fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Dularfull afdrif arfsins sem rennur í ríkissjóð á grundvelli fjórðu erfðarinnar – Ráðuneytið neitar að veita upplýsingar og segir gögnin ekki til

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 26. desember 2023 18:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjármála- og efnahagsráðuneytið getur ekki veitt sundurliðaðar upplýsingar um þann arf sem tæmist ríkissjóði á grundvelli erfðalaga, tl að sýna fram á fjölda arfleifenda, fjárhæðir eða verðmæti eigna. Samkvæmt ráðuneytinu eru gögnin hreinlega ekki til. 

Þetta kemur fram í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem féll þann 20. desember.

Illa gekk að fá svör

Forsaga málsins er sú að í september óskaði DV eftir upplýsingum um þann arf sem hafi tæmst til ríkissjóðs á grundvelli 55. gr. erfðalaga, en ákvæðið kallast í daglegu tali fjórða erfðin og á við um afdrif eigna þeirra sem eiga enga skyldu- eða lögerfingja og hafa ekki ráðstafað eigum sínum með  erfðaskrá. Áður var það svokallaður erfðafjársjóður sem tók við slíkum arfi, en um aldamótin var erfðalögum breytt svo framvegis yrði það ríkisssjóður sem tæki við arfinum. Á tímum erfðafjársjóðs kom fram að tugir milljóna runnu í sjóðinn á ári hverju, en eftir að sjóðurinn var lagður niður, er litlum upplýsingum fyrir að fara um þessar fjárhæðir og fjölda þeirra sem láta lífið án erfingja.

Leitað var til fjármála- og efnahagsráðuneytis þar sem óskað var eftir upplýsingum um þann arf sem hefði tæmst ríkissjóð undanfarin fimm ár á grundvelli fjórðu erfðarinnar, ásamt sundurliðun sem sýndi hversu marga arfleifendur um ræðir, hversu miklar innistæður á bankareikningum eða beina peninga væri um að ræða, hversu margar fasteignir eða eignarhluta í fasteignum væri um að ræða, sem um annars konar verðmæti sem átt geta við svo sem listmunir, innbú, hlutabréf, ökutæki o.s.frv.

Stóð á svörum frá ráðuneyti og þurfti blaðamaður að ítreka erindi sitt nokkrum sinnum áður en svör bárust. Svarið var að ekki væri haldið utan um umbeðnar upplýsingar kerfisbundið með þeirri sundurliðun sem óskað var eftir. Því væru ekki tiltæk gögn til þess að svara fyrirspurninni.

Engin gögn til

Blaðamaður kærði þetta svar til úrskurðarnefndar með vísan til þess að fjármála- og efnahagsráðuneyti, sem fari með yfirstjórn opinberra fjár- og efnahagsmála, hljóti að búa yfir upplýsingum um tekjur og eignir hins opinbera, sem og um uppruna þeirra. Þar með hlyti ráðuneytið að búa yfir upplýsingum um fjórðu erfiðina. Þó svo ekki hafi verið hægt að svara fyrirspurn blaðamanns með þeirri nákvæmu sundurliðun sem óskað var eftir hefði verið hægt að svara fyrirspurninni að hluta. Minnt var á leiðbeiningarskyldu stjórnvalda sem og ákvæði upplýsingalaga sem kveður á um skyldi stjórnvalds til að gefa þeim sem óskar eftir upplýsingum færi á að afmarka beiðni sína nánar áður en henni er vísað frá.

Eins var bent á fordæmi úrskurðarnefndar þar sem tekið var fram að gögn geti talist fyrirliggjandi þó afmarka þurfi eða taka þau saman, svo sem þegar þau eru vistuð í gagnagrunni og hægt að kalla fram með einföldum hætti.

Úrskurðarnefnd leitaði svara til ráðuneytis. Meðal annars var þess óskað að ráðuneytið upplýsti hvernig gögn sem varða fjórðu erfð eru vistuð hjá ráðuneytinu, hvort þau séu í málaskrá eða í gagnagrunni. Eins vildi úrskurðarnefndin vita hvort gögn væru sundurliðuð með þeim hætti sem blaðamaður hafði óskað eftir og hversu mikla vinu það myndi útheimta að taka upplýsingarnar saman.

