eini sem hefur glatast af þessum fundi. Ekki er vitað til þess að þetta hafi gerst áður eftir að byrjað var að streyma beint frá borgarstjórnarfundum. Haldbærar skýringar á hvernig þetta gat gerst liggja ekki fyrir. Augljóst er að það verður að vera útilokað að hægt sé að eiga við myndbandsupptökur af borgarstjórnarfundum. Af þessum ástæðum er mikilvægt að gripið sé til ráðstafana sem koma í veg fyrir að svona lagað geti endurtekið sig.“
Helgi segir valdaþreytu einkenna borgarstjórnarmeirihlutann og bendir á að traust og virðing séu áunnin en ekki sjálfgefin:
„Að mínum dómi hefur Samfylkingin og fylgihnettir hennar verið of lengi við völd í Ráðhúsi Reykjavíkur. Valdaþreytan er orðin yfirgengileg. Stjórnsýslan í borgarkerfinu þarf að taka framförum. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Fyrir þeim breytingum þarf að berjast. Best er að gera það í borgarstjórnarsalnum þar sem allt er tekið upp, nema stundum.“
Hann segir að ýmsu þurfi að breyta í stjórnsýslukerfi borgarinnar og að fundarmenning í kerfinu sé óheilbrigð. Segir hann þá tilhneigingu ríkjandi í ýmsum fagráðum og nefndum að fylgja dagskrárvaldi meirihlutans með fundarstjórn og rýra möguleika minnihlutans á að veita eðlilegt aðhald. „Almenningur getur jafnan ekki fylgst með þessum vinnubrögðum milliliðalaust. Af þessum ástæðum m.a. hefur mér hægt og sígandi þótt brýnt að borgarfulltrúar í minnihluta nýti æðsta vettvang borgarstjórnar, borgarstjórnarfundi, með skilvirkum hætti,“ segir Helgi.