fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Vikið af vegi sannleikans

Eyjan
Sunnudaginn 9. apríl 2023 18:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Ernir Rúnarsson, síðasti ritstjóri Fréttablaðsins, gerði mikilvægi fjölmiðla að umtalsefni í hlaðvarpsþætti Frosta Logasonar á dögunum. Hefðbundin ritstýrð fjölmiðlun ætti í vök að verjast hér á landi. Fram væru komnir alls kyns smámiðlar – oft eins manns miðlar – þar sem hin klassísku gildi blaðamennsku væru oft látin lönd og leið. Ritstýrðir fjölmiðlar greini kjarnann frá hisminu og séu nauðsynlegir sem aldrei fyrr á tímum hinnar nýju fjölmiðlunar þar sem oft er dreift miskunnarlausum yfirlýsingum um mann og annan og hvergi gætt að hlutlægni enda oftar en ekki einhver annar ásetningur með starfseminni en að upplýsa almenning – jafnvel að vera þess í stað málpípa fyrir afmarkaða skoðun eða hugmyndafræði.

Erum veikburða ríki í ýmsu tilliti

Við blasir að staða sjálfstæðra öflugra fjölmiðla er enn veikari hér á landi í ljósi fámennisins og þess vegna brýnt að leita leiða svo þeir fái eflst í heimi nýrrar tækni og breyttra samfélagshátta. Íslendingum hættir alltof gjarnan til að álíta sig stærri og voldugri en þeir eru í reynd. Íbúar eins helsta samanburðarríkis okkar, Danmerkur, eru sextánfalt fleiri svo dæmi sé tekið. Á svo miklu stærri markaði og stærra málsvæði eru menn vitaskuld í mun betri færum til að halda úti nokkrum öflugum ritstýrðum miðlum.

Ég held að við missum alltof oft sjónar á því hversu fá við erum og flestar grunnstoðir þjóðfélagsins veikburða þar af leiðandi í samanburði við stóru ríkin. Í huga margra Íslendinga er saga þjóðarinnar saga almennrar fátæktar og vosbúðar. Sagnfræðingar hafa þó bent á það á síðustu árum að alþýða manna bjó víða í nágrannalöndum okkar við verri kjör á fyrri öldum. Vandamál Íslendinga lá ekki hvað síst í fólksfæðinni – svo hægt yrði að hefja framkvæmdir þurfti mannafla. Iðnvæðing Íslands hefst með vélvæðingu báta í byrjun síðustu aldar og kaupum á togurum. Stórvirkjanir og stóriðnaður mátti enn bíða í marga áratugi. Hvort tveggja var ógerlegt nema með miklum erlendum lántökum.

Hvað er sannleikur?

Ritstýrðir óháðir fjölmiðlar skipta máli því við þurfum að fá eins óbrenglaða mynd af sannleikanum og frekast er unnt. Og af því að nú eru páskar kemur spurning Pontíusar Pílatusar upp í hugann: Hvað er sannleikur? Þannig brást Pílatus við þegar Kristur kvaðst vera kominn að bera sannleikanum vitni. Þorsteinn heitinn Gylfason, prófessor í heimspeki, gerði þetta að umtalsefni í grein í Skírni árið 1990. Hann taldi næsta víst að Pílatus væri ekki að inna eftir einstaka sannindum heldur að láta í ljósi efasemdir um öll sannindi. Ef til vill hefði mátt endurorða spurningu Pílatusar á þessa leið: Hvernig vitum við yfirhöfuð nokkurn skapaðan hlut?

Þetta minnir undirritaðan dálítið á skeytingarleysið í samtímanum samfara afstæðishyggju gagnvart nánast hverju sem er. Hvað sé satt og hvað logið verður jafnvel algjört aukaatriði. Kann að vera að fyrir vikið hafi færri áhuga á hlutlægum og vönduðum fréttaflutningi? Líður flestum ekki best í bergmálshelli samfélagsmiðlanna?

En hvort sem menn eru kristnir eða ekki er sannleikurinn grundvallarhugtak í allri tilveru okkar og nauðsynlegt að það hafi eitthvert raunhlítt inntak.

Mikilvægi ritstýrðra fjölmiðla

En svo ég víki aftur að fjölmiðlum samtímans gat Sigmundur Ernir þess í áðurnefndu viðtali að ritstýrðir miðlar veldu vandlega efni til birtingar – óviðurkvæmilegt efni, hatur, persónuníð og önnur slík ósvinna væri vinsuð úr aðsendu efni til að mynda. Þess eru þó dæmi að ritstýrðir miðlar birti furðuskrif undir sínum hatti. Taka mætti bloggsíðu Morgunblaðsins sem dæmi. Egill Helgason fjölmiðlamaður benti á fésbókarsíðu sinni í gær á svæsið gyðingahatur sem birst hefði á sk. Moggabloggi á dögunum. Blaðið setti ofan við birtingu slíks efnis en enginn sómkær fjölmiðill í okkar heimshluta birti efni af þessu tagi.

Líklega verður gagnrýnin hugsun aldrei nógsamlega brýnd fyrir mönnum. Þeir sem unnið hafa á ritstjórnum fjölmiðla vita sem er að inn á þeirra borð vellur alls kyns þvæla á hverjum degi. Vandaður blaðamaður þarf að vega og meta sannleiksgildi þess efnis sem berst á hans borð og rannsaka báðar hliðar máls. Leiða í ljós hið sanna – eða alltént komast eins nærri því sem gerst hefur og unnt er. Samfélagsmiðlar eru oft og tíðum fullkomin andstæða þessa.

Við höfum lifað upplýsingabyltingu sl. aldarfjórðung – aðgengi að hvers kyns upplýsingum hefur aldrei verið jafnmikið en samt sem áður snúast þrætur um staðreyndir sem aldrei fyrr. Sumir kalla þetta upplýsingaóreiðu – ef til vill væri réttara að kalla þetta virðingarleysi fyrir sannleikanum. Við blasir að gildi vandaðrar blaðamennsku hefur líklega aldrei verið jafnaugljóst og nú um stundir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Himinninn er að hrynja

Þorsteinn Pálsson skrifar: Himinninn er að hrynja
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Í skálkaskjóli skrollsins

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Í skálkaskjóli skrollsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og segir: Leiðarvísir fyrir þjáða

Steinunn Ólína skrifar og segir: Leiðarvísir fyrir þjáða
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Raunheimar forstjóra og ráðherra

Þorsteinn Pálsson skrifar: Raunheimar forstjóra og ráðherra
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?
EyjanFastir pennar
09.04.2025

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?
EyjanFastir pennar
03.04.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Heil eilífð

Þorsteinn Pálsson skrifar: Heil eilífð
EyjanFastir pennar
02.04.2025

Thomas Möller skrifar: Framtíðin er björt hjá okkur, ef . . .

Thomas Möller skrifar: Framtíðin er björt hjá okkur, ef . . .