Heimildin birti nú fyrir stuttu frétt þar sem fram kemur að Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar hafi fengið þau tilmæli í vor frá Skattinum að hún ætti að greiða tekjuskatt en ekki fjármagnstekjuskatt af þeim hagnaði sem áskriftarréttindi að hlutabréfum í Kviku banka skiluðu henni. Í kjölfar tilmælanna greiddi Kristrún tæplega 25 milljóna króna skattgreiðslu.
Aðrir einstaklingar sem starfað höfðu hjá Kviku banka eins og Kristrún og fjárfest í áskriftarréttindum eða kaupréttum sem í boði voru fengu sömu tilmæli.
Kristrún tjáði Heimildinni að hún hefði upphaflega fengið þær leiðbeiningar frá Kviku að greiða ætti fjármagnstekjuskatt af hagnaðinum.
Hagnaður Kristúnar af áskriftarréttindunum í Kviku var 101 milljón króna en hún greiddi upphaflega 22 milljónir króna af honum í fjármagnstekjuskatt. Hún gerði ekki athugasemdir við það mat Skattsins að hún yrði að greiða tekjuskatt af hagnaðinum og því greiða hærri upphæð. Kristrún reiddi því fram rúmar 25 milljónir til viðbótar og hefur því alls greitt tæplega 47 milljónir til Skattsins af þessum 101 milljón króna hagnaði.
Þegar áskriftarréttindi Kristrúnar að hlutabréfum í Kviku voru til umfjöllunar í fjölmiðlum fyrir alþingiskosningarnar 2021 kunni hún því illa og neitaði að tjá sig um sín persónulegu fjármál. Eftir kosningarnar greindi hún hins vegar frá því í viðtali við RÚV að hún hefði nýtt áskriftarréttindin til að kaupa hlutabréf í Kviku fyrir þrjár milljónir króna. Um hefði verið að ræða áhættufjárfestingu sem hefði reynst fáránlega góð og í raun hefði þetta verið lottóvinningur.