Ráðuneytið sendi úrskurðarnefnd sambærileg svör og blaðamanni eða með eftirfarandi setningu:

„Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir í ráðuneytinu og því ekki hægt að verða við fyrirspurninni“

Frekari rökstuðningur var ekki lagður fram. Úrskurðarnefndin tók fram að svör ráðuneytisins væru afdráttarlaus um að þær upplýsingar væru ekki fyrirliggjandi, eða með öðrum orðum engar upplýsingar þar að finna um nokkuð það sem fyrirspurn blaðamanns laut að. Ekki væru forsendur til að draga þessa staðhæfingu ráðuneytisins í efa. Þar með hafi ekki verið synjað um gögn, þar sem gögnin séu hreinlega ekki til. Ákvörðun ráðuneytisins var því staðfest.

Áfram reynt að varpa ljósi á dularfullu fjórðu erfðina

Úrskurðarnefnd tók þó fram að aðeins hafi verið tekin afstaða til upplýsingabeiðni blaðamanns eins og hún var lögð fram við ráðuneytið, en ekki til þrautakrafna í kæru sem varða almennt verkferla við töku erfðafjár samkvæmt fjórðu erfð, eða almennar upplýsingar um þá fjármuni sem til ríkissjóðs falla með þessum hætti.

Þessari niðurstöðu hefur  því verið fylgt eftir með eftirfarandi fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðuneytis þar sem óskað er eftir almennum upplýsingunum um verklag og framkvæmd þessarar fjórðu erfðar, eða að öðrum kosti staðfestingu á því að með engu móti sé haldið utan um þetta innan ráðuneytisins:

  1. Er með einhverjum hætti haldið utan um svokallaða fjórðu erfð, sbr. 55. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og ef svo er – með hvaða hætti, og hvers konar sundurliðun?
  2. Ég óska eftir þeim fyrirliggjandi upplýsingum, sem og upplýsingum sem ekki heimtir ótæpilega vinnu og tíma að taka saman, sem varpað geta ljósi á þetta mál, svo sem, en ekki takmarkað við, upplýsingar um hversu miklar fjárhæðir þetta eru, upplýsingar um hvernig haldið er utan um þessi mál, upplýsingar um verkferla varðandi arf sem fellur til ríkissjóðs, hvernig eftirlit og utanumhaldi með eignum er háttað, hvernig áþreifanleg verðmæti eru verðmetinn og komið í verð, og hvernig tryggt sé að ekki sé misfarið með áþreifanlegar og óáþreifanlegar eignir sem tæmast til ríkissjóðs á grundvelli 55. gr., svo sem til að tryggja að enginn sé að njóta ólögmæts ávinnings af slíkum arfi.
  3. Upplýsingar um hvernig haldið er utan um þessa fjórðu erfð í bókhaldi og málaskrám ríkissjóðs.
  4. Upplýsingar um með hvaða hætti þessar upplýsingar eru vistaðar í ráðuneytinu og hver fer með ábyrgð á þeim
  5. Allar upplýsingar sem geta varpað ljósi á verðmæti þess arfs sem hefur fallið til ríkissjóðs á undanförnum árum, eða um fjölda arfleifenda sem ríkissjóður tæmir arf frá. Sé það of umfangsmikil beiðni þá óska ég til vara eftir helstu upplýsingum sem varpað geta ljósi á það sama.
  6. Að öðrum kosti staðfestingu á því að með engum hætti sé haldið utan um þessi mál hjá ráðuneytinu, og engin leið fyrir nokkurn að svara því til hversu mörgum ríkissjóður hefur tæmst arfur frá, eða hversu mikil verðmæti um er að ræða.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Lífleg útgáfa hjá sagnfræðingum í Háskóla Íslands

Lífleg útgáfa hjá sagnfræðingum í Háskóla Íslands
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þórdís Kolbrún svarar gagnrýni Hannesar – „Það er ekki bæði haldið og sleppt í þessu“

Þórdís Kolbrún svarar gagnrýni Hannesar – „Það er ekki bæði haldið og sleppt í þessu“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Efins um að Valkyrjustjórnin verði að veruleika – „Eins og við séum að horfa á eitthvað leikrit“

Efins um að Valkyrjustjórnin verði að veruleika – „Eins og við séum að horfa á eitthvað leikrit“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þetta ætlar Áslaug Arna að gera í desember

Þetta ætlar Áslaug Arna að gera í desember