Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, hvetur íslenska lífeyrissjóði til að selja hlutabréf sín í olíufélögum. Segir hann olíufélögin ráðast á íslenska neytendur með „svívirðilegum hætti“.
Vilhálmur skrifar á Facebook:
„Nú kemur fram frá Samkeppniseftirlitinu að álagning olíufélaganna hafi á 10 mánuðum farið úr 30 krónum upp í 70 krónur eða hækkað um 133%
Það er greinilegt að olíufélögin hafa ekki skilað lækkun á heimsmarkaðsverði til neytenda eins og eðlilegt væri. Þetta þýðir til dæmis að fjölskylda sem fyllir tankinn hjá sér einu sinni í viku er að greiða tæpum 9.000 kr. meira á mánuði í eldsneyti eða sem nemur 104.000 kr á ársgrundvelli. Allt vegna þess að olíufélögin hafa aukið álagningu sína um 133%:“
Vilhjálmur bendir á að lífeyrissjóðirnir eigi um 70 prósent í öllum olíufélögum landsins og því liggi beinast við að sjóðirnir selji þessa eign sína. Furðar hann sig einnig á því að seðlabankastjóri hafi ekki stigið fram og gagnrýnt forsvarsmenn olíufélaganna því líklega sé þessi aukna álagning að hafa áhrif á verðbólguna.
„Þetta ofbeldi gagnvart íslenskum neytendum er algjörlega ótækt og í mínum huga er ekkert annað í stöðunni en að íslenskir lífeyrissjóðir sem eiga uppundir 70% í öllum olíufélögum á Íslandi selji hlutabréf sín í þessum fyrirtækjum.
Hví í ósköpunum stígur seðlabankastjóri ekki fram og tuktar forsvarsmenn olíufélaganna til því það yrði fróðlegt að láta reikna út hvaða áhrif þessi aukna álagning olíufélaganna hefur haft á verðbólguna á síðustu mánuðum.
En áskorun mín til íslenskra lífeyrissjóða: Seljið hlutabréfin í þessum fyrirtækjum því þau eru að ráðast á íslenska neytendur með svívirðilegum hætti eins og staðfest er af hálfu Samkeppniseftirlitsins.“
Vísar Vilhjálmur til fréttar mbl.is þar sem greint er frá nýlegri úttekt Samkeppniseftirlitsins á eldsneytismarkaðinum. Þar komi fram að hlutur olíufélags af hverjum seldum lítra hafi rúmlega tvöfaldast frá því í maí 2022. Hægt sé að draga þá ályktun að verðlagning og álagning á dagvöru– og eldsneytismarkaði sé hér á landi há í alþjóðlegum samanburði sem veki upp spurningar um hvort samkeppnislegt aðhald á þessum markaði sé nægilegt.