fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Björn Jón skrifar: Niður í hyldýpið

Eyjan
Sunnudaginn 2. júlí 2023 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Því hefur verið haldið fram að með Ópinu (n. Skrik) hafi Edvard Munch viljað túlka neyðaróp ráðvilltra nútímamanna. Verkið hafi jafnvel verið málað undir áhrifum af skrifum Friedrichs Nietzsche sem lætur vitstola mann mæla svo í Die fröhliche Wissenschaft: „Hröpum við ekki viðstöðulaust?“ og „Ráfum við ekki um eins og í óendanlegu tómi?“

Þessa sömu líkingu af hyldýpinu mátti lesa í áhrifaríku viðtali við franska heimspekinginn og rithöfundinn Pascal Bruckner sem birtist í Le Figaro á fimmtudaginn var, en ofbeldisseggir hafa enn gengið berserksgang um franskar borgir þá þrjá sólarhringa sem liðnir eru síðan þá. Mjög hefur verið rætt um að ástæður voðaverkanna liggi í félagslegu óréttlæti, misskiptingu og mislukkaðri aðlögun innflytjenda að frönsku samfélagi, en Bruckner skyggnist víðar um og veltir því upp um leið hvert samfélagið stefni.

Hann segir hörmulegt andlát hins unga Nahel á dögunum notað sem yfirvarp („La mort tragique du jeune Nahel n‘est qu‘un prétexte“ er yfirskrift viðtalsins); yfirvarp sem henti fullkomlega þeim leikþætti sem nú sé settur á svið. Þetta sé eins og eftir handriti. Ofbeldi og skemmdarverk séu hluti af daglegu lífi í hverfum margra borga Frakklands en blasi þessa dagana við allra augum.

Að verki séu allsherjarniðurrifsöfl, oft sé þetta tengt viðskiptum með ólögleg fíkniefni og þarna sameinist hvers kyns ofbeldisfullir jaðarhópar sem vilji franska ríkið feigt; gjarnan sé um að ræða níhilista — tómhyggjumenn — sem hafni algildum sannindum og vilja brjóta niður stofnanir samfélagsins — án þess að hafa nokkra stefnu um hvað eigi að koma í staðinn.

Kveinstafir kjörorð dagsins

Bruckner er af kynslóð „nýju heimspekinganna“ (fr. nouveaux philosophes) sem gagnrýndu snemma á áttunda áratugnum þann marxisma sem gegnsýrt hafði franska heimspeki lengi. Meðal annarra nafntogaðra talsmanna nýju heimspekinnar eru Bernard-Henri Lévy, Alain Finkielkraut og André Glucksmann. Sumir þeirra höfðu áður verið maóistar en snúist gegn kommúnismanum.

Bruckner hefur líka verið gagnrýninn á pólitíska rétthugsun; hún sé „ræðulistarsmyrsl sem borið sé á ben þjáðra minnihlutahópa“. Hann hefur einnig orðað það svo að kveinstafir séu kjörorð dagsins og fólk á Vesturlöndum leiki ýmist saklaus börn eða þjáð fórnarlömb. Þá hefur hann sömuleiðis gagnrýnt sjálfsmyndarstjórnmál samtímans og skrifaði eitt sinn að maðurinn yrði „einvörðungu til sem einstaklingur þegar persónulegir eiginleikar verða mikilvægari en þjóðerni, húðlitur, útlit og staða að öðru leyti“.

Fordæma verður allt ofbeldi

Bruckner segir róttæklinga yst á vinstrivængnum hafa öðlast samúð með öfgafullum íslamistum á síðustu árum. Þetta blandist við svæsið gyðingahatur og því miður sé það svo að í listum megi glögglega greina upphafningu og beinlínis aðdáun á villimennsku viðlíka þeirri sem birtist í skálmöldinni nú. Yst á vinstrivængnum kunni menn vel fræðin og rifji upp orð Karls Marx um ofbeldið sem „hina miklu ljósmóður sögunnar“. En hafa verði í huga að hvers kyns umburðarlyndi gagnvart fólskuverkum magni þau enn frekar. Fyrir hinum ofstopafyllstu sé ekkert annað en leikur að bera eld að strætisvögnum, limlesta slökkviliðsmenn eða lúskra á konum og börnum.

Nákvæmlega ekkert geti réttlætt ofbeldisverkin, en Bruckner segir þau eiga sér mun færri formælendur meðal almennings en í fyrri mótmælaöldum, svo sem uppþotunum 2005 og óeirðum gulstakka sem flestum eru í fersku minni. Hann bætir því við að Jean-Luc Mélenchon og aðrir forystumenn róttækra vinstrimanna gefi þjóðernisflokknum Ressamblement National (flokki Marine Le Pen) byr undir báða vængi með því að réttlæta þau óhæfuverk sem nú séu framin. Öfgaöflin til vinstri og hægri gangi hönd í hönd niður í hyldýpið.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Brynjar Níelsson: Sjálfstæðisflokkurinn hætti að tala við kjósendur sína sem misstu þolinmæðina gagnvart flokknum

Brynjar Níelsson: Sjálfstæðisflokkurinn hætti að tala við kjósendur sína sem misstu þolinmæðina gagnvart flokknum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju
Eyjan
Fyrir 5 dögum

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Valdalaus Bjarni Ben veitir leyfi til hvaladráps næstu fimm árin – Ný ríkisstjórn hlýtur að ógilda leyfið

Orðið á götunni: Valdalaus Bjarni Ben veitir leyfi til hvaladráps næstu fimm árin – Ný ríkisstjórn hlýtur að ógilda leyfið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“