fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Vilhjálmur sakar Stefán og Eflingu um „grófasta blekkingarleik sem hann hefur séð“

Eyjan
Mánudaginn 16. janúar 2023 15:58

Vilhjálmur Birgisson og Stefán Ólafsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, sakar forystu Eflingar og Stefán Ólafsson, prófessor, um „ógeðfelldan blekkingarleik“ varðandi kjarasamninga sem aðildarfélög SGS undirrituðu á dögunum. Þetta kemur fram í eldfimri Facebook-færslu sem Vilhjálmur birti fyrir stundu en þar sakar hann Stefán um að sleppa mikilvægum forsendum í útreikningum sínum til þess eins að teikna upp svarta mynd af kjarasamningunum. Stefán vísar því alfarið á bug og sakar Vilhjálm sömuleiðis um grófar blekkingar.

Í færslunni segir Vilhjálmur að Efling og Stefán hafi haldið uppi linnulausum rangfærslum. Meðal annars þeim að nýgerður kjarasamningur SGS kalli á kaupmáttarskerðingu launafólks sem að mati Vilhjálms er undarlegt í ljósi þess að kauptaxtar hækki að meðaltali um 11,28% en verðbólguspá er tæplega 6% sem ætti að þýða um 5,28% kaupmáttaraukningu. Hann hafi því spurt Stefán út í þessa útreikninga hans og Eflingar í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni.

Grófasti blekkingarleikur sem Vilhjálmur hefur séð

„Svarið frá fræðimanninum var vægast sagt stórundarlegt svo ekki sé fastar að orði kveðið en hann sagði orðrétt: „hins vegar að taka verði rýrnun á kaupmætti, sem hafi orðið á síðari hluta síðasta árs, inn í myndina.“ Hérna komum við að einum óheiðarlegasta blekkingarleik sem ég hef orðið vitni að, allt til að senda grafalvarlegar rangfærslur út til almennings og afvegaleiða innihald kjarasamnings SGS. Það sem Stefán fræðimaður gerir ásamt forystu Eflingar er að taka hækkun á vísitölu neysluverðs frá 1. apríl 2022 til desember 2022 sem var hækkun upp á 4,8% og segja að þessa hækkun á vísitölu neysluverðs verði að draga frá 11,28% hækkun á kauptöxtum sem SGS samdi um,“ skrifar Vilhjálmur og útskýrir frekar hvað hinn meinti blekkingarleikur snýst um.
„Jú, hann [Stefán] sleppir launahækkunum sem komu á kauptaxta verkafólks 1. janúar 2022 og 10.500 kr. hækkun vegna hagvaxtarauka sem kom til framkvæmda 1. apríl 2022. En þessar tvær launahækkanir samtals að fjárhæð 35.500 kr. skiluðu 10,7% launahækkun. Forysta Eflingar með Stefán Ólafsson prófessor og fræðimann í broddi fylkingar sleppir þessari 10,7% launahækkun sem kom til framkvæmda á fyrstu mánuðum ársins 2022 og velur sér síðan að mæla hækkun á neysluvísitölunni eftir að þessar launahækkanir eru komnar til framkvæmda og segir að draga þurfi „kaupmáttarrýrnun“ á seinni hluta ársins frá,“ skrifar Vilhjálmur.
Vilhjálmur segist hafa séð Samtök atvinnulífsins velja sér tímabil til að fá sem bestar niðurstöður máli sínu til stuðnings en segir að blekkingaleikur Stefáns og Eflingar sé sá grófasti sem hann hafi séð.
„Þessi ógeðfelldi blekkingarleikur sem forysta Eflingar ástundar til að koma villandi og röngum upplýsingum á framfæri til að koma ógeðfelldu höggi á 18 aðildarfélög SGS er afar óheiðarlegur. Það er umhugsunarefni að fræðimaður eins og Stefán Ólafsson sem ætlast til þess að hann sé tekinn alvarlega skuli voga sér að ástunda svona óheiðarleg vinnubrögð sem standast ekki eina einustu fræðilegu skoðun. Ég hef áður sagt að við erum að stíga þétt og jöfn skref í því að lagfæra kjör verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði og er þessi kjarasamningur sem við undirrituðum 3. desember einn áfangi í því enda framhald af lífskjarasamningnum. Launataxtar verkafólks eru að hækka frá 35.000 kr. upp í 52.000 kr. í þessum skammtímasamningi og laun stórra hópa eins og vaktavinnu- og fiskvinnslufólks eru að hækka um frá 50.000 upp í tæplega 70 þúsund krónur á mánuði. Kjarabaráttu fyrir bættum kjörum verkafólks lauk ekki í þessum kjarasamningi né lýkur henni í kjarasamningum framtíðarinnar enda er barátta fyrir bættum hag verkafólks eilífðarverkefni. Ég óska félagsfólki Eflingar svo sannarlega velfarnaðar í sinni kjarabaráttu sem framundan er en mér sem formanni SGS ber skylda til að upplýsa og verja þegar svona óheiðarlegur blekkingarleikur er ástundaður. Það er alls ekki hægt að sitja undir hvaða óhróðri sem er,“ skrifar Vilhjálmur.

Færsla Vilhjálms í heild sinni

Stefán grípur til varna og sakar Vilhjálm um blekkingar

Sá sem þarf að sitja undir ásökunum Vilhjálms, Stefán Ólafsson, grípur til varna í þræðinum og sakar hann verkalýðsleiðtogann um að fara ranglega með upplýsingarnar og birtir graf máli sínu til stuðnings.

„Á meðfylgjandi mynd má sjá tölur Hagstofunnar um kaupmátt launavísitölunnar frá 2019 til nóvember 2022. Þar kemur fram sá kaupmáttarbruni sem ég vísaði til, tapaður kaupmáttur vegna aukinnar verðbólgu á seinni hluta síðasta árs. Síðan mun koma inn í tölfræði Hagstofunnar hækkun vegna nýgerðra kjarasamninga frá og með nóvember 2022. Þá mun aftur koma toppur í línuna, eins og gerðist í byrjun árs 2021 og svo aftur í byrjun árs 2022. En í kjölfar þess mun kaupmátturinn rýrna aftur vegna áframhaldandi hárrar verðbólgu, eins og gerðist bæði 2021 og 2022 (sbr. myndin). Þú þarft að skoða kaupmáttaráhrif hinna nýju kjarasamninga í samhengi við það sem þegar hefur tapast í kaupmætti. Síðan átt þú auðvitað ekki að telja hækkanir vegna Lífskjarasamningsins 1. jan. 2022 og í apríl 2022 vegna hagvaxtarauka inn í þinn kjarasamning. Það er alvöru blekking og reyndar ansi grófleg. Þetta hafa SA-menn að vísu líka gert – en þá er spurningin hvort þeir hafi lært það af þér eða þú af þeim,“ skrifar Stefán.

Grafið sem Stefán birti
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